miðvikudagur, mars 10, 2004

Stór áfangi

Nú er ég aldeilis orðin stór stúlka, ég fór alein til afa og ömmu í Hjallabrekku og var þar í marga daga og svaf í nýju rúmi og allt. Mamma og pabbi voru í stóru flugvélinni á meðan, ég skil nú ekki hvernig þau nenntu að vera svona lengi í henni, enda voru þau dauðþreytt þegar þau komu heim. Það var mjög gaman hjá afa og ömmu, amma náði í mig til dagmömmunnar á föstudaginn og svo bara fór ég að leika mér og borða matinn minn og svona. Og svo fór ég barasta að sofa. Mér fannst samt betra að hafa ömmu hjá mér í smá stund að strjúka bakið mitt og syngja, svona á meðan ég var að venjast nýja rúminu. Svo vakti ég afa eldsnemma á laugardaginn og fór að leika mér og borða og skottast eins og ég geri. Um daginn gerðum við afi og amma alls kyns skemmtilegt, við fórum meðal annars að gefa öndunum brauð (þær voru reyndar ekkert svangar svo ég bara borðaði brauðið sjálf), í rúllustigann í Smáralind og í heimsókn til Ástu frænku þar sem ég fékk köku með afskaplega góðu kremi. Svo fór ég bara aftur rosalega góð að sofa og vaknaði aftur eldsnemma rosalega góð og hélt áfram að hafa það gott og skemmtilegt með ömmu og afa. Amma bakaði vöfflur í kaffitímanum. Það fannst mér nú ekki amalegt, ég var bara næstum orðin södd af þeim þegar mamma og pabbi loksins komu. En ég gat nú látið mig hafa það að narta aðeins meira í þær þeim til samlætis. Svo vildi ég nú bara fara að drífa mig í bílinn og fara heim. En þetta var mjög skemmtileg helgi og ég held ég hafi alveg verið stillt og góð eiginlega allan tímann. Takk fyrir mig afi og amma, ég hlakka til að koma næst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli