Þá er ég búin að læra að lesa. Það hlaut nú að fara að koma að því, því það er dálítið síðan ég fór að geta fundið út hvaða stafir eru í orðum, sem ætti nú eiginlega að vera erfiðara. Ég get líka skrifað nafnið mitt, en S-ið verður samt dálítið skrýtið hjá mér, það er ótrúlega erfiður stafur að skrifa.
Annað í fréttum er það að baðherbergið okkar gengur mjög vel, klósettið er komið á sinn stað og loft og veggir langleiðina komið, svo bráðum verður bara hægt að fara að flísaleggja og gera fínt. Mikið hlakka ég nú til að geta farið í bað. En þangað til er ég bara í heita pottinum, það er svo gaman þegar veðrið er svona gott. Gabríel finnst líka svo gaman að vera úti þegar við Sigurður Pétur erum úti. Við erum öll þrjú búin að vera úti í næstum allan dag, að grafa í moldinni og sulla í sandkassanum og leika með bíla og auðvitað í heita pottinum, en Gabríel fær ekki að fara með í pottinn. Honum er samt alveg sama um það, þá fer hann bara að grafa djúpar holur í moldinni.
Bumban hennar mömmu stækkar og stækkar og ég er búin að finna litla barnið sparka. Í gær sagði ég við mömmu að hún væri með tvá maga, matarmaga og litlubarnamaga. Þá sagði mamma mér að litlubarnamaginn héti leg. Ég skildi það nú strax, það er auðvitað þar sem litla barnið liggur!
sunnudagur, apríl 30, 2006
mánudagur, apríl 24, 2006
Nú eru þrír dagar búnir
Þetta var það fyrsta sem ég sagði við pabba og mömmu í morgun. Og svo spurði ég, "þá er bara einn dagur eftir, er það ekki? Á morgun fer ég til tannlæknis?". Jújú, ég fékk að vita fyrir þremur dögum síðan að ég væri að fara til tannlæknis eftir fjóra daga og ég er búin að telja niður dagana síðan. Ég hlakka ótrúlega mikið til, það er svo gaman að fara til tannlæknis. Og mér finnst líka ótrúlega gaman að fara til læknis, mér finnst bara verst hvað ég fæ sjaldan að fara núorðið. Um daginn keyrðum við mamma framhjá Læknavaktinni og þá sagði ég, "mamma þarna er læknisstofan, *hósthóst*, ég er svolítið veik!".
föstudagur, apríl 21, 2006
Gleðilegt sumar
Í gær var sumardagurinn fyrsti. Mamma og pabbi voru bara að smíða baðherbergið, svo ég fékk að heimsækja Júlíu frænku mína og Sunna góða frænka labbaði með okkur í húsdýragarðinn. Það var sko gaman, svo fórum við aftur heim til þeirra að leika og ég vildi bara ekkert fara heim með mömmu þegar hún kom aftur að sækja mig.
Um páskana fórum við í sumarbústað á Skógum með afa og ömmu, Þórði, Sunnu, Magga og Júlíu. Það var alveg frábært, mér finnst svo gaman að vera með svona mörgu fólki. Við fórum í labbitúra og heita pottinn, skoðuðum flugvélina á sandinum og safn þar sem var lamb með tvö höfuð (það fannst mér fyndið). Við Sigurður Pétur fengum að finna öll páskaeggin sem afi og amma földu í skóginum og það var mjög ævintýralegt og skemmtilegt. Og einn daginn kom snjór svo við gátum rennt okkur á rassaþotunni sem var fyrir tilviljun í bílnum. Það var líka mjög skemmtilegt, alveg þangað til ég ákvað að renna mér niður tröppur. Sigurður Pétur reyndi að segja mér að það væri ekki góð hugmynd, en ég trúði honum ekki og varð að prófa sjálf. En nú veit ég að það er ekki sniðugt að renna sér niður tröppur á rassaþotu.
Um páskana fórum við í sumarbústað á Skógum með afa og ömmu, Þórði, Sunnu, Magga og Júlíu. Það var alveg frábært, mér finnst svo gaman að vera með svona mörgu fólki. Við fórum í labbitúra og heita pottinn, skoðuðum flugvélina á sandinum og safn þar sem var lamb með tvö höfuð (það fannst mér fyndið). Við Sigurður Pétur fengum að finna öll páskaeggin sem afi og amma földu í skóginum og það var mjög ævintýralegt og skemmtilegt. Og einn daginn kom snjór svo við gátum rennt okkur á rassaþotunni sem var fyrir tilviljun í bílnum. Það var líka mjög skemmtilegt, alveg þangað til ég ákvað að renna mér niður tröppur. Sigurður Pétur reyndi að segja mér að það væri ekki góð hugmynd, en ég trúði honum ekki og varð að prófa sjálf. En nú veit ég að það er ekki sniðugt að renna sér niður tröppur á rassaþotu.
miðvikudagur, apríl 05, 2006
Allt á haus, allt á haus, er ég að verða vitlaus
Það er allt á hvolfi hjá okkur núna, mamma og pabbi eru að flísaleggja út um allt og smíða baðherbergi á efri hæðinni. Ég er ósköp þreytt á þessu, um daginn stakk ég upp á því að við fengjum okkur bara nýtt hús þar sem væri ekki allt í rúst. Vonandi verða þau fljótt búin með þessar framkvæmdir! Ég hlakka nú líka mikið til að geta farið í bað, ég bið sko yfirleitt um að fá að fara í bað ef ég er í heimsókn og sé baðkar.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)