mánudagur, febrúar 28, 2005

Lína og fleira fjör

Þá eru mamma og pabbi komin heim. Ég var ósköp glöð að sjá þau og fá skemmtilegu Bangsímon-seglana sem þau gáfu mér. Ég var nú samt alveg farin að vera góð við Sunnu og Magga líka, ég þurfti bara aðeins að prófa fyrst hvað ég gæti fengið að ráða miklu. Á laugardaginn komst ég loksins aftur á sundnámskeiðið mitt, ég er búin að missa af þremur tímum í röð því ég er búin að vera lasin. Það var rosa gaman, en dálítið skrýtið að við þekktum engin börn á námskeiðinu. Kannski voru bara allir sem við munum eftir orðnir lasnir. Við mamma vorum alla vega hálfringlaðar en ég var samt mjög dugleg að synda og kafa og sækja dót. Seinnipartinn fóru svo mamma og pabbi og amma og afi í Hjallabrekku í einhverja agalega fína veislu, en amma og afi á Akureyri voru í heimsókn hjá okkur og þau pössuðu okkur systkinin. Það var sko gaman, við fengum að fara út að leika og svo borðuðum við pizzu og horfðum á Spaugstofuna. Í gær var síðan loksins loksins komið að því að ég fékk að fara og sjá Línu Langsokk. Vá hvað hún er flott! Ég var alveg dolfallinn, sat og hélt í tíkarspenana mína þegar hún söng Línu Langsokk lagið og söng með. Hún var líka svo flink að hoppa, nú hoppa ég sko út um allt eins og Lína Langsokkur! Ég var náttúrulega frekar svekkt þegar leikritið var búið og ætlaði þá bara að fá Dýrin í Hálsaskógi næst, fyrst að Lína var búin, en við þurftum því miður að fara heim.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Í pössun

Mamma og pabbi eru búin að vera í útlöndum í marga daga, Sunna og Maggi eru að passa mig og eru voða góð við mig. Ég er kannski ekki alveg jafn góð við þau, en þau eru líka alltaf að reyna að stjórna mér, segja mér að fara að sofa á kvöldin og í leikskólann á morgnana, maður tekur því nú ekki þegjandi og hljóðalaust! Svo koma mamma og pabbi heim á morgun, þau hlakka bæði ósköp mikið til að koma og knúsa mig, og þá ætlar mamma að biðja mig að syngja lagið um Lillimann klifurmús því ég syng það svo skemmtilega. Það er nefnilega svona:

Lillimann tlifurmúsHér kemur Lillimann klifurmús
en kætinn ber inní sérker bússsem kæti ber inn í sérhvert hús
rrreddlune sönganamússíggmússregluleg söngva- og músíkmús
og meistanagítaslátturmússog meistara gítarsláttumús
tarrallalla
tarrallalla
tarrarallarallalla

föstudagur, febrúar 18, 2005

Allt á réttri leið

Læknirinn skoðaði aftur eyrað mitt áðan og það lítur bara ágætlega út. Ég þarf að fá dropana í nokkra daga í viðbót en svo er ég vonandi loksins að verða frísk. Eins gott líka að ég verði frísk í næstu viku því mamma og pabbi eru að fara til útlanda og Sunna og Maggi ætla að passa mig í húsinu okkar, þá verð ég nú að vera hress og góð stúlka.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Eyrnabólgan

Annað eyrað mitt er fullt af eyrnabólgu og ég er með hita, svo ég þarf áfram að vera heima. Ég fer nú að verða svolítið leið að komast aldrei í leikskólann! Ég fékk dropa í eyrað hjá lækninum í gær, vonandi reka þeir eyrnabólguna í burtu svo ég þurfi ekki að fá sýklalyf einu sinni enn. En asninn er alla vega næstum farinn og bara nokkuð gott hljóð í lungunum mínum.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Sumarfrísfjör

Við fórum aftur í sumarfrí í Víðihlíð um helgina, húrra gaman! Það var frí í leikskólanum mínum á föstudaginn og líka í skólanum hjá Sigurði Pétri, svo við fórum öll saman í Víðihlíð með skíðin mín, snjóþotuna og brettið hans Sigurðar Péturs. Hann var ótrúlega flinkur á brettinu þó hann væri að prófa það í fyrsta skipti, og sagði meira að segja að það væri skemmtilegra að vera á bretti heldur en að hjóla, og þá er sko mikið sagt! Ég var líka mjög dugleg á skíðunum en ég var samt ekki eins mikið úti og bróðir minn því það var dálítið kalt. Þá var nú notalegt að setjast bara inn í bíl og hlusta á tónlist. Svo lékum við bróðir minn líka á fullu inni, hoppuðum og hlupum og fórum í Gutta-leik (annað okkar var óþekkur Gutti og hitt kallaði "Gutti komdu heim"). Þetta var alveg brjálað fjör allt saman. En svo er hitt verri sagan að í gær fór ég að finna til í eyranu mínu og það kom eitthvað blautt í það, svo ég þarf að fara til læknis í dag. Eins og ég er búin að reyna að passa mig að verða ekki kalt og klæða mig vel, kannski verð ég bara að leggjast í hýði eins og múmínálfarnir og vakna aftur þegar vorið kemur. En það er þó bót í máli að amma Gisela og afi Jón eru í heimsókn svo ég get vonandi leikið svolítið við þau í dag.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Þetta er ekki Bangsímon


