fimmtudagur, mars 31, 2005

Ég er svo mikill snillingur

Í dag teiknaði ég hausfætlu fyrir mömmu, meira að segja margar. Ég segi punktur, punktur, komma, strik, þetta er hann Óli prik, hálsinn mjór, fætur stór, nú er Óli klár! Og útkoman er tveir punktar einhvers staðar til hliðar og svo haus með tvær lappir. Ótrúlegt hvað ég er flink, mamma á bara ekki orð :-)

þriðjudagur, mars 29, 2005

Páskafrí

Ég dreif mig í páskafríið á fimmtudaginn þó ég væri nú ennþá lasin. Ég var líka ennþá lasin á föstudaginn en á laugardaginn var andstyggilega vonda pensillínið loksins farið að vinna á ljótu bakteríunum svo ég komst í kirkjuna og veisluna hennar Sunnu. Það var sko flott, Sunna var svo fín og Maggi líka, og afi var eins og snjókall (með pípuhatt). Ég var líka algjör pæja með snuddur í tösku og fannst ég vera aðalmanneskjan í veislunni, settist bara hjá ömmu og afa við háborðið og lét fara vel um mig. En við pabbi fórum samt snemma heim því við vorum ósköp þreytt eftir öll veikindin. Á sunnudaginn fékk ég svo að fara í meiri veislu og það var eiginlega ennþá skemmtilegra, ég hljóp um allt, hjálpaði Hilke (mömmu Magga) að sópa og skúra, borðaði jarðarber og skemmti mér hið besta. Ég var mjög svekkt að þurfa að fara heim í páskahúsið okkar og alveg brjáluð að eiga að fara að leggja mig, öskraði á mömmu að ég væri ekki þreytt og vildi fara út á róló og hitta hestana. En svo loksins sofnaði ég samt og svaf í þrjá tíma, svo ég var víst orðin dálítið þreytt. Í gærmorgun fékk ég svo að kíkja á hestana og við pabbi fórum svo út á róló og í langan göngutúr og vorum lengi lengi úti, það var sko gaman. Svo fórum við heim og ég svaf alla leiðina í bílnum, en ég gleymdi að skoða hestana aftur og gefa þeim eitthvað að borða.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Já það er fjör

Það er heldur betur fjörið hjá okkur núna. Pabbi varð alveg fárveikur í gær greyið, með háan hita og beinverki. Ég var með pínu hósta, svo þeim mömmu datt í hug að ég væri kannski með streptókokka án þess að vera mjög veik og hefði smitað pabba. Hann verður nefnilega svo veikur af þeim, og þetta gerðist oft svona með Sigurð Pétur þegar hann var minni. Þannig að í morgun fórum við pabbi og mamma til læknis og læknirinn skoðaði í hálsana okkar pabba. Pabbi var með bullandi streptókokka og fékk meðal, en það var ekkert að sjá í hálsinum mínum. Ég var líka alveg eldhress og ekkert lasin. Svo komum við heim, ég sagði við mömmu að ég væri þreytt og vildi fara að sofa í rúminu mínu, og vaknaði rúmum tveimur tímum síðar með bólginn og rauðan háls og næstum 40 stiga hita. Þannig að við mamma fórum aftur til læknis og fengum meðal handa mér. Nú er bara að vona að meðalið láti hendur standa fram úr ermum og reki þessar ljótu bakteríur í burtu á stundinni svo við getum farið að drífa okkur í páskafríið.

mánudagur, mars 21, 2005

Mamma og pabbi komin

Ég var bæði glöð og fegin þegar mamma og pabbi og Sigurður Pétur komu að sækja mig í leikskólann á föstudaginn. Þetta var samt svolítið erfitt, þegar við komum heim þá bara missti ég alla stjórn á tilfinningunum mínum og lagðist bara í gólfið og fór að hágráta. En ég jafnaði mig nú fljótt í mömmufangi með snuddu, svo fékk ég Bangsímon liti og litaði með mömmu og lék við bróður minn og svona, bara hafði það gott í rólegheitunum. Á laugardaginn var ég mjög dugleg á sundnámskeiðinu og svo komu Haukur og Silja til okkar í pössun. Ég var rosa spennt og glöð að fá þau, við Silja erum svo góðar vinkonur og leikum alltaf svo fallega. Haukur og Sigurður Pétur eru líka ósköp góðir vinir, svo þetta er allt eins og best getur verið. Við fengum að fara í heita pottinn og hoppa og sulla. Svo fengum við snakk og horfðum á Spaugstofuna. Daginn eftir fórum við út að drullumalla, við bjuggum til kökur og búðing og urðum mjög drullugar. Svo þurftu Haukur og Silja að fara, en við Sigurður Pétur og Heiðar fengum að fara í bíó að sjá Bangsímon og frílinn. Það var ótrúlega spennandi og skemmtileg mynd, frílamamman kallaði á frílinn og Gúri var fastur og frílamamman bjargaði honum og þeir máttu leika í smástund. Svo er alveg að koma páskafrí, ég er mjög spennt og læt mömmu segja mér oft á dag nákvæmlega hvenær páskafríið komi. Ég er samt dálítið hrædd við páskana, en ég veit nú ekki alveg af hverju það er. Það verður að minnsta kosti örugglega mjög gaman í páskafríinu, þá ætla ég að fara á skíði og í veisluna hjá Sunnu og Magga.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Nú fór í verra

Aumingja ég og aumingja Sunna og Maggi. Í nótt fékk ég gubbupest og gubbaði þrisvar sinnum. Og mamma og pabbi bara í útlöndum, haldið þið að þetta sé nú hægt! Sem betur fer virðist þetta hafi verið stutt, ég er núna heima með Sunnu að jafna mig. Vonandi fer ég ekki að smita hana og Magga, svona rétt fyrir stóru veisluna þeirra!

þriðjudagur, mars 15, 2005

Aftur í pössun

Þá eru mamma og pabbi aftur farin til Skotlands, meira flakkið á þeim. Ég er nú aldeilis heppin að hafa þau Sunnu mína og Magga minn á neðri hæðinni, þau eru svo góð að ætla að passa mig á meðan. Amma, afi og Þórður ætla líka að hjálpa þeim, því það er svo voða mikið að gera hjá þeim. Þau eru nefnilega alveg að fara að halda stóra veislu og verða hjón. Ég skil reyndar ekki alveg hver á þá afmæli, það verður kaka svo augljóslega hlýtur einhver að eiga afmæli. Kannski bara Sunna og Maggi bæði... Ég er búin að vera bara nokkuð stillt og góð held ég, að vísu var ég svolítið pirruð fyrsta kvöldið og vildi bara skæla og ekkert fara að sofa eða fá pústið mitt eða neitt. En ég var líka dálítið þreytt þá, ég fór nefnilega í afmælisfjör til Silju og Hauks og Péturs með Sigurði Pétri og mömmu hans, og það var svo gaman að við vorum alveg fram á kvöld. Ég var algjör pæja, tók með mér skó, snuddu og smekk í handtöskunni minni.

Í gærkvöldi vildi ég hins vegar endilega fara að sofa. Þá kom hann Jón hundur í heimsókn, ég var búin að hlakka voða mikið til og ætlaði að gefa honum saltstangir. En svo þegar hann var kominn þá minnkaði hjartað mitt svolítið mikið og ég vildi bara fara í rúmið mitt.

Á laugardaginn, áður en mamma og pabbi fóru, var mikið fjör, þá keyrðum við langt í burtu og upp á snjóinn og Nonni frændi, Anna Margrét og krakkarnir fóru líka. Það var frábært veður og snjórinn alveg frosinn, svo við bara brunuðum alla leið upp á Skjaldbreið. Við reyndum að renna okkur þar á skíðum og bretti en það var svo hart og hált að það gekk ekkert sérlega vel. Svo við fórum aftur niður af fjallinu og fundum góðan stað þar sem við fengum okkur nesti og svo fengum við að sitja á snjóþotu og sleða sem var fest aftan í bílana og fara í marga brjálaða hringi. Það var sko alveg rosalega gaman, við Silja fengum meira að segja að fara saman bara tvær á snjóþotunni. Ég var nú ekki alveg sátt við að hætta í þessu fjöri og fara heim, en ég var samt ekki lengi að sofna þegar við vorum komin af stað og steinsvaf alla leiðina heim.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Svo hress

Ég er aftur komin með svolítið ljótan hósta, við mamma erum sammála um að sennilega sé kominn einhver asni í mig og þess vegna fæ ég púst núna til að sjá hvort það dugar ekki til að reka hann í burtu. Ég vil reyndar endilega fara til læknis að láta hlusta á hóstann minn, en mamma vill aðeins bíða og sjá hvort hann lagast ekki. En ég skal segja ykkur það ég er sko heldur betur eiturhress því pústið er nefnilega svo hressandi. Ég hoppa og skoppa um, ætlaði aldrei að fara að sofa í gærkvöldi, og í morgun á leiðinni út í bíl söng ég Ein ég sit og sauma hátt og snjallt fyrir allt Ásahverfið.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Febrúar í leikskólanum

Febrúarmyndir af leikskólanum eru komnar, þar getið þið meðal annars séð hvað við vorum flottar á öskudaginn.

mánudagur, mars 07, 2005

Pissað í snjóinn

Í gær fór ég í langan bíltúr með pabba, mömmu, afa og ömmu. Við fórum langt langt þangað til við fundum fullt af snjó, ég pissaði í snjóinn og renndi mér á skíðum og snjóþotu. Pabbi keyrði langt upp í brekkuna og svo renndum við okkur niður á snjóþotu, það var mjög brjálað. Á laugardaginn fórum við mamma með ruslakerru, ég var rosa dugleg að henda öllu ruslinu og mamma hjálpaði líka aðeins til. Það var mjög gaman, mér finnst svo spennandi að fara í ruslaleiðangur.

föstudagur, mars 04, 2005

Janúarmyndir

Af leikskólanum og annað, m.a. skíðaferð í Víðihlíð og afmælið hans Sigurðar Péturs.

Gott veður

Mikið er gaman þegar veðrið er svona gott og hægt að leika úti. Þó það sé reyndar dálítið kalt ennþá, þá bara klæði ég mig vel og fer beint út að leika þegar ég kem heim úr leikskólanum. Ég er orðin afskaplega flink að hjóla á þríhjólinu og svo fer ég líka í gönguferðir með dúkkuna mína í kerrunni sinni. Ég hlakka til þegar það verður hlýrra og mamma kaupir handa mér sandalaskó, það er það sem mig langar mest af öllu í núna.