fimmtudagur, september 18, 2008

Afmælisstelpa

Loksins á ég afmæli í dag. Ég er náttúrulega búin að vera að bíða eftir þessu í marga daga og átt frekar erfitt með að sofna undanfarin kvöld. Ég spratt á fætur í morgun og fékk afmælissöng og pakka. Frá mömmu og pabba fékk ég myndavél (leikfanga, en samt stafræn, ótrúlega flott) sem getur meira að segja tekið smá vídeó. Svo mamma fékk að syngja afmælissönginn nokkrum sinnum inn á vídeó klukkan sjö í morgun, það var hressandi. Guðmundur Steinn söng líka fyrir mig, Khokha ammilidag :-) Svo fór ég með inn á leikskólann og hitti þar hana Hjördísi sem var hópstjórinn minn og knúsaði mig í bak og fyrir í tilefni dagsins, það var ósköp yndislegt. Og á eftir fæ ég svo að bjóða vinkonum mínum í Smáralindina í veislu, þá ætla ég sko að taka myndir af þeim öllum.

sunnudagur, september 07, 2008

Leikhúsið

Við skelltum okkur á opið hús í Þjóðleikhúsinu í gær, og það var svo aldeilis ljómandi skemmtilegt. Við sáum atriði úr Lífið er diskó og Skilaboðaskjóðunni, fengum að máta búninga, sáum alblóðuga menn úr Macbeth og líka Einar Áskel brúðuna, fengum kleinur og pylsur og andlitsmálningu. Þetta var bara alveg frábært og mjög vel heppnað fannst okkur, ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhver úr Þjóðleikhúsinu sjái þetta þá bara þökkum við kærlega fyrir okkur :-)