miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Meistari slönguspilsins

Það er sko ég, ég mala mömmu alltaf í slönguspili. Ég er ótrúlega heppin með að lenda á stóra stiganum en mamma fer alltaf bara hring eftir hring í neðstu slönguna. Það finnst mér sko ótrúlega fyndið.

Af litla bróður er allt gott að frétta, hann er voða rólegur og góður sem er mjög gott því þá geta mamma og pabbi hugsað meira um mig. Ég er líka mjög dugleg að vera stóra systir, ég er góð að fara að sofa og dugleg að drífa mig í leikskólann á morgnana og kem svo hress og kát heim. Þá fer ég í slönguspil við mömmu eða út að labba með pabba og Gabríel, hlusta á sögur í herberginu mínu og mála eða lita, eða að lesa bók með pabba eða mömmu. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gera hjá mér.

Mamma er líka hress og kát, hún getur alveg sofið fullt og er ekki næstum því eins þreytt og þegar litli bróðir var í bumbunni. Pabbi er líka heima að passa hana og litla bróður og Gabríel. Hann fer alltaf með mig í leikskólann á morgnana og sækir mig oftast líka. Stundum fer hann labbandi með Gabríel og ég fer á hlaupahjólinu, það finnst mér skemmtilegast.

Nokkrar myndir eru svo komnar í viðbót af krúttapúttinu.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Litli bróðir stækkar

Litli bróðir er ótrúlega duglegur að sofa, drekka og stækka. Í 5 daga skoðuninni var hann kominn vel yfir fæðingarþyngdina sína. Svo þeir sem vilja sjá hann á meðan hann er ennþá lítill eru velkomnir í heimsókn, hringið bara á undan ykkur svo mamma og pabbi verði nú örugglega komin á fætur :-) Verst finnst okkur hvað afi Guðmundur er langt í burtu, hann var nýfarin að keyra rútu þegar litli bróðir fæddist. Við söknum hans og hlökkum til að hann komist að skoða litla afastrákinn. Amma Inga Rósa sótti mig í leikskólann í gær og fór með mig í Húsdýragarðinn. Þar lentum við í brjáluðu óveðri og þurftum að flýja inn. En það var samt ótrúlega gaman, við sáum refi og meira að segja einn yrðling. Í morgun spurði ég mömmu hvort amma myndi ekki sækja mig aftur í leikskólann, hún er miklu skemmtilegri en mamma og pabbi sem eru bara alltaf í leti.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Litli bróðir



Þetta er hann litli bróðir minn. Hann er ótrúlega rólegur og góður, sefur bara og drekkur og er algjört krútt. Þegar hann var loksins rekinn af stað var hann enga stund í heiminn, bara rétt um 3 tíma frá því mamma fékk drippið. Það fannst henni nú ekki mikið mál, þó hún skildi ekkert í því rétt á meðan hvernig henni hefði dottið í hug að gera þetta aftur. Fleiri myndir eru svo hér.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Örblogg

sætur, ég er búin að fara að skoða hann á sjúkrahúsinu

Örbloggfærslu sendi ég
Powered by Hexia

Örblogg

Litli bróðir fæddist í dag, hann er 17 merkur og 56 sm. og ótrúlega

Örbloggfærslu sendi ég
Powered by Hexia

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Allt í plati?

Það bólar ekkert á þessu litla barni, ætli mamma sé ekki bara búin að borða svona mikið nammi og þess vegna er hún svona feit og löt. Í morgun fórum við í leikskólahópnum mínum í göngutúr og hittum þá mömmu og Gabríel sem voru líka í smá morgungöngu. Það fannst mér nú sniðugt, þá gat ég gefið henni risastóra fífilinn sem ég hafði fundið. Ég vildi náttúrulega helst bara fara með þeim heim, en svo sættist ég nú alveg á að það væri ekki í boði. Enda er miklu skemmtilegra að vera í leikskólanum heldur en að hanga heima.

P.s. frá mömmu - það er í alvöru barn þarna, alveg satt! Það fær séns í einn dag í viðbót, annars verður gangsett á fimmtudagsmorguninn.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Ekkert litla barn

Já, mamma var líka búin að átta sig á því að þessi "Loksins" fyrirsögn gæti misskilist :-) En neinei, litla barnið situr sem fastast í bumbunni og ætlar ekkert að koma út. Nema kannski helst bara beint út um naflann eða eitthvað, það er voða mikið að hnoðast og sparka og vesenast þessa dagana. Mamma mín er ekkert kát með þetta lengur, aðallega af því það eru alltaf allir að tala um gangsetningu og hún vill það ekki. Annars líður henni ljómandi vel, fyrir utan bara að hún er náttúrulega þreytt og alltaf liggjandi í leti. Ég er líka alltaf að segja henni að vera ekki svona í leti, mér finnst hún sko algjör haugur stundum. En þá er nú líka gott að vera byrjuð aftur í leikskólanum og geta verið þar í fjöri með vinkonunum.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Loksins

Eins og það er gaman að fara í sumarfrí, þá er eiginlega ennþá skemmtilegra að fara aftur í leikskólann. Ég er búin að vera að vakna seinna og seinna á morgnana, í gærmorgun vaknaði ég til dæmis klukkan hálftíu, skreið þá fram í sófa og kúrði undir sæng fyrir framan teiknimyndir. En í morgun stóð ég fullklædd og tilbúin við rúmið hjá mömmu klukkan átta og sagði, eigum við ekki bara að drífa okkur! Og það var sko ekki amalegt að mæta í leikskólann og fá þvílíku knúsin og hlýju móttökurnar, ég held að ég sé með bestu leikskólakennara í heimi.

mánudagur, ágúst 07, 2006

Lestraræfingar

Mér finnst rosalega gaman að æfa mig að lesa, en ég nenni ekkert að lesa einhverjar leiðinlegar lestrarbækur um Óla og Ásu og ís og eitthvað. Skemmtilegast finnst mér þegar mamma og pabbi (aðallega pabbi, hann er miklu flinkari í því en mamma) skrifa eitthvað fyndið handa mér, eins og til dæmis "Rósa pissar í móa" og "Gabríel kúkar í rúmið hans pabba".

Engar fréttir

Það er ekkert að gerast, litla barnið hefur það bara notalegt í bumbunni og er ekkert að gera sig líklegt til að koma sér út. Ég byrja aftur í leikskólanum á morgun og hlakka mikið til, það verður svo gaman að hitta allar stúlkurnar aftur og fara aftur að hafa fasta reglu á dögunum.

Og afi Guðmundur á afmæli í dag, til hamingju með daginn afi minn!

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Meiri myndir

Þetta er kannski hreiðurgerðin hjá mömmu að lýsa sér svona ;-) Hún er alla vega búin að setja inn hvorki meira né minna en þrjú ný myndaalbúm! Það eru myndir úr jeppaferðinni sem við fórum í október með vinnunni þeirra pabba og mömmu, nokkrar leikskólamyndir frá því síðasta haust og fram að jólum og svo desembermyndir.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Myndir

Í tilefni þess að það er loksins búið að tengja öll tækin aftur eftir framkvæmdirnar og þar með myndirnar komnar aftur á netið, þá er mamma búin að setja inn nýtt albúm. Og það er hvorki meira né minna en, tandara, myndir frá afmælinu mínu, ekki einu sinni orðnar ársgamlar. Svo er aldrei að vita nema mamma dundi við að setja inn fleiri myndir á meðan hún bíður eftir litla barninu.