miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Svo dugleg að baka

Ég var svo rosalega dugleg að hjálpa mömmu að baka í gær. Fyrst fór ég inn í búrskápinn, náði þar í sykur og dreifði dágóðum slatta á gólfið. Og svo bakaði ég rosalega fínt á gólfið, alveg sjálf. Mamma var reyndar ekkert rosalega glöð með það, en hún getur sjálfri sér um kennt því hún leyfði mér að vera bleyjulaus.

mánudagur, nóvember 24, 2003

Ævintýraleiðangur

Í gær fór ég í rosalega flottan ævintýraleiðangur með ömmu og afa í Hjallabrekku og Þórði frænda. Fyrst fórum við að gefa öndunum í Kópavogi brauð. Þær voru mjög svangar og glaðar að fá brauð. Fyrst skildi ég nú ekki alveg hvað var um að vera, prófaði að bíta sjálf í brauðið og svona. En svo fattaði ég hvað átti að gera og reyndi eins og ég gat að henda til þeirra brauðinu. Svo þegar við vorum búin að gefa þeim brauðið, þá fórum við að skoða marga marga hunda. Það var sko flott. Og svo fórum við í Hjallabrekkuna að leika og ég fékk kleinu og allt. Sunna frænka kom líka þangað að knúsa mig. Svo fór hún og þá var ég líka farin að verða pínu lúin, svo ég náði í skóna mína og sagði jæja, þá vissu amma og afi að nú vildi ég fara heim.

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Duglegasta stelpan

Takk fyrir kveðjuna amma Gisela, ég er sko komin með hvorki meira né minna en 12 tennur. Og ekki nóg með það, því sú 13. er á leiðinni og það er meira að segja augntönn. Enda er hún búin að vera að pirra mig eitthvað held ég, alla vega hef ég verið óróleg á nóttunni undanfarið. Mamma og pabbi voru pínu hrædd um að ég væri kannski enn og aftur komin með eyrnabólgu, og líka bara af því að ég er búin að fá eyrnabólgu svo oft, þá ákváðu þau að fara með mig til eyrnalæknisins. Hann var nú skemmtilegur kall og mér fannst bara gaman hjá honum. Ég brosti bara til aðstoðarkonunnar hans á meðan hann var að skoða í eyrun mín og þau voru alveg hissa hvað ég var dugleg og góð. Eyrun mín voru líka alveg fín og engin eyrnabólga í þeim, við vorum nú ánægð að fá að vita það.

Í gær átti Sunna frænka mín afmæli og ég fór í veislu til hennar. Það var sko ekki ónýtt, ég fékk gulrótarköku og ís! Svo eru nú fleiri afmæli framundan, Anna-Lind frænka á afmæli eftir nokkra daga (en ég fer nú varla í veislu til hennar því hún er í Ameríku núna), og svo á amma Inga Rósa afmæli. Svo nokkru eftir það, þá á mamma mín afmæli og þá verður nú fjör, þá fá nefnilega allir pakka og borða góðan mat.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Stórt knús

Þið getið hnýtt í Stubbana eins og þið viljið, en ég er nú samt búin að læra af þeim að segja "stórt knús" (dah-da) og knúsa svo mömmuna mína. Ég er á fullu að bæta við orðum núna, mamma og pabbi skilja þau reyndar ekki öll, en þau eru að læra. Eitt af nýju orðunum mínum er til dæmis heitt (ahh) og svo blæs ég á hitann. Það getur verið maturinn minn, eða ofn, eða bara eitthvað sem er heitt. Svo finnst mér líka stundum eins og maturinn sé heitur þegar hann er bara eitthað skrýtinn, með nýrri áferð eða bragði eða eitthvað þannig. Þá blæs ég og blæs, en samt breytist maturinn ekkert. Svo kann ég líka að blása eins og vindurinn úti, hann blæs sko með stút á munninum og stórum kinnum.

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Ég elska pabba minn

Já pabbi er sko bestur, hann leyfði mér að borða smjör með puttunum beint upp úr dósinni. Sigurður Pétur stóri bróðir minn missti tönn í gær. Eða kannski er réttara að segja að hann hafi dregið úr sér tönn í gær, alla vega var tönnin öll í blóði og hann þorði ekki að taka hana til að setja hana undir koddann svo hann skildi hana bara eftir á vaskinum. En tannálfurinn tók samt tönnina og lét hann fá pening í staðinn, aldeilis heppinn var hann.

