þriðjudagur, apríl 29, 2003

Húrra fyrir mér! Ég stóð upp, alveg sjálf. Það kom reyndar einhver skelfingarsvipur á mömmu, hún var held ég eitthvað hrædd um að plast-leiksláin sem ég stóð upp við væri ekki alveg nógu traust. En vá hvað ég er montin, nú er þetta allt að koma hjá mér sko.

mánudagur, apríl 28, 2003

Mamma sér glytta í báðar framtennurnar mínar uppi, haha, bráðum get ég sko aldeilis bitið almennilega. Og ég er alltaf að æfa mig að smella í góm, ég er rosa flink í því og ég er líka mjög montin að kunna það.

laugardagur, apríl 26, 2003

Þetta var aldeilis skemmtilegur dagur. Ég komst loksins í sund með stóra bróður. Við fórum í Árbæjarlaugina, þar var fullt fullt af fólki og við hittum tvær vinkonur mömmu, þessa hérna og líka þessa. Ég synti og kafaði og var mjög dugleg að sýna hvað ég er flink. Svo buðu amma og afi mér í kvöldmat í meiri maís og mamma og stóri bróðir fengu líka að koma með, pabbi fór nefnilega að spila körfubolta og keilu með einhverjum vinum sínum. Og ég hitti meira að segja líka Ástu frænku mína og Hauk, loksins, það er svo langt síðan ég hef séð þau að ég var ekki einu sinni með tönn þá! Svo þetta var heldur betur viðburðaríkur og skemmtilegur dagur.

föstudagur, apríl 25, 2003

Ég fór í sumardagsmat hjá ömmu og afa í Hjallabrekku í gær. Það var mjög gaman, ég fékk rosalega fín föt í sumargjöf svo ég geti verið algjör skvísa á Mallorca. Og ég fékk maísbaunir, namminamm, þvílíkt góðgæti hef ég nú bara varla smakkað fyrr. Amma var búin að kaupa fínan stól handa mér svo ég gat setið með öllum við borðið og vinkað á milli þess sem ég mokaði í mig maísbaununum. Mér finnst svo gaman að vinka, og líka að rokka, alltaf ef ég heyri skemmtilega tónlist eða takt þá rokka ég með hausnum. Verst að hann er dálítið þungur svo það er pínu erfitt.

miðvikudagur, apríl 23, 2003

Það er svo gaman að komast svona áfram sjálfur! Ég er alltaf að verða flinkari, kemst alveg á fleygiferð um stofugólfið. Ég meira að segja var að reyna að lyfta maganum áðan, ég held ég gæti komist hraðar þannig en það bara er svolítið erfitt. Áðan tókst mér að ná í fréttablað sem var á gólfinu og bíta af því smá bita áður en mamma kom stökkvandi og tók bitann af mér. Grrrrr óþolandi! Enda öskraði ég á hana og beit hana í puttann.

Annars fór ég í heilmikinn leiðangur í dag, mamma breytti vagninum mínum í kerru og við fórum í labbitúr og strætó til Sonju Margrétar vinkonu minnar. Þar var fullt af krökkum og mömmum og mjög gaman eins og alltaf. Þar tókst mér líka að stelast í kleinu sem var rosalega góð.
Nei, þetta vill ekki koma rétt. Jæja, þá bara er klukkan vitlaus, klukkutíma á undan.
Nú, það er ekki gert ráð fyrir að fólk sé ekki með sumartíma. Jæja, þá bara erum við á Azoreyjum.
Úps, klukkan er vitlaus, hún heldur greinilega að það sé sumartími á Íslandi. Best að reyna að laga það...
Ég hef frá svo mörgu að segja núna að ég veit bara ekki hvar ég á að byrja. Ég er búin að læra fullt nýtt og fara í ferðalag og allt hvaðeina. Við fórum til Akureyrar á miðvikudaginn, það gekk bara vel nema ég svaf nú eiginlega ekki neitt í bílnum. Þannig að ég var orðin frekar pirruð á að vera í bílnum, það er nefnilega dálítið langt til Akureyrar. En það var rosalega gott veður þar, ég fékk meira að segja að fara út og skoða tré og gras. Og það var fullt af frændum og frænkum sem voru alltaf að leika við mig. Það fannst mér sko gaman og ég var alltaf að vinka þeim. Ég er nefnilega búin að læra það, ég vinkaði ömmu Ingu Rósu bless áður en við fórum, og eftir það er ég bara á fullu að vinka. Svo reyndar hreyfa þau alltaf hendina eitthvað, ég á nú eftir að læra það. En þá fattaði ég líka að þetta var alveg rétt sem ég gerði um daginn þegar ég vinkaði pabba. Mamma eiginlega trúði honum ekki en ég var alveg að vinka.