Þetta er Rósa sem er alveg eins og Bangsímon. Á þessu er reginmunur sem mér er mikið í mun að halda til haga. En ég fékk semsagt að vera eins og Bangsímon í leikskólanum í dag þar sem það var öskudagur. Vonandi verður líka öskudagur á morgun.

Eftir leikskólann var svo ekki minna gaman, því þá fékk ég loksins að heimsækja hana Katrínu dagmömmuna mína og Hilmar sem heitir pabbi. Það angraði mig reyndar dálítið að Katrín skyldi vera með öðruvísi hár heldur en síðast þegar ég sá hana, en það var samt svo gaman að hitta þau aftur og leika að öllu dótinu. Mamma er búin að lofa að við förum aftur að heimsækja þau fljótlega.

Það er asni í mér

Á mánudaginn fór ég til læknis sem skoðaði mig vel og vandlega. Svo sagði hann að það væri asni í mér og ég skyldi vera dugleg að anda, líka nýja fjólubláa. Þetta heyrði ég allt saman þó mamma og pabbi héldu að ég væri upptekin að skoða bækur og dót, og minnti mömmu á þetta um kvöldið.

Ég er tvisvar búin að fá saltkjöt og súpu og það er sá allra langbesti matur sem ég hef fengið. Ég hámaði í mig súpuna án þess að mega vera að því að segja orð á meðan (og það gerist nú ekki oft að ég megi ekki vera að því að tala) og þegar hún var búin rétti ég fram diskinn og hrópaði MEIRA!

Loks er svo það að frétta að Sunna, Maggi og fuglinn Nemó eru flutt til okkar. Það finnst mér nú ekki amalegt, mér finnast Sunna og Maggi svo skemmtileg og ég er voða spennt fyrir Nemó þó ég sé stundum pínu hrædd við hann. Til dæmis það fyrsta sem ég sagði þegar ég vaknaði í morgun var "má ég skoða Nemó".

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Og svo jólin

Við vorum auðvitað öll voða lasin um jólin, svo það var ekki tekið mikið af myndum. En eitthvað þó, og það er komið hér.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Hreindýrið

Hér koma þær loksins, sérstaklega fyrir Siggudís, myndir af hreindýrinu og fleiru úr frægðarförinni miklu í afmæli ME á Egilsstöðum.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Fleiri myndir

Nú eru komnar myndir frá því í ágúst, mest ættarmót í Heiðmörk en líka afmælið hans pabba og eitthvað smávegis með, og svo frá því í september sem er náttúrulega aðallega afmælið mitt.

Annars er lítið af mér að frétta, ég er bara eldhress en með ljótan hósta og hryglur. Ég skil samt ekki af hverju ég má ekki heimsækja Katrínu því mér er ekkert illt í puttanum lengur og þá hlýt ég að vera orðin frísk.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Má ég horfa á Emil, ég er búin að loka augunum

Þetta var það fyrsta sem ég sagði við pabba í morgun þegar ég vaknaði. Í gærkvöldi vildi ég nefnilega fá að horfa á Emil í tölvunni í pabba rúmi, það má stundum þegar maður er lasinn, en þá átti ég að loka augunum. En nú er ég búin að loka augunum og þá má ég horfa á Emil.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Fjör heima

Það er nú bara gaman að vera svona heima að leika með mömmu og pabba, í gær var pabbi heima að leika við mig og í dag er mamma hjá mér. Aðalfjörið er að fara í blöðruleikinn, þá spörkum við blöðru á milli á ganginum og svo segja mamma eða pabbi, "neinei, þetta má ekki", þegar blaðran fer inn í bílskúr (þ.e. tilvonandi baðið). Svo er líka gaman að hoppa og dansa og fara í æfingu (semsagt hlaupa eftir öllum ganginum og inn í stofu). Ég er ekkert mikið að liggja lasin uppi í rúmi þó ég sé með lungnabólgu, enda finnst mér ég ekkert vera lasin. Ég átti samt voða erfitt með að sofna í gærkvöldi, það var ekki fyrr en mamma gaf mér smá meðal og leyfði mér að sofa í sófanum sem ég gat sofnað. Klukkan var orðin svo margt að mamma og pabbi voru farin að sofa í sínu rúmi en ég vildi bara samt sofa í sófanum inni í stofu.