miðvikudagur, mars 31, 2004

Mamma kjáni

Eins og hún ætlaði nú að muna eftir því og hafa í huga, þá var hún búin að steingleyma að ég var í sprautu 10 dögum áður en ég varð lasin. Og þessi sprauta lætur mann víst einmitt oft verða lasinn með háan hita 5-10 dögum seinna. Svo þá vitum við alla vega hvað var að mér, ég held ég sé meira að segja að verða hitalaus svo vonandi er þetta bara búið. Ég væri nú alveg til í að fara að komast til dagmömmunnar, við mamma erum að verða pínu þreyttar á hvor annarri, hangandi inni allan daginn.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Enn og aftur lasin

Ég er orðin ósköp lasin og fékk næstum 40 stiga hita. Það var reyndar eiginlega bara gaman, ég varð alveg rugluð og bara hljóp um og bullaði. Svo gaf mamma mér stíl og þá varð ég bara voða þreytt. Við erum búnar að fara tvisvar til læknis og ég er ekki komin með nýja eyrnabólgu, bara ennþá eitthvað pjæ í eyrunum síðan síðast. En ég er komin með hor og hósta svo það er víst mikil hætta á að ég fái eyrnabólgu einu sinni enn. Ég reyni bara að vera dugleg að fá nefdropa og drekka vatn og vona að ég sleppi.

Annars var rosalega gaman hjá mér um helgina, ég fór í sund með pabba og mömmu og Sigurði Pétri og það var sko endalaust fjör. Ég bara kafaði og synti og náði í bolta og lék mér allan tímann. Helst vildi ég bara láta sleppa mér svo ég gæti synt sjálf. Ég er viss um að ég get það alveg, þó ég hafi reyndar strax farið á kaf þegar mamma sleppti mér. Á sunnudaginn fór ég svo í afmælisveislu til þeirra Hauks og Péturs og Silju. Það var sko gaman, fullt af krökkum sem voru að leika við mig og fullt af Stubbadóti og ég fékk bæði köku og snakk. Frábært bara!

fimmtudagur, mars 25, 2004

Meiri dagurinn

Já, þetta var nú meiri dagurinn í gær. Ég held ég hafi bara verið eitthvað utan við mig eftir að Lappi dó, alla vega var ég ekki alveg að hugsa skýrt og ákvað að skella mér niður tröppurnar á sparkbílnum mínum!!! Það var rosa fjör í örstutta stund, en svo náttúrulega endaði ferðin frekar illa þó hún hefði getað endað miklu verr. Ég fékk bara smá skrámur í framan og stóra kúlu á ennið, mamma var alveg viss um að ég væri mölbrotin svo ég slapp víst bara ótrúlega vel.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Vertu sæll Lappi naggrís

Ég á eftir að sakna þín, mér fannst svo gaman að fá að klappa þér og gefa þér gulrót. Sigurður Pétur er ósköp leiður, enda var hann búinn að þekkja þig svo lengi. Takk fyrir samveruna Lappi minn og sofðu rótt.

sunnudagur, mars 21, 2004

Frábær helgi

Þetta er nú aldeilis búin að vera skemmtileg helgi. Í gær komu amma og afi og náðu í mig og fóru með í leiðangur, við fórum í fjöru að henda steinum og pota í sjóinn og við gáfum öndunum í Kópavogi brauð. Ég skemmti mér líka við að elta öldur, og hlaupa upp á þúfu og hoppa aftur niður. Þetta var mikið fjör. Svo fór ég heim með þeim og lét lesa fyrir mig allar bækur sem ég fann og svo fékk ég að borða lifrarpylsu og vínber og alls kyns gott. Í morgun fórum við svo loksins aftur í sund. Það fannst mér alveg frábært og sönglaði "dunn, dunn" alla leiðina í sundið. Ég skemmti mér líka rosalega vel við að kafa og elta bolta og busla um allt. Ég var miklu öruggari en um daginn, þetta verður fljótt að koma aftur þó ég sé aðeins búin að gleyma frá því á sundnámskeiðinu. Þegar við vorum búin í sundi vildi ég helst bara fara strax aftur í sund, en mamma lofaði að við skyldum fara aftur fljótlega. Svo fékk ég að fara að sjá Sigurð Pétur í karate, það var sko flott! Núna er ég að leggja mig, og svo ætluðu pabbi og mamma með okkur í húsdýragarðinn, en það er eitthvað svo kalt og hvasst að ég held að þau séu að guggna á því. Við finnum okkur þá bara eitthvað annað skemmtilegt að gera, kannski förum við í einhvern smá leiðangur.

