föstudagur, desember 23, 2005

Gleðileg jól


Þá eru þau loksins að koma, blessuð björtu jólin. Kertasníkir er kominn til byggða, jólatréð skreytt og bara eftir að klára að horfa á barnatímann og svo koma jólin.

Kæra fólk, ég vona að þið eigið gleðileg jól og smá frí. Bestu jólakveðjur frá okkur öllum.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Gestir

Anna-Lind frænka mín er í heimsókn hjá okkur í smá skreppi frá Ameríku. Það er rosa gaman að fá að hafa hana hjá okkur. Svo kemur amma Gisela á morgun og afi Jón hinn daginn, svo það er gaman hjá okkur þessa dagana. Og svo eru bara átta dagar til jóla...

laugardagur, desember 17, 2005

Myndir

Loksins eru netmálin á heimilinu komin í samt lag og myndasafnið þar með komið í gang aftur. Og það eru meira að segja komnar nýjar myndir:
- Apríl og maí
- Júní
- Brúðkaupið
- Brúðkaupsferðin

föstudagur, desember 16, 2005

Máttur auglýsinga

Áðan var ég að horfa á auglýsingatímann. Þar var verið að auglýsa nokkuð sem mér fannst mjög spennandi og ég sagði við mömmu, "ég hlakka svo til að fá svona öðru vísi litinn hár, kannski fæ ég fjólublátt!"

Aðeins of flókið

Nú held ég að ég sé komin aðeins fram úr sjálfri mér. Í gær fékk ég að fara í Smáralind að leika á meðan mamma fór í búðirnar og á leiðinni heim keyptum við barnabox og hamborgara. Á meðan við biðum var ég að skoða stafina og þar stóð meðal annars barnabox. Mamma bentir mér á það og ég horfði á stafina og sagði baaaaarrrrnaaaaboxssssss, af hverju er ekkert s? Mamma reyndi að útskýra fyrir mér af hverju er ekkert s í barnabox en ég skildi það nú eiginlega ekki alveg, það á greinilega að vera s!

þriðjudagur, desember 13, 2005

Þetta er allt að koma

Nú kann ég að skrifa R og O og einhvers konar S líka svo ég er alveg að verða búin að læra að skrifa nafnið mitt. A er bara svolítið erfitt, en ég legg mig alla fram.

Ég er ótrúlega spennt fyrir auglýsingum þessa dagana, sérstaklega finnst mér Baby born auglýsingin heillandi og mig langar ótrúlega mikið í svoleiðis. Mamma var eitthvað að tala um að þetta væri eiginlega bara fyrir fjögurra ára og eitthvað, en mér finnst þetta sko alveg vera fyrir þriggja ára. Svo sagði ég, "mamma ég veit, við getum kaupið svona Baby born í Hagkaup!".

Og svo Giljagaur

Hann gaf mér ótrúlega flotta Bangsímon-sokka, þeir eru appelsínugulir og fjólubláir, og fjólublár er einmitt uppáhaldsliturinn minn. En ég þori ekki að kíkja ein í skóinn, ég fer alltaf upp í til pabba og mömmu þegar ég rumska einhvern tímann undir morgun. Svo held ég áfram að sofa þar, og síðan þegar ég vakna þá verður einhver að koma með mér að kíkja í skóinn. Ég er eitthvað hálfsmeyk við þetta allt saman.

mánudagur, desember 12, 2005

Stekkjastaur var fyrstur

Og hann gaf mér límmiða í skóinn, það fannst mér aldeilis ekki slæmt. En ég heyrði eitthvað skrýtið hljóð í morgun þegar ég var að fara á fætur og spurði mömmu hvað þetta hefði verið. Mamma sagði kannski jólasveinninn. Þá varð ég voða skrýtin í framan og stökk upp í fangið á mömmu þangað til ég var orðin viss um að það væri enginn jólasveinn á sveimi, mér stóð ekki alveg á sama.

laugardagur, desember 10, 2005

Jólin jólin

Jólin eru alveg að koma, ég tel reglulega á puttunum og það eru átta dagar til jóla (alltaf). Gabríel engill kemur á hverjum degi í leikskólann og segir okkur smá jólasögu, það er mjög skemmtilegt. Ég er búin að baka piparkökur og súkkulaðikökur og setja jólaljós í herbergið mitt. Ég veit ekki hvað mig langar í í jólagjöf, en mig langar í góða kartöflu í skóinn, óþekk börn fá nefnilega vonda kartöflu en góð börn fá góða kartöflu. Mamma er með einhverjar efasemdir, en ég veit sko alveg hvernig þetta virkar.

föstudagur, desember 02, 2005

Tunglið barasta úr bréfi er...

Engillinn var bara úr blaði og gat ekkert talað, það var Hjördís (kennari) sem talaði og sagði okkur englasögu. Mér fannst þetta mjög fyndið og skemmtilegt, og hlakka til að fá engilinn aftur í heimsókn í dag.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Engill

Í dag kemur engill sem kann að tala í leikskólann minn. Hann ætlar að segja okkur sögu. Við fengum að vita þetta í gær og ég er sko búin að vera ótrúlega spennt að hitta alvöru talandi engil!