Jæja, svo er ég nú búin að læra fleira, ég kann nefnilega núna að ýta mér áfram með hnjánum. Þannig að ég get alveg komist áfram og náð í dót sem mig langar í, húrra! Og ég kann næstum því að sýna hvað ég er stór, ég er ekki alveg viss á muninum á því og vinka, en það er alveg að koma.

Ég fékk margt gott að borða á Akureyri, kæfubrauð, alls konar grænmeti og meira að segja smá lambakjöt. Ég fékk samt ekki að smakka hamborgarhrygginn og heldur ekki páskaeggið. En mér var nú alveg sama um það, mér fannst mesta fjörið að fá að leika mér að skelinni innan úr Kinder páskaegginu mínu. Og naga dúkkuna hennar Silju, það var æðislegt. Við komum svo til baka á mánudaginn og aftur gat ég eiginlega ekkert sofið. Mamma sat bara aftur í og lék við mig. Svo fórum við til ömmu og afa í Kópavogi og borðuðum kvöldmat hjá þeim, ég fékk blómkál og maís og lambakjöt, nammi namm það var sko gott. Og ég sýndi þeim hvað ég er flink að skríða og allt, en ég var samt orðin voða þreytt. Þannig að við fórum bara snemma heim og ég fór loksins að sofa í hausinn minn.

Í gær fórum við loksins í 6 mánaða skoðunina. Ég er ekki lengur með eyrnabólgu, bara vökva í eyrunum og þess vegna er ég ennþá dálítið pirruð í eyrunum þegar ég er að drekka og svona. Ég er orðin 69 sentimetrar og 8,3 kíló, rosalega fín og flott og allt eins og það á að vera. Svava sagði að mamma mætti fara að gefa mér kæfubrauð, eins gott því það er uppáhaldið mitt! Svo fékk ég andstyggilega sprautu, ég lét nú lækninn alveg heyra það hvað mér fyndist um svona meðferð.

Amma og afi í Hjallabrekku komu svo í gærkvöldi og afi hjálpaði pabba að tengja rörin í arninum á meðan mamma og amma settu mig í baðið mitt. Svo kveikti pabbi eld í arninum, það fannst honum sko gaman. Og þá held ég að ég sé búin að segja frá öllu merkilegu sem er búið að gerast síðustu viku.

miðvikudagur, apríl 16, 2003

Jæja, þá eru fyrstu páskarnir mínir alveg að koma. Við förum keyrandi til Akureyrar á eftir og verður hjá afa og ömmu þar um páskana. Það verður örugglega gaman, þó það sé víst enginn snjór. Ég kann hvort sem er ekkert á skíði. Verst bara að ég má ekki fara í sund, það hefði verið gaman að fara í sundlaugina á Akureyri með stóra bróður. En það verður bara seinna, ég verð nú fyrst að vera viss um að vera laus við eyrnabólguna.

Pabbi er búinn að kaupa eldstæði í arininn, þetta er mjög efnilegt hjá honum verð ég að segja. Síðan á þetta alltaf að vera þannig sko að við krakkarnir erum úti að búa til snjókarl og svo komum við inn og drekkum heitt kakó fyrir framan arininn. Mamma segir reyndar að það verði aldrei neinn snjór, en hún er nú bara leiðinleg

sunnudagur, apríl 13, 2003

Oh, hún Ásta frænka mín ætti bara að sjá mig núna. Ég er svo agalega smart í ítölsku fötunum sem hún gaf mér, ekkert smá mikil skvísa. Og svo er ég meira að segja með fínu húfuna sem hún prjónaði á mig líka, hún er svo rosalega flott og svo er hún tvöföld þannig að hún er mjög hlý og góð fyrir börn sem er illt í eyrunum sínum. Mér líður reyndar miklu betur í eyrunum, þetta var bara allt annað líf eftir að ég fór að fá þetta meðal. En mér er samt ennþá pínu illt, til dæmis í gærkvöldi þegar ég var að reyna að sofna þá var ég alltaf að toga í eyrun mín. Æ ég vona að þetta bara batni sem fyrst, mig er líka farið að langa svo í sund, ég er ekki ennþá búin að fara í sund með stóra bróður.

Mamma og pabbi eru annars búin að vera voða dugleg. Aðallega reyndar pabbi, mamma fór bara í bíó í gær með Sigurð Pétur og Heiðar og steinsvaf þar. En svo sparslaði hún nú líka eitthvað smá. Pabbi er að smíða arinvegginn, þetta er að verða rosa flott hjá honum, hann er með svo sniðugar hugmyndir nefnilega. Þetta verður örugglega mjög fínt allt saman hjá þeim.

fimmtudagur, apríl 10, 2003

Mikið er nú gott að sofa á nóttunni. Og mikið er gott að vera ekki illt í eyrunum. Ég er búin að vera að taka þessa óþverra hóstasaft alveg þangað til í dag, rosalega er hún vond á bragðið! En ég hef alveg getað sofið eftir að mamma fór að gefa mér stíla á kvöldin. En svo fór mér að vera svo illt að ég bara skældi og skældi, mamma og pabbi skildu ekkert í þessu. Svo kíkti læknirinn í eyrun mín áðan og þá er ég með eyrnabólgu í báðum eyrunum. Þannig að nú er ég sloppin við hóstasaftina en komin með pensillín í staðinn, sem er nú ekki mikið skárra. Hins vegar líður mér strax betur, það er ótrúlegt hvað þetta virkar fljótt. Jæja, og svo er nú mamma mín loksins búin að fatta hvað ég vil fá að borða, ég vil bara fá almennilegan mat sem ég get borðað sjálf, ekki eitthvað smábarnamauk í skeið. Til dæmis núna er ég að háma í mig kæfubrauð, loksins fær maður eitthvað almennilegt á þessu heimili. Ég var farin að halda að ég yrði bara að lifa á seríosi!

þriðjudagur, apríl 08, 2003

Æjæjæjæjæjæ þetta er nú meira vesenið. Ég er með svo vondan hósta þannig að pabbi og mamma fóru með mig til læknisins í gær sem lét mig fá hóstasaft. Hún varaði pabba og mömmu við að þetta væri dálítið örvandi, og það var sko ekkert grín, ég svaf nefnilega næstum ekki neitt í nótt. Pabbi sagði að ég væri eins og upptrekktur trúður, ég vildi bara hafa fjör og leika mér. Klukkan fimm gaf mamma mér stíl til að reyna að róa mig, og það virkaði alveg, nema þá fattaði ég hvað ég var orðin rosalega þreytt og bara brotnaði niður og grét og grét. Æ þetta var alveg hræðilegt. Svo gat ég nú loksins sofnað um sexleytið í morgun og svaf í tvo tíma en þá vaknaði ég aftur og skældi svolítið meira. Svaf svo í klukkutíma í viðbót milli níu og tíu og svo í vagninum í einn og hálfan tíma eftir hádegið. Mamma og pabbi ætluðu nú bara að hætta að gefa mér meðalið, en hringdu samt í lækninn og hún vildi að ég fengi svolítið meira meðal en þau eiga að gefa mér stíl áður en ég fer að sofa í kvöld. Æ ég vona bara að ég geti sofið, það er voða vont að vera með hósta en það er líka voða vont að geta ekki sofið.

sunnudagur, apríl 06, 2003

Ég hefði átt að monta mig aðeins meira af því hvað ég er flink að sitja, rétt áðan datt ég með hausinn beint á parketið. Ég hélt ég myndi aldrei geta hætt að skæla, ósköp átti ég nú bágt.
Jæja, þá þarf ekkert að velkjast í vafa um það lengur, ég er snillingur! Í gær var mamma að leyfa mér að drekka vatn úr fílaglasinu (það er smábarnaglas með stuttu röri), svo setti hún glasið á borðið og hélt áfram að borða matinn sinn, en ég var ennþá þyrst, svo ég bara tók glasið og fékk mér meira vatn að drekka. Alveg sjálf! Mömmu og pabba fannst ég sko rosalega klár. Svo var pabbi á fullu að hreyfa hendurnar í gær, alltaf eitthvað að segja halló, halló, og hreyfa hendurnar. Ég hreyfði líka einu sinni hendina og það fannst pabba voða merkilegt, kallaði á mömmu og hélt áfram að segja halló og hreyfa hendurnar. Ég skil þetta ekki alveg, þarf að spá aðeins betur í þetta.

