mánudagur, júní 30, 2008

Pæling

Konur kenna í brjósti um einhvern. En karlar, hvað gera þeir, kenna í geirvörtu um einhvern?

fimmtudagur, júní 26, 2008

Eyðimörk

Í skólanum í dag fórum við í eyðimörk. Eða eitthvað sem heitir líkt og eyðimörk... Já alveg rétt, Heiðmörk. Við löbbuðum þangað, ég var gett svöng á leiðinni og borðaði tvær pylsur þegar við komum á leiðarenda.

laugardagur, júní 21, 2008

Frakkland

Frakklandsferðin var einfaldlega æði, við mælum algjörlega með svona sumarfríi og getum ekki beðið eftir að komast aftur. Ég held að mömmu hafi næstum langað að skæla þegar við fórum af bátnum, hún vildi bara vera lengur að sigla. Sjáið bara hvað þetta var frábært.


Við flugum fyrst til Parísar og notuðum seinnipart þess dags til að taka skrens á Euro Disney. Það lukkaðist ótrúlega vel þó við hefðum ekki mikinn tíma þar (og borguðum fáránlega mikið fyrir þetta ævintýri).

Svo flugum við til Toulouse og tókum lest þaðan áfram til Castelnaudary þar sem við fórum í bátinn. Og það var sko alveg svona gaman!

Svo var bara siglt í rólegheitunum eftir Canal du Midi, við höfðum það aldeilis ljómandi gott eins og þið sjáið.

Við vorum líka dugleg að fara í land og hjóla, ég var búin að kunna að hjóla í tæpar tvær vikur þegar við fórum í ferðina og stóð mig bara mjög vel, hjólaði aldrei út í skurðinn en ég kom að vísu dálítið hrufluð og marin heim. Og reyndar mamma líka, hún steyptist af hjólinu og næstum út í vatnið þegar ég hjólaði beint fyrir hana fyrsta daginn.

Í Carcassonne var þessi hringekja, það er bara eitthvað við hringekjur sem er alltaf skemmtilegt.

Og þarna erum við að bíða eftir ís á veitingastað inni í gömlu borginni í Carcassonne. Ótrúlega fín og góð systkini :-)

Þetta var geggjað gaman, við vorum á veitingastað að borða kvöldmatinn og á meðan fullorðna fólkið var að klára að borða fórum við systkinin í náttúruskoðun. Við söfnuðum saman heilum dýragarði af sniglum, ótrúlega flottum og spennandi.

Og þarna er ég með ömmu og mömmu í sumarvindinum í Le Somail.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Ótrúlega spennt

Nú eru bara tveir dagar þangað til við förum til Frakklands og ég er alveg að springa úr spenningi. Ég er búin að vera mjög dugleg að æfa mig að hjóla því við verðum með hjól með okkur á bátnum, og svo er ég líka búin að vera dugleg að æfa mig í að fara snemma að sofa og vakna snemma, því við þurfum náttúrulega að vakna klukkan fimm til að fara í flugvélina. Við ætlum að reka nefið aðeins inn í Disneyland í París á föstudaginn, en það verður víst frekar stutt því það er ekkert opið fram á kvöld þar. Á laugardaginn förum við svo í aðra flugvél og svo í lest og svo hittum við ömmu og afa á bátnum. Svo verður bara hafist handa við að sigla í makindum um Canal du Midi.