miðvikudagur, apríl 23, 2003

Ég hef frá svo mörgu að segja núna að ég veit bara ekki hvar ég á að byrja. Ég er búin að læra fullt nýtt og fara í ferðalag og allt hvaðeina. Við fórum til Akureyrar á miðvikudaginn, það gekk bara vel nema ég svaf nú eiginlega ekki neitt í bílnum. Þannig að ég var orðin frekar pirruð á að vera í bílnum, það er nefnilega dálítið langt til Akureyrar. En það var rosalega gott veður þar, ég fékk meira að segja að fara út og skoða tré og gras. Og það var fullt af frændum og frænkum sem voru alltaf að leika við mig. Það fannst mér sko gaman og ég var alltaf að vinka þeim. Ég er nefnilega búin að læra það, ég vinkaði ömmu Ingu Rósu bless áður en við fórum, og eftir það er ég bara á fullu að vinka. Svo reyndar hreyfa þau alltaf hendina eitthvað, ég á nú eftir að læra það. En þá fattaði ég líka að þetta var alveg rétt sem ég gerði um daginn þegar ég vinkaði pabba. Mamma eiginlega trúði honum ekki en ég var alveg að vinka.

Jæja, svo er ég nú búin að læra fleira, ég kann nefnilega núna að ýta mér áfram með hnjánum. Þannig að ég get alveg komist áfram og náð í dót sem mig langar í, húrra! Og ég kann næstum því að sýna hvað ég er stór, ég er ekki alveg viss á muninum á því og vinka, en það er alveg að koma.

Ég fékk margt gott að borða á Akureyri, kæfubrauð, alls konar grænmeti og meira að segja smá lambakjöt. Ég fékk samt ekki að smakka hamborgarhrygginn og heldur ekki páskaeggið. En mér var nú alveg sama um það, mér fannst mesta fjörið að fá að leika mér að skelinni innan úr Kinder páskaegginu mínu. Og naga dúkkuna hennar Silju, það var æðislegt. Við komum svo til baka á mánudaginn og aftur gat ég eiginlega ekkert sofið. Mamma sat bara aftur í og lék við mig. Svo fórum við til ömmu og afa í Kópavogi og borðuðum kvöldmat hjá þeim, ég fékk blómkál og maís og lambakjöt, nammi namm það var sko gott. Og ég sýndi þeim hvað ég er flink að skríða og allt, en ég var samt orðin voða þreytt. Þannig að við fórum bara snemma heim og ég fór loksins að sofa í hausinn minn.

Í gær fórum við loksins í 6 mánaða skoðunina. Ég er ekki lengur með eyrnabólgu, bara vökva í eyrunum og þess vegna er ég ennþá dálítið pirruð í eyrunum þegar ég er að drekka og svona. Ég er orðin 69 sentimetrar og 8,3 kíló, rosalega fín og flott og allt eins og það á að vera. Svava sagði að mamma mætti fara að gefa mér kæfubrauð, eins gott því það er uppáhaldið mitt! Svo fékk ég andstyggilega sprautu, ég lét nú lækninn alveg heyra það hvað mér fyndist um svona meðferð.

Amma og afi í Hjallabrekku komu svo í gærkvöldi og afi hjálpaði pabba að tengja rörin í arninum á meðan mamma og amma settu mig í baðið mitt. Svo kveikti pabbi eld í arninum, það fannst honum sko gaman. Og þá held ég að ég sé búin að segja frá öllu merkilegu sem er búið að gerast síðustu viku.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli