fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Skilaboð til Svandísar

Mamma mín vill endilega heyra í þér sem fyrst, t.d. í msn ef þú hefur tök á að kíkja þar inn.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Prúður næturgestur

Hún Júlía Jökulrós var aldeilis ljúf og góð hjá okkur. Hún borðaði fullt af graut og drakk úr pelanum og fór svo bara að sofa. Klukkan sjö vaknaði hún og drakk meira úr pelanum (þá var ég sko vöknuð, ég var svo spennt eitthvað) og svo sofnaði hún aftur og ég þurfti að vekja hana klukkan tíu!

Við mamma fórum svo í húsdýragarðinn eftir hádegið og vorum þar lengi lengi, skoðuðum dýrin oft og mörgum sinnum og fórum þrisvar sinnum í fjölleikahúsið (vísindatjaldið). Ég fékk líka að fara einn hring á hestbaki, það er alltaf jafn gaman og ég er ótrúlega flink að sitja á hestinum.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Ljúfur laugardagur

Eftir sundið og fimleikana förum við mamma í bakarí og kaupum rúnnstykki í hádegismatinn og ég fæ að velja mér eitthvað gott í eftirmat. Í dag valdi ég mér amerískan kleinuhring með súkkulaðikremi. Þegar ég var svo búin með allt súkkulaðið ofan af honum rétti ég mömmu hálfnagaðan kleinuhringinn og sagði, "ég vil ekki meira bein".

Ég var líka að skoða myndir síðan ég var lítil og sagði þá, "ég var svo sæt þegar ég var lítil, ég sakna mín þegar ég var lítil!".

Á eftir kemur Júlía frænka mín í pössun til okkar og hún ætlar meira að segja að gista, svo þá fáum við nú að æfa okkur að hugsa um litla barn. Hún er líka ósköp sæt og rosa dugleg, hún er alltaf að reyna að skríða. Ég hlakka mikið til að fá hana og er búin að sitja úti í glugga að bíða eftir henni. Ég notaði tímann og þvoði gluggann með tungunni og höndunum, mamma var nú með einhverjar efasemdir en ég var alveg sannfærð um að glugginn væri glansandi hreinn og fínn hjá mér.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Nokkrar sögur

Einu sinni langaði mig í ís í brauði, en vissi ekki hvað það hét. En til að útskýra það sagði ég, mig langar ekki í íspinna, heldur svona ís í horni sem getur lekið.

Ein stúlkan á leikskólanum mínum átti afmæli, þá fengum við köku með bleiku kremi, en kakabrauðið var brúnt.

Stundum heyrir maður pínu skakkt, en finnst það alveg rökrétt. Til dæmis syng ég alltaf "Daginn í dag, daginn í dag, gef mér drottningu, gef mér drottningu!" (í staðinn fyrir "gjörði drottinn guð"). Og í Bangsímon-myndinni minni finnst mér rosalega fyndið þegar Kaninka segir við gulrótina "skiptir ekki máli þó þú þykist vera froskur" (í staðinn fyrir þroskuð).

Mamma kom í leikskólann í leigubíl til að sækja mig (pabbi var með einhverja útlendinga í bíltúr) og svo löbbuðum við heim. Þegar við komum út og ég sá hvergi bílinn okkar spurði ég mömmu, týndirðu bílnum þínum eða hvað?

Við mamma vorum í sundi að klæða okkur, ég var komin í öll fötin og mamma átti eftir að fara í sokkana sína. Þá spurði ég mömmu hvort ég mætti finna lyktina af sokkunum hennar. Mamma hló og sagði neinei. Þá spurði ég (hátt og snjallt), af hverju ekki? Er táfýla af þeim?

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Nú varð ég hissa

Þegar ég leit út um gluggann í morgun varð ég steinhissa og sagði: "Snjór á þriðjudegi? Ég hélt að það væri bara snjór á jólunum!"

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Svona er lýsi búið til

Maður tekur klaka, svona ísklaka, og setur í munninn. Geymir hann þar í nokkra daga og þá breytist hann í vatn. Svo setur maður í svona dropa og hrærir og þá breytist það í lýsi.