miðvikudagur, júní 30, 2004
Mannasiðir
fimmtudagur, júní 24, 2004
Sund sund sund og meira sund
miðvikudagur, júní 23, 2004
Pottahelgin mikla í Víðihlíð
Á miðvikudaginn brunuðum við í Víðihlíð. Við brunuðum svo hratt að mamma gleymdi nokkrum hlutum, þar á meðal öllum fötunum mínum, svo pabbi og Sigurður Pétur skruppu rúnt í bæinn að sækja það sem hafði gleymst. Á meðan tókum við mamma á móti afa og ömmu og Sunnu og Magga og ég fór ekki að sofa fyrr en seint og um síðir. Ég var samt rosalega dugleg að fara að sofa, því allar snuddurnar mínar voru í bílnum hjá pabba og Sigurði Pétri svo ég sofnaði án þess að vera með eina einustu snuddu. Á fimmtudaginn var svo byrjað að koma pottinum fyrir, okkur Sigurði Pétri fannst heldur en ekki gaman að máta hann svolítið. Það var rosalega flott veður og Hekla skartaði sínu fegursta.
Það var nú einu sinni 17. júní, svo Sigurður Pétur heimtaði auðvitað hátíð. Og það var sko ekki amaleg hátíð, amma bakaði súkkulaðiköku með jarðarberjum og svo fengum við líka fullt af jarðarberjum að auki. Við fengum líka blöðrur, ég fékk hestablöðru og Sigurður Pétur uglublöðru. Mér fundust blöðrurnar mjög skrýtnar og skemmtilegar, þær gátu nefnilega flogið og svo skrjáfaði í þeim. Maggi var nú eitthvað að stríða mér og lét blöðruna mína fljúga alveg upp í loft þannig að ég náði ekki í spottann. Ég sá að ég gæti ekki látið stríða mér svona og æfði mig seinna í drykklanga stund í að hoppa, ég lagði mig alla fram en mér tókst nú ekki að láta tærnar lyftast frá gólfinu.En mér tókst alla vega að skemmta öllum mjög vel.
Kallarnir voru ótrúlega duglegir að smíða og setja upp pottinn svo að um kvöldið gátu allir farið í pottinn nema ég, klukkan var orðin of margt svo að ég þurfti að fara að sofa. En ég fékk að fara í hann daginn eftir og það var sko ekkert smá gaman, það er stökkpallur í honum og ég prílaði aftur og aftur upp á stökkpallinn og lét mig detta af honum á bólakaf. Á laugardaginn skruppum við líka í sund í Þjórsárdal, þar var reyndar ekki stökkpallur en hins vegar var brekka sem var mjög gaman að hlaupa niður.
Á sunnudaginn var svo kominn tími til að halda heim, það var reyndar svo gott veður að við ætluðum aldrei að komast af stað, en mamma og pabbi og afi og amma ákváðu samt að standa við það að fara torfærufjallveg heim. Það fannst okkur Sigurði Pétri sko gaman (þó við værum reyndar orðin pínu þreytt undir lokin, við vorum ekki komin heim fyrr en 11 um kvöldið). Mest fannst okkur gaman að hossast og keyra í vatn, Stóra Laxá var til dæmis mjög stór og djúp og skemmtileg. Það var líka gaman að stoppa og borða nesti, og skoða fjöllin og jöklana sem voru ótrúlega flott í góða veðrinu. En það var líka gott að koma heim og þó að klukkan væri orðin margt þá var ég ekkert til í að fara að sofa, ég vildi lesa allar bækurnar mínar, horfa á allar vídeóspólurnar, lita, kubba, púsla og bara gera allt sem er hægt að gera heima og ég var ekki búin að gera í marga daga. En svo var auðvitað líka gott að sofna í rúminu sínu, ég var nú orðin ansi lúin verð ég að viðurkenna.