mánudagur, apríl 04, 2005

Pabbi í útlöndum

Aumingja pabbi þurfti að fara einu sinni enn til útlanda. Mamma fór sem betur fer ekki, ég er mjög glöð að hafa hana heima og er mikið búin að knúsa hana og segja henni að hún sé besti vinur minn. En ég sakna samt pabba og finn líka mikið til með honum að þurfa að vera í útlöndum. Ég er búin að tala dálítið við hann í síma, ég er orðin afskaplega mannaleg og ræðin í símann, ég sagði pabba til dæmis að það væri kominn snjór hjá okkur. Svo næst þegar ég talaði við hann þá var eiginlega allur snjórinn farinn, þá sagði ég honum að nú væri ekki svo mikill snjór hjá okkur því sólin væri búin að bræða hann. Pabbi spurði þá hvert snjórinn hefði farið, ég hugsaði mig aðeins um og sagði svo, út í sjó! Augljóslega, hvert annað ætti hann svosem að fara. Mamma þurfti að vinna um helgina, svo Tanja og Telma komu og fóru með mér út að leika í snjónum. Ég hjálpaði þeim að búa til snjókall í garðinum okkar. Það var ótrúlega gaman og nú bíð ég bara eftir að þær komi aftur, þær eru svo skemmtilegar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli