þriðjudagur, október 17, 2006

Ekkert að gerast?

Jú, hér er allt búið að vera í fullum gangi að ganga frá íbúð á neðri hæðinni hjá okkur. Leigjendurnir flytja væntanlega inn um helgina. Svo er litli bróðir búinn að fá klippingu, mömmu og pabba fannst hann svo asnalegur með langar hárlufsur innan um skallablettina að þau snoðuðu hann bara. Það gekk að vísu ekkert stórkostlega vel, hann er aðeins minna asnalegur en ekki mikið.

Ég er á fullu í félagslífinu þessa dagana, mesta sportið er að fá að fara saman heim af leikskólanum með vinkonum mínum. Það eru líka nokkrar vinkonur hérna stutt frá sem ég get labbað til og spurt eftir þeim. Þetta er rosalega spennandi allt saman og ég vil helst alltaf vera að heimsækja einhverja og fá einhverja í heimsókn.

En á ég að segja ykkur eitt. Risaeðlurnar voru á jörðinni fyrir hundrað árum og þær eyðilögðu allt, meira að segja bílana. En nú er búið að laga allt á jörðinni. Svona veit ég nú margt. Ég veit líka hvernig regnbogi verður til, það verður að vera rigning og sól og þá kemur regnbogi. Rigningin kemur úr skýjunum og þegar vatnið gufar upp þá koma skýin.

föstudagur, október 06, 2006

Lengi er von á einum

Haldið þið að ég sé ekki bara komin með eyrnabólgu! Það er nú orðið langt síðan síðast, ætli það hafi ekki bara verið síðasta haust þegar ég fékk sýkingu undan rörinu sem átti að vera farið. Mér finnst alveg frábært að fá eyrnabólgu, þá fæ ég að fara til læknis og taka meðal. Það er bara eitt af því skemmtilegasta sem ég veit. Að vísu fannst mér ekkert gaman í gærkvöldi að vera illt í eyranu, það var svolítið erfitt að sofna, en svo fékk ég verkjalyf og þá leið mér betur.

Ég er að fara að halda aðra afmælisveislu um helgina, um daginn var það fyrir leikskólavinkonur mínar og núna verður fyrir frænkur mínar og frændur, og vini mína eins og ömmu og afa og svoleiðis. Ég hélt að þá yrði ég fimm ára, en svo útskýrði mamma fyrir mér að ég verð víst áfram fjögurra ára.