laugardagur, nóvember 15, 2003

Amma veit hvað hún syngur

Já, þetta er sko alveg satt sem hún amma mín segir, ég er hreinn og beinn snillingur sem kann að setja saman tvo kubba! Ég var ekkert smá montin, ég er búin að vera að reyna þetta svo rosalega lengi og í fyrrdag tókst mér það loksins. Ég klappaði sko og fagnaði og setti kubbana saman aftur og aftur og var bara afskaplega ánægð með mig. Og þetta er nú ekki allt, því ég er líka orðin mjög flink að borða sjálf, hjá dagmömmunni þá er ég rosalega pen og það má ekki koma neitt sull eða klístur á puttana mína, þá bara sit ég alveg kyrr með hendurnar út í loftið og bíð eftir að Katrín þurrki af mér. En ég er nú ekki alveg svona pjöttuð heima, til dæmis þegar ég fæ sojabúðing, sem mér finnst mjög góður, þá borða ég fyrst voða pen og fín með skeiðinni, en svo finnst mér voða gott að klára hann bara með puttunum. Eða öllu heldur allri hendinni, ég bara dýfi henni á bólakaf ofan í búðinginn og sting svo hendinni upp í mig. Og fleira kann ég, ég er búin að læra að herma eftir svínum og fuglum, það eru nú ekki mörg dýr eftir í dýrabókunum mínum sem ég kann ekki að herma eftir. Meira að segja kalkúnahljóð kann ég að gera.

Annað sem ég þarf að segja ykkur frá er hvað mamma mín er rosalega dugleg því hún er sko byrjuð að baka fyrir jólin! Mér finnst það voða spennandi og gaman að smakka kökurnar, en ég er samt ekkert voða hrifin af að borða þær. Þá finnst mér nú sviðasulta betri.

mánudagur, nóvember 10, 2003

Nú er stubbastund

Ég þarf víst að hanga heima einn dag í viðbót, búin að vera heima með mömmu síðan á föstudaginn. Svo ég er bara búin að koma mér fyrir í stólnum mínum og er að horfa á stubbana einu sinni enn. Þetta er sko uppáhaldsspólan mín og ég veit alveg hvenær ég vil horfa á hana. Áðan kveikti mamma á einhverjum öðrum barnatíma, ég horfði á hann í smástund en svo var hann bara ekkert skemmtilegur, svo ég kom til mömmu og sagði "e-ee-ehe", sem þýðir augljóslega "mamma þetta er ekki skemmtilegt, viltu setja stubbana".

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Namminamm

Ég fór í afmælisveislu í dag hjá honum Hannesi vini mínum sem verður tveggja ára á morgun. Þar fékk ég að smakka eitthvað það allra frábærasta sem ég hef nokkurn tímann vitað, nefnilega súkkulaðiköku með súkkulaðikremi og nammi. Þetta var svo rosalega gott að ég átti nú bara dálítið bágt með mig. Jæja eða kannski mjög bágt með mig, en það var nú bara af því mamma var eitthvað að reyna að skipta sér af hvernig ég fór að því að borða kökuna. Ég var dauðhrædd um að hún ætlaði kannski bara að taka kökuna af mér eða eitthvað, svo mér þótti vissara að öskra dálítið á hana mömmu mína. Ég var líka eina stelpan í afmælinu, svo ég þurfti nú aðeins að láta til mín taka. Þegar við síðan komum heim fékk ég annað sem mér þykir alveg rosalega gott, sem er steikt ýsa. Alveg finnst mér það sérlega góður matur, ég hámaði helling í mig og borðaði alveg sjálf með gafflinum mínum og allt.

laugardagur, nóvember 08, 2003

Alltaf sama sagan

Dagarnir feykjast út í buskann og heil vika liðin áður en við verður litið. Ég fór tvisvar til læknis í vikunni, fyrst var ég eitthvað vansæl og mamma lét athuga eyrun mín, þá var bara smá vökvi í eyrunum en ég átti að koma aftur ef ég yrði eitthvað meira lasin. Svo á fimmtudaginn var ég komin með 40 stiga hita, og þó mömmu grunaði að þetta væri bara pest, þá ákváðum við að láta samt skoða eyrun aftur til öryggis. Þau litu bara ágætlega út, en sama var ekki að segja um augað hennar mömmu, hún fékk einhverja sýkingu í það svo læknirinn lét hana fá augndropa. Við mamma vorum svo heima í gær, horfðum á Stubbana og sungum alls kyns lög. mér finnst til dæmis höfuð, herðar, hné og tær sérstaklega skemmtilegt þessa dagana. Ég var samt dálítið pirruð að hanga bara inni með mömmu allan daginn, sérstaklega af því ég gat eiginlega ekkert sofið. Við vorum báðar voða glaðar þegar pabbi kom heim.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Pabbastelpa

Mamma var víst í afmæli í gær og kom heim einhvern tímann seint, svo hún nennti ekki á fætur með okkur pabba klukkan korter yfir sex. En pabbi fór bara með mér upp og eldaði handa mér hafragraut. Ég var nú ekkert sérlega ánægð þegar hann ætlaði að fara að mata mig, ég vildi bara borða sjálf og öskraði á hann í dágóða stund. En svo sættist ég nú alveg við hann pabba minn og hann meira að segja kenndi mér að kyssa með smelli, mamma var alveg hissa þegar hún sá að ég var búin að læra það.