miðvikudagur, mars 17, 2004

Heilsufréttir og fleira

Ég var nú sem betur fer fljót að jafna mig á ótætis gubbupestinni, en bakteríurnar náðu víst að hreiðra um sig í eyrunum mínum svo nú er ég komin með eyrnabólgu enn eina ferðina. Ég var samt ágætlega hress um helgina og það var voða gaman að fá Silju og Hauk í heimsókn á laugardaginn. En ég fékk ekkert að fara í sund af því að ég var með smá hita. Það gengur ekki nógu vel hjá okkur að komast í sund, um daginn ætlaði mamma að fara með mig þegar hún náði í mig til dagmömmunnar, en þá komumst við að því að innisundlaugin er bara opin um helgar. Ég var alveg ægilega svekkt því við vorum komnar í sundlaugina þegar við komumst að þessu, ég lá á glerinu og kallaði "dottna, dottna". Ég er auðvitað alltaf að læra að segja eitthvað nýtt, nú er ég farin að setja saman þrjú orð og nýja uppáhaldsorðið mitt er "mi" sem þýðir minn/mín/mitt. Eins og til dæmis "haaa dudda mi" eða "haaa gúga mi" (hvar er kakan mín). Ég kann líka að segja nöfn allra í fjölskyldunni, mamma heitir Deddlinn, pabbi heitir Gakkúm, bróðir minn heitir Dassi og sjálf heiti ég Dossa og er essimm (eins árs).

föstudagur, mars 12, 2004

Veslings ég

Ég er komin með hræðilega gubbupest, og ekki nema vika síðan ég var síðast með gubbupest! Verst að þessi er miklu verri en sú síðasta, ég finn ósköp mikið til og líður voða illa. Mér líður samt ágætlega á milli, en ef ég borða eitthvað þá bara tollir það í maganum mínum í 5-10 mínútur. Ég vona bara að mér batni fljótt, því á morgun ætlar hún Silja frænka mín og Haukur frændi minn að koma í heimsókn til okkar, það verður örugglega mikið fjör.

miðvikudagur, mars 10, 2004

Stór áfangi

Nú er ég aldeilis orðin stór stúlka, ég fór alein til afa og ömmu í Hjallabrekku og var þar í marga daga og svaf í nýju rúmi og allt. Mamma og pabbi voru í stóru flugvélinni á meðan, ég skil nú ekki hvernig þau nenntu að vera svona lengi í henni, enda voru þau dauðþreytt þegar þau komu heim. Það var mjög gaman hjá afa og ömmu, amma náði í mig til dagmömmunnar á föstudaginn og svo bara fór ég að leika mér og borða matinn minn og svona. Og svo fór ég barasta að sofa. Mér fannst samt betra að hafa ömmu hjá mér í smá stund að strjúka bakið mitt og syngja, svona á meðan ég var að venjast nýja rúminu. Svo vakti ég afa eldsnemma á laugardaginn og fór að leika mér og borða og skottast eins og ég geri. Um daginn gerðum við afi og amma alls kyns skemmtilegt, við fórum meðal annars að gefa öndunum brauð (þær voru reyndar ekkert svangar svo ég bara borðaði brauðið sjálf), í rúllustigann í Smáralind og í heimsókn til Ástu frænku þar sem ég fékk köku með afskaplega góðu kremi. Svo fór ég bara aftur rosalega góð að sofa og vaknaði aftur eldsnemma rosalega góð og hélt áfram að hafa það gott og skemmtilegt með ömmu og afa. Amma bakaði vöfflur í kaffitímanum. Það fannst mér nú ekki amalegt, ég var bara næstum orðin södd af þeim þegar mamma og pabbi loksins komu. En ég gat nú látið mig hafa það að narta aðeins meira í þær þeim til samlætis. Svo vildi ég nú bara fara að drífa mig í bílinn og fara heim. En þetta var mjög skemmtileg helgi og ég held ég hafi alveg verið stillt og góð eiginlega allan tímann. Takk fyrir mig afi og amma, ég hlakka til að koma næst.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Ótrúlegt en satt

Mamma hafði það af að setja inn fleiri myndir, nú eru komnar myndir frá áramótunum á myndasíðuna mína. Svo er bara að halda áfram mamma mín, nú er bara megnið af janúar og allur febrúar eftir.