föstudagur, apríl 22, 2005

Gleðilegt sumar

Þá er sumarið komið og það er nú aldeilis ekki amalegt, ég er bara eiginlega alltaf úti. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera úti, blása sápukúlur, moka mold, hjóla á þríhjólinu og svo fékk ég meira að segja nýtt bleikt tvíhjól með körfu framan á og skrauti á handföngunum. Mér finnst samt svolítið erfitt að hjóla á því, þá er ágætt að hvíla sig aðeins og fara bara aftur á þríhjólið. Svo langaði mig líka að renna mér á skíðum, mömmu fannst það eitthvað fyndið og sagði að það væri ekki hægt af því það væri enginn snjór. Mér fannst nú alveg augljóst að ég gæti bara rennt mér á grasinu, skil ekki alveg hvað er að því.

mánudagur, apríl 18, 2005

Það kom að því

Í gær fór ég á sjúkrahúsið. Ég datt á hökuna mína í sturtunni og fékk svo vont sár að mamma og pabbi brunuðu með mig á sjúkrahúsið, þar sem ég fékk að leika mér við aðra krakka sem voru búnir að meiða sig. Ég fékk að leika lengi lengi, púsla, kubba, lesa og meira að segja blása sápukálur. Þegar ég var búin að leika mér í tvo klukkutíma kom læknirinn. Hann þvoði hökuna mína, setti lím á hana og plástur. Þetta var ósköp vont en ég var samt mikil hetja. Svo fékk ég að fara heim og sofna í pabba bóli.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Foreldrakaffi

Í dag buðum við stúlkurnar foreldrum okkar í kaffi á leikskólanum. Mér finnst alveg ótrúlega gaman að fá pabba og mömmu með í leikskólann, en það er svolítið erfitt fyrir litlar stúlkur að skilja að þau geti ekki verið allan daginn. En svo ætlar mamma að sækja mig eftir smá stund og fara með mig til læknis, það finnst mér gaman. Hann ætlar svolítið að laga mig af því ég datt svo illa aftur fyrir mig um daginn.

(Skýring frá mömmu: Rósalís er að fara í höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, það verður spennandi að sjá hvernig það gengur)

mánudagur, apríl 04, 2005

Pabbi í útlöndum

Aumingja pabbi þurfti að fara einu sinni enn til útlanda. Mamma fór sem betur fer ekki, ég er mjög glöð að hafa hana heima og er mikið búin að knúsa hana og segja henni að hún sé besti vinur minn. En ég sakna samt pabba og finn líka mikið til með honum að þurfa að vera í útlöndum. Ég er búin að tala dálítið við hann í síma, ég er orðin afskaplega mannaleg og ræðin í símann, ég sagði pabba til dæmis að það væri kominn snjór hjá okkur. Svo næst þegar ég talaði við hann þá var eiginlega allur snjórinn farinn, þá sagði ég honum að nú væri ekki svo mikill snjór hjá okkur því sólin væri búin að bræða hann. Pabbi spurði þá hvert snjórinn hefði farið, ég hugsaði mig aðeins um og sagði svo, út í sjó! Augljóslega, hvert annað ætti hann svosem að fara. Mamma þurfti að vinna um helgina, svo Tanja og Telma komu og fóru með mér út að leika í snjónum. Ég hjálpaði þeim að búa til snjókall í garðinum okkar. Það var ótrúlega gaman og nú bíð ég bara eftir að þær komi aftur, þær eru svo skemmtilegar.