föstudagur, september 29, 2006

Ég kann að skrifa

Daginn áður en ég varð fjögurra ára skrifaði ég "Gabríel kúkar í pabba rúm" og "Rósa pissar í móa", alveg sjálf. Síðan er ég líka búin að búa til kort handa vinkonu minni og skrifa á það "Kort tyl Ylfu Sólar frá Rósu".

Ég er líka búin að fá nýtt prinsessurúm og í nótt svaf ég 12 tíma án þess að rumska. Þetta er allt annað að eiga svona alvöru fínt rúm með góðri dýnu. Mamma og pabbi eru líka mjög ánægð með nýja rúmið, ég verð nefnilega svo úrill og önugsnúin þegar ég sef ekki nóg. Guðmundur Steinn var líka purrka í nótt, hann svaf samfellt í 7 tíma! Mamma var nú heldur en ekki kát með það.

Af honum er það annars helst að frétta að hann var í 6 vikna skoðun og er orðinn 6.360 grömm og 62 sentimetrar. Hann er semsagt búinn að stækka um einn sentimetra á viku frá því hann fæddist.

þriðjudagur, september 19, 2006

Myndirnar

Myndirnar eru orðnar svo ægilega hægvirkar af einhverjum ástæðum, það stendur vonandi til bóta á næstunni.

mánudagur, september 18, 2006

Ég á afmæli í dag!

Jibbí skibbí, í dag er ég fjögurra ára! Í gær þegar ég vaknaði var pakkaleit, mamma og pabbi földu pakkana mína og ég leitaði svo að þeim. Svo var ótrúlega fín veisla fyrir vinkonur mínar á leikskólanum, við fengum kökur og fórum í alls kyns leiki. Það var pínu erfitt að vera svona spennt, sérstaklega var svolítið erfitt að bíða í fyrradag, en þetta tókst allt saman mjög vel og ég var afskaplega ánægð með veisluna.

Pabbi fór til útlanda í nótt svo mamma og Guðmundur Steinn fóru með mig í leikskólann. Ég fékk að fara með Guðmund Stein inn og sýna stúlkunum hann, ég var nú heldur en ekki upp með mér að eiga svona fínan bróður og vera svo líka afmælissstúlka með mynd af mér uppi á töflunni. Ég fæ að baka köku í leikskólanum í dag og það verður sungið fyrir mig. Það er sko gaman að eiga afmæli.

Þar sem pabbi er í útlöndum þá verður mamma ein heima alla þessa viku með afmælisafganga inni í ísskáp, allir velkomnir í heimsókn að bjarga mömmu frá að háma þá í sig ein.

Og myndir úr skírninni hans Guðmundar Steins eru komnar hér.

þriðjudagur, september 12, 2006

Guðmundur Steinn

Þá er búið að skíra litla bróður, séra Guðjón frændi okkar kom hérna heim og það var ósköp ljúf og notaleg athöfn. Afi Guðmundur og Þórður frændi spiluðu á gítar og allir sungu skírnarsálminn og Leiddu mína litlu hendi, og Guðmundur Steinn litli bróðir brosti út að eyrum og hjalaði svo hann var greinilega ánægður. Ég er líka mjög ánægð með nafnið hans og er alltaf að nota það.

Svo fæ ég veislu um næstu helgi því ég verð fjögurra ára á mánudaginn. Ég ætla að bjóða vinkonum mínum af leikskólanum um helgina og svo ætlum við að bjóða frændum mínum og frænkum seinna. Verst að þá kemst hún Júlía Jökulrós ekki, því hún er flutt til útlanda. Mikið eigum við nú eftir að sakna hennar :-(

sunnudagur, september 03, 2006

Partý og veislur

Amma mín var svo góð að bjóða mér í grillpartý í götunni hennar. Þar var fullt af krökkum og ég fékk pylsu, litabók, liti og krítar. Ég skemmti mér ótrúlega vel, Sigurður Pétur var sko algjör kjáni að vilja ekki koma með. Svo er ég að fara í afmælisveislu hjá Júlíu litlu frænku minni sem er hvorki meira né minna en eins árs í dag, til hamingju með það Júlía Jökulrós! Það er aldeilis nóg af veislum þessa dagana, því um næstu helgi á svo að skíra litla bróður minn. Hann er búinn að fá að fara út í vagn í labbitúr og líka búinn að sofa úti, þó hann sé bara tveggja vikna. Hann er svo stór og duglegur, og það er búið að vera svo gott veður að hann má það alveg.