laugardagur, ágúst 23, 2008

Tilgangur þróunarinnar

Engir tveir sebrahestar eru með eins rendur, eins og engar tvær manneskjur eru með eins fingaför. En sebrahestar nota ekki tölvur, þannig að rendurnar þeirra eru bara til skrauts.

(Skýring frá mömmu, vinnufartölvurnar þeirra pabba og mömmu eru báðar með fingrafaralesara til að logga sig inn, augljóslega eru fingaför því til þess að komast inn í tölvur).

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Sigling

Í gær varð pabbi minn fertugur. Í tilefni dagsins ákvað mamma að gera eitthvað skemmtilegt, svo hún brunaði með okkur alla fjölskylduna niður á höfn og um borð í hvalaskoðunarskip. Svo sigldum við af stað, og byrjuðum um leið að veltast svoleiðis til og frá að maður þurfti virkilega að halda sér fast. Mér fannst þetta eiginlega bara fjör, en var nú samt aðeins orðin skrítin í maganum á tímabili. Og stóri bróðir minn var barasta mjög sjóveikur greyið. En ég sá fullt af hvölum og var hæstánægð með ferðina. Ég hvíslaði samt að mömmu þegar við vorum komin í land og gengum til baka fram hjá hvalveiðiskipunum, að þetta hefði nú verið meira spennandi ef við hefðum líka verið að veiða hvalina.

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Komin heim

Jájá, við erum semsagt komin heim úr fríinu, aldeilis búin að hafa það gott. Við tjölduðum sjö sinnum, enda var ég alveg farin að verða hissa hvað mamma og pabbi voru fljót að koma tjaldinu upp. Við tjölduðum í Laugafelli, Landmannalaugum, Landmannahelli, við Kaffi Langbrók í Fljótshlíð, í Vestmannaeyjum, Lóni og Atlavík. Við fórum líka tvisvar í Víðihlíð til að bíða af okkur rigningu, vorum á Akureyri í nokkra daga, og enduðum í skála í Húsavík eystri (sunnan Borgargjarðar eystri) í nokkra daga með ömmu sem var skálavörður þar í eina viku. Þar fannst mömmu eiginlega best að vera. Fyrir utan alla geitungana, einn stakk mig m.a.s. í fótinn en það var af því að ég var með sykurpúðaklístur á fætinum og af því að ég steig næstum ofan á búið. En þá líka fundum við búið og pabbi gat drepið það. Við keyrðum síðan alla leiðina heim úr Húsavík á 12 tímum, með viðkomu í Sænautaseli og á Skútustöðum. Það var nú ansi langt, en það voru allir orðnir svo spenntir að komast heim að við vorum bara mjög dugleg í bilnum. Núna bíð ég svo bara eftir að fá að fara í skólann og hitta allar vinkonurnar, ekki síst til að sýna þeim að ég er búin að missa tönn :-D