fimmtudagur, júní 16, 2005

Skilaboð frá mömmu

Mamma mín vill í fyrsta lagi þakka kærlega fyrir draumagæsun; útivera, humar, geðveik terta, bústaður, pottur, rauðvín og góður félagsskapur, það gerist bara ekki betra! Í öðru lagi vill hún minna ykkur á brúðkaupsbloggið, og sömuleiðis hvetja ykkur til að kíkja á brúðkaupssíðuna.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er laus við lungnabólguna (eða "hitabólguna") sem betur fer, og Sigurður Pétur er orðinn góður af hlaupabólunni. Nú bara bíðum við spennt eftir veislunni! Svo förum við líka bráðum í útilegu. Ég fékk Bangsímon svefnpoka í gær, ótrúlega flott. Ég skil bara ekki af hverju við getum ekki farið núna strax í útileguna. Þegar mamma segir að við förum bráðum í sumarfrí þá segi ég bara "ókei förum þá!". Skil ekki þetta vesen í pabba og mömmu að drífa sig ekki bara af stað.

föstudagur, júní 10, 2005

Þriðji kafli kominn

Og þá er bara einn kafli eftir af ferðasögunni. Annars er það helst að frétta af mér að ég er með lungnabólgu. Ég er samt mjög hress og í miklu fjöri, en dálítið pirruð og uppstökk. Amma Gisela og afi Jón komu loksins í gær, ég er búin að vera að bíða eftir þeim í marga daga. Þau ætla að vera niðri í sínu herbergi og ég sýndi þeim oft og mörgum sinnum hvar herbergið þeirra og rúmið þeirra væri. Ég var á leiðinni að fara að sofa þegar þau komu og ég vildi helst ekkert fara í rúmið fyrr en ég var búin að sjá þau fara inn í herbergið sitt, eða að minnsta kosti úr útifötunum. Ég vildi sko vera viss um þau myndu ekkert að fara aftur.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Sumarfrí

Nú fer hver að verða langsíðastur að skrifa niður ferðasögu síðasta sumars, sérstaklega þar sem það er alveg að bresta á með brúðkaupi og útilegu og siglingu og alls kyns skemmtilegheitum. Það er kominn annar kafli á sumarfríssíðuna, og fleiri væntanlegir miklu fyrr en síðar.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Afmælisveisla

Í gær fór ég á veitingastað með afa og ömmu sem áttu afmæli (30 ára brúðkaupsafmæli), pabba og mömmu, Þórði, Magga, Sunnu og bumbunni. Sigurður Pétur gat ekki komið af því hann er með hlaupabólu, aumingja hann. En ljósið mitt fékk að koma með (dúkkan mín). Ég ætlaði eiginlega bara að fá afmælisköku og engan mat, en svo fékk amma þá snilldarhugmynd að fá handa mér skyr og brauð með smjöri. Það var sko góður matur, ég smakkaði líka hörpuskel og skötusel hjá mömmu en mér fannst skyrið miklu betra. Svo fékk ég köku og ís. Ég söng líka afmælissönginn nokkrum sinnum fyrir ömmu og afa og gaf þeim pakka. Þetta var svo gaman og ég var í miklu fjöri.

mánudagur, júní 06, 2005

Mamma pissurass

Í gær fékk ég að fara í heita pottinn og svo fékk ég að horfa á Leitina að Jakobi í handklæðinu. Ég steinsofnaði yfir myndinni og mamma vakti mig í kvöldmatinn. Þá var ég búin að sofa allt of lengi og var dauðþreytt og úrill og bara alveg brjáluð. Ég öskraði og öskraði og vildi ekki neitt og mamma sat með mig allsbera í fanginu að reyna að hugga mig. Þá allt í einu pissaði ég, og náttúrulega beint á mömmu mína svo að hún varð pissublaut á rassinum. Það fannst mér fyndið.

föstudagur, júní 03, 2005

Sveitaferð

Í gær fór ég í sveitina með leikskólanum mínum og mömmu og Sigurði Pétri. Pabbi ætlaði líka að koma með, en svo þurfti hann að fara til útlanda, aumingja hann. Ég fór í rútu með litla kjarna, mér fannst ægilega gaman að vera aðeins litlakjarnastúlka aftur, annars er ég bara alveg komin á bláa kjarna og er alveg hæstánægð þar. Ég var mjög spennt að fara í sveitina og ætlaði sko að skoða öll dýrin og klappa hestunum og allt. En svo voru þeir svo stórir og hræðilegir að ég þorði ekki að klappa þeim. Og reyndar ekki heldur folöldunum eða hundunum eða kettlingunum eða lömbunum. En mér fannst nú samt voða gaman að skoða dýrin. Svo voru líka rólur og alls kyns leiktæki, og við fengum pylsur. Þetta var mjög skemmtilegt og ævintýralegt allt saman. Stóri bróðir fékk að taka fullt af myndum af dýrunum og við leyfum ykkur að sjá þær um leið og mamma er búin að fá tölvuna sína til að tala við myndavélina, þær eru eitthvað súrar hvor við aðra núna.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Snillingafjölskylda

Það eru sko fleiri en ég sem eru snillingar í fjölskyldunni. Í gær sagði ég nýju kennurunum mínum á Bláa kjarna frá því hvað pabbi minn er mikill snillingur, hann getur meira að segja tengt vídeótækið niðri! :-) Þetta sagði ég þeim alveg í óspurðum fréttum, rétt eins og eitt af því síðasta sem ég ræddi við kennarana mína á Litla kjarna, sem var að útskýra fyrir þeim hvernig hvítu blóðkornin virka. Ég er með þetta allt saman alveg á hreinu, enda ætla ég að verða læknir þegar ég verð stór. Ekki tannlæknir, bara svona venjulegur læknir.