föstudagur, apríl 04, 2003

Ég hef alveg gleymt að monta mig af því að ég kann að sitja sjálf núna. Ég get alveg bara setið heillengi og leikið mér á teppinu mínu. Svo kann ég líka að fara niður á magann, en svo eftir það er ég föst, óþolandi! Alveg sama hvað ég syndi fast með fótunum, ég bara kemst ekki áfram. Í gær fékk ég að smakka kjöt, soðið og maukað með soðinni kartöflu, gulrót og rófu. Þetta var bara nokkuð gott fannst mér. Ég var að vísu ekkert voðalega svöng, en borðaði samt alveg nokkrar skeiðar af þessu mauki. Og Þórður frændi kom í heimsókn í gær. Það fannst mér gaman, mér finnst svo gaman þegar einhver kemur í heimsókn til mín. Jæja, best að hleypa mömmu í tölvuna svo hún geti farið að gera skattframtalið sitt.

fimmtudagur, apríl 03, 2003

Sjúkkit, kommentin eru alveg í lagi, ég hélt þau væru öll bara týnd. Íslensku stafirnir eru reyndar í mauki en vonum bara að þeir komist í lag líka. Minnir mann hins vegar á að gæfan er fallvölt á internetinu, verð að finna gáfulega leið (eða nógan tíma) til að taka backup af þessu öllu saman handa múluskottinu til að eiga seinna. Svo verð ég að brenna backupið á geisladisk því að harði diskurinn getur hrunið hvenær sem er eins og við vitum, og svo þarf að setja það á nýjan geisladisk eða hvað sem verður komið í staðinn eftir 10 ár eða svo, því geisladiskarinn endast ekki að eilífu heldur. Kannski ætti maður bara að prenta allt dótið út og búa til svona gamaldags pappírsdagbók...

þriðjudagur, apríl 01, 2003

Mér tókst að bíta til blóðs með tönnunum mínum í dag. Verst að ég beit bara sjálfa mig. Ég var að borða mjólkurkex og einhvern veginn tókst mér að bíta í neðri vörina, það var alveg hræðilega vont og blæddi í smá stund. En ég jafnaði mig nú samt fljótt. Svo er ég alveg hræðilega pirruð í kvefinu mínu, vonandi batnar það fljótt. Ég var alveg ómöguleg í kvöld, gat gleymt mér við eitthvað nýtt í smástund en svo var ég aftur bara pirruð og vildi eitthvað annað sem ég vissi ekki hvað var. Svo er mamma hálflasin og pirruð líka, svo það var ekki sérlega mikið fjör hjá okkur í kvöld. Pabbi var heldur ekki heima, svo við vorum bara tvær að pirrast hvor í annarri. Jæja, en ég sofnaði vel og vonandi get ég bara sofið í alla nótt, og mamma líka.
Ég las það í bók að konur með barn á brjósti verða pínu vitlausar. Það er víst til þess að þær nenni að hugsa um börnin, nenni að fara með sömu vísuna aftur og aftur, hrista hringlandi tuskudýr, dansa við Stubbalagið og svo framvegis. Ég vona svo sannarlega að þetta sé satt og þá líka að þetta gangi til baka þegar börnin hætta á brjósti. Á sunnudaginn fór ég nefnilega á vídeóleiguna og þegar ég ætlaði að fara að borga myndina sagði konan "þetta er bónusspóla". "Ha" sagði ég, "bónusspóla" svaraði hún. "Nei takk" sagði þá bananinn ég. Jæja, svo tókst konunni nú að koma mér í skilning um að þessi spóla sem ég væri að taka væri bónusspóla og ég þyrfti ekkert að borga fyrir hana. Og ekki nóg með það, heldur fékk ég líka víkingalottómiða í kaupbæti (eða ókeypisbæti). Ég ekkert smá ánægð, alltaf að græða, labba út með fína víkingalottómiðann minn og skil vídeóspóluna eftir á afgreiðsluborðinu. Jamm og já, jæja, best að fara að klappa saman lófunum...