miðvikudagur, júlí 26, 2006

Pomms

Í nótt skreið ég upp í til mömmu, en af því hún er með svo feita bumbu þá datt ég fram úr rúminu og meiddi mig heilmikið í vörinni. Ég grét og grét en vaknaði samt aldrei almennilega, og í morgun mundi ég ekkert eftir þessu. Þannig að þegar ég vaknaði og sá sárið þá var ég alveg viss um að þetta hefði komið þegar ég renndi mér niður tröppur á snjóþotu um páskana, þó að bróðir minn hefði sagt mér að gera það ekki. Svo ég horfði á sárið í speglinum og sagði, svona gerist þegar maður hlustar ekki á bróður sinn!

laugardagur, júlí 22, 2006

Sumar og sól

Loksins kom svolítið gott veður og ég fékk að fara í tívolíið. Ég skemmti mér alveg ótrúlega vel, fékk að fara í rússíbana og allt, alveg brjálað. Í gær fékk ég svo að fara á gæsluvöll með vinkonu minni úr leikskólanum. Það var líka rosalega gaman, ég fór með nesti og svo vorum við að leika okkur í næstum því fjóra klukkutíma. Við mamma vildum bara að við hefðum vitað af þessum gæsluvelli fyrr.

Og nú styttist í litla barnið. Mamma er orðin svolítið þreytt í bumbunni og fótunum (vægir fyrirvaraverkir og frekar slæm í grindinni) en annars líður henni bara vel. Baðherbergið er svo gott sem tilbúið og húsið að komast í samt lag aftur, svo það er allt á góðri leið með að verða tilbúið. Það er meira að segja búið að kaupa bílstól og bleyjur og gjöf frá mér handa litla barninu. Vonandi bíður það samt aðeins lengur í bumbunni, því við ætlum að reyna að skreppa í Víðihlíð í nokkra daga.

sunnudagur, júlí 16, 2006

Einasti

Þegar maður er að telja, til dæmis daga þangað til eitthvað gerist, þá kemur fyrst einasti, svo tveðji, svo þriðji og fjórði.

Í dag fór ég í Byko með mömmu og fór í leikvæmið á meðan hún keypti eitthvað smíðadót sem pabba vantaði. Ég var voða glöð að hitta krakka til að leika við, mér er búið að leiðast frekar mikið um helgina. Ég eignaðist meira að segja vin, hann gaf mér þvottaklemmu sem ég mátti eiga. Ótrúlega flott gjöf!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Baðið


Þarna er baðið komið á sinn stað. Ég er búin að fá að fara í það og synda um í því, það er sko alveg frábært.

Og nú er ég komin í sumarfrí. Ég er bara heima með mömmu, við erum búnar að fara á kaffihús og í sund og bráðum förum við vonandi í Húsdýragarðinn. Mig langar líka ótrúlega að fara í tívolíið í Smáralind, þó mamma sé eitthvað lítið spennt fyrir því. Svo kemur Rakel og leikur við mig eftir hádegið svo mamma geti lagt sig. Hún er orðin svolítið þreytt í bumbunni, enda er litla barnið alveg að verða tilbúið. Vonandi kemst pabbi líka í frí bráðum, hann er voða mikið að vinna núna alltaf með einhverjum útlendingum og er ekkert frí búinn að fá í sumar.

mánudagur, júlí 03, 2006

Á síðustu metrunum

Svona er mamma mín orðin feit (35 vikur)



og svona er baðherbergið aaaaalveg að verða tilbúið