miðvikudagur, júlí 04, 2007

Eðli

Ég á nokkrar dúkkur og ýmislegt þeim tilheyrandi. Mér finnst alveg gaman að leika mér með þetta, sérstaklega með vinkonum mínum, en ég hef aldrei tekið neina dúkku í sérstakt uppáhald og gefið henni nafn eða sofið með hana. En hins vegar er lítil græn gúmmíeðla í miklu uppáhaldi hjá mér núna. Hann heitir Eðli og ég sef með hann í lófanum. Svona er ég eðlileg.

Annars er ég öll krambúleruð núna, á föstudaginn datt ég á gangstéttinni og hruflaðist um allt, þó verst á öðru hnénu. Svo er ég búin að detta nokkrum sinnum í viðbót og skrapa smá skinn. En verst var þó þegar ég festist í pípuhliðinu í Víðihlíð á mánudaginn. Ég var að labba og svo allt í einu datt ég og annað hnéð var alveg pikkfast. Mamma og pabbi héldu næstum að þau yrðu að skilja mig eftir, eða alla vega fótinn. En sem betur fer tókst pabba að toga hann lausan, svo fékk ég risastóra marbletti og bólgnaði öll í kringum hnéð.