Takk fyrir kveðjuna amma Gisela, ég er sko komin með hvorki meira né minna en 12 tennur. Og ekki nóg með það, því sú 13. er á leiðinni og það er meira að segja augntönn. Enda er hún búin að vera að pirra mig eitthvað held ég, alla vega hef ég verið óróleg á nóttunni undanfarið. Mamma og pabbi voru pínu hrædd um að ég væri kannski enn og aftur komin með eyrnabólgu, og líka bara af því að ég er búin að fá eyrnabólgu svo oft, þá ákváðu þau að fara með mig til eyrnalæknisins. Hann var nú skemmtilegur kall og mér fannst bara gaman hjá honum. Ég brosti bara til aðstoðarkonunnar hans á meðan hann var að skoða í eyrun mín og þau voru alveg hissa hvað ég var dugleg og góð. Eyrun mín voru líka alveg fín og engin eyrnabólga í þeim, við vorum nú ánægð að fá að vita það.
Í gær átti Sunna frænka mín afmæli og ég fór í veislu til hennar. Það var sko ekki ónýtt, ég fékk gulrótarköku og ís! Svo eru nú fleiri afmæli framundan, Anna-Lind frænka á afmæli eftir nokkra daga (en ég fer nú varla í veislu til hennar því hún er í Ameríku núna), og svo á amma Inga Rósa afmæli. Svo nokkru eftir það, þá á mamma mín afmæli og þá verður nú fjör, þá fá nefnilega allir pakka og borða góðan mat.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli