sunnudagur, nóvember 18, 2007

KK

Ein lítil saga af mér, ég spurði mömmu hver væri að syngja lagið í útvarpinu. Mamma sagði, "hann er kallaður KK en hann heitir Kristján Kristjánsson". "Er hann kallaður KK?", spurði ég, það fannst mér skrítið. "Segir mamma hans þá svona, KK, komdu inn að borða..."

Svíþjóðarferð

Jæja gott fólk. Það verður nú að segjast að eini gallinn við nýju vinnuna hennar mömmu er hvað hún hefur lítinn tíma. Það eina sem hún gerir er að vinna, sofa og sinna okkur systkinunum. Allt annað situr á hakanum, eins og til dæmis að skrifa á síðurnar okkar og fara í gegnum myndir. En við tókum okkur smá frí um síðustu helgi og fórum í heimsókn á Gamla Brómsteinsveginn að hitta nýju frænkuna okkar og auðvitað ekki síður stóru systur hennar og foreldra. Það var nú aldeilis dandalafín ferð. Við fórum að skoða húsið hennar Línu og þakið hans Kalla á þakinu í Junibacken, skoðuðum Vasa safnið og skemmtum okkur ótrúlega vel við að fikta í alls kyns tilraunum í Tom Tits Experiment (þetta er ekki dónalegt Tits heldur sænskt). Þetta var allt saman alveg stórkostlega skemmtilegt og okkur systkinunum finnst Svíþjóð alveg frábært land.

Til viðbótar við þetta höfðum við það ósköp gott hjá Sunnu og Magga, ég fór út á róló með Sunnu og Júlíu, við bökuðum piparkökur, lékum okkur öll saman, við Júlía vorum duglegar að lita og hlusta á tónlist saman, og við Sigurður Pétur náðum að búa til snjókarl í garðinum. Við þökkum höfðingjunum á Gamla Brómsteins kærlega fyrir okkur og hlökkum mikið til að hitta þau aftur eftir tvær vikur hérna á Íslandi.

Nú, það fór hins vegar verr með heimferðina. Það byrjaði á því að mamma fékk gubbupest nóttina áður en við fórum. Hún hélt samt að þetta yrði allt í lagi og við komum okkur öll út á flugvöll, mamma frekar drusluleg. Inni á flugvellinum byrjaði ég síðan að gubba, og Sigurður Pétur byrjaði í flugvélinni