þriðjudagur, maí 31, 2005

Alltaf að stækka

Nú er ég orðin svo stór stúlka að ég er að fara að hætta á Litla kjarna. Ég fór í heimsókn á Bláa kjarna í gær og mér líst rosalega vel á hann, ég alveg nýt mín með öllum stóru stúlkunum, enda er ég svo mikill snillingur. Að vísu leist mér ekkert á þegar mamma fór að tala um að það væri ekki snuddubox á Bláa kjarna, þá ætlaði ég að hætta við allt saman. En þá dró mamma bara í land með þetta með snudduboxið, ég fæ alveg að hafa áfram snuddu í lúrnum.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Nú má ég fara í leikskólann

Loksins! Ég er að vísu ennþá með einhverjar bólur, en þær eru ekki smitandi lengur og ég er ekkert lasin. Það verður örugglega fjör, það er líka svo gott veður og gaman að leika úti. Reyndar var ég dálítill haugur í morgun, vildi helst bara horfa á múmínálfana og fá saltstangir... En það var nú samt ágætt að drífa sig bara á fætur og í leikskólann.

mánudagur, maí 23, 2005

Bólabóla

Mamma var voða bjartsýn og hélt að ég myndi bara sleppa vel við hlaupabóluna. En það var víst ekki svo gott, ég er með bólur algjörlega alls staðar, á augnlokunum, í augnkrókunum, á tungunni og vörunum, í eyrunum, lófunum og barasta út um allt. Einu líkamspartarnir sem eru bólulausir enn sem komið er eru nefið og tásurnar. Þetta er búið að vera dálítið erfitt og ég er búin að sofa ósköp illa, en ég er ósköp dugleg að klóra mér ekki og uni mér ágætlega á daginn. Pabbi keypti DVD diska með Múmínálfunum og Línu Langsokk handa mér, og líka dúkku sem skælir. Ég var nú aldeilis alsæl með það skal ég segja ykkur.

föstudagur, maí 20, 2005

Ég má ekki fara í leikskólann í dag

Ég er nefnilega með hlaupabólur. Ég er samt ekkert mikið lasin, mér finnst þetta bara svolítið fyndið og spennandi að vera með svona bólur. Við vonum bara að þetta verði ekkert verra, þá sleppum við nú vel.

Í gær var einhver keppni í sjónvarpinu. Ég nennti nú ekkert að horfa á hana og var reyndar svo þreytt að ég fór bara að sofa. En stóri bróðir minn hins vegar horfði og var ósköp miður sín að Ísland skyldi ekki vinna. En við ætlum nú samt að hafa veislu og snakk á laugardagskvöldið þó Ísland fái ekki að vera með.

föstudagur, maí 13, 2005

Nýtt útlit

Maður þarf stundum að breyta til :-) Annars er allt gott að frétta af mér, ég er reyndar með hor og ljótan hósta en vonandi verður ekkert meira úr því. Amma Gisela og Haukur og Pétur og Silja ætla að heimsækja mig um helgina. Ég get alveg næstum ekki beðið. Og annað í fréttum er að ég kann eiginlega alla stafina og líka að greina í sundur hljóð og finna út hvaða staf orð eiga. Ég er ótrúlegur snillingur. Ef ég gæti nú bara hætt með snuddu, þá væri ég eiginlega bara orðin fullorðin, eða a.m.k. unglingur.

mánudagur, maí 09, 2005

Marsmyndir

Myndir frá leikskólanum hér og frá pabba og mömmu hér, meðal annars ótrúlega flottar skíðamyndir af mér.

Skemmtilegur sunnudagur

Í gær fór ég í sunnudagaskóla. Mamma segir reyndar að það heiti bara messa, það var nefnilega bara prestur en enginn kennari, kennarinn er sennilega farinn í sumarfrí. En það var samt svolítið gaman. Ég nennti reyndar lítið að hlusta á prestinn svo ég fór bara að syngja. Mamma var eitthvað að reyna að sussa á mig en þá fór ég að syngja hærra og þá fórum við fram í smástund. En svo fannst mér nú skemmtilegra þegar var verið að syngja, ég reyndi alltaf að syngja með og í eitt skiptið hélt ég aldeilis að ég þekkti lagið, þá var nefnilega sungið Aaaaaaa-men, en ég náttúrulega hélt bara áfram Aaaaaa, b, c, d :-)

Eftir messuna fór ég í bíltúr með pabba og Sigurði Pétri að kaupa blóm og nammi handa mömmu. Ég valdi nammið og tók fram að það mættu allir fá sér, ég vildi sko líka fá að smakka á namminu hennar mömmu. Svo steinsofnaði ég í bílnum og vaknaði við það að ég var að fara með mömmu og Sigurði Pétri á hátíð í Kópavogi. Það var mjög gaman, við fórum í brjálað tæki (pínulítið parísarhjól) þrisvar sinnum, sáum Ávaxtakörfuna og fengum okkur köku.

föstudagur, maí 06, 2005

Enn fleiri myndir

Afi er svo duglegur að setja inn brúðkaupsmyndir, nú eru komnar fleiri. Þetta eru allt myndir frá pabba og þið getið meðal annars séð mig á þeim, hvað ég var fín og sæt, rétt varla skriðin á lappir eftir streptókokkasýkingu. Og svo getið þið líka séð hvað ég tók mig vel út við háborðið, þar sem mér fannst ég náttúrulega algjörlega eiga heima!

miðvikudagur, maí 04, 2005

Myndir

Febrúarmyndirnar komnar

Brúðkaupsmyndir

Afi minn er kominn með myndir úr brúðkaupinu þeirra Sunnu og Magga, þetta eru bæði myndir sem amma og afi tóku, og pabbi minn. Kíkið endilega og sjáið hvað brúðhjónin voru sæt og fín. Og líka hvað afi og amma voru fín, afi var eins og snjókall!

mánudagur, maí 02, 2005

Ýmislegt að frétta

Það mætti halda að sumarið hefði gleypt mig, það er bara búið að vera þvílíkt mikið fjör að ég hef ekkert mátt vera að því að segja ykkur fréttir. Mamma og pabbi og afi eru búin að vera úti að smíða pallinn og við Sigurður Pétur höfum verið á fullu úti að leika í grasinu og moldinni og sulla í heita pottinum. Um daginn fékk ég meira að segja að fara með Sigurði Pétri til Heiðars, og systur hans þær Tanja og Telma léku líka við okkur. Svo fórum við öll heim til okkar að leika inni í smástund, og svo fórum við út og lékum okkur í einni krónu og eltingaleik. Það var sko ótrúlega gaman, stelpurnar voru svo góðar og duglegar að hafa mig með í leiknum og þetta var bara brjálað fjör.

Svo er nú farið að styttast í fínu veisluna okkar þegar mamma og pabbi ætla að gifta sig. Um daginn fórum við að finna föt fyrir okkur bróður minn. Það fannst mér ekki amalegt, ég stóð bara og beið eftir hverjum dýrindiskjólnum á fætur öðrum, rétti hendurnar upp í loftið og konan klæddi mig í þá, alveg eins og prinsessa bara. Ég verð svo agalega fín og bróðir minn líka, mikið hlökkum við öll til!

Um helgina fékk ég að gista hjá afa og ömmu. Það er bara með því besta sem ég veit, þau eru svo góð og skemmtileg og ég sef svo vel hjá þeim. Ég get sko aldrei sofið svona lengi heima hjá mér eins og ég geri hjá þeim. Svo fæ ég svo gott að borða hjá þeim, flatbrauð og hafragraut og "hákon" (beikon). Þegar ég var búin að borða þá fórum við í leikskólann minn þar sem mamma beið eftir okkur. Það var nefnilega veisla í leikskólanum og ég fékk vöfflu. Ég var ekkert sérlega sátt við að fara heim, ég hefði alveg viljað bara vera í leikskólanum allan daginn með mömmu og afa og ömmu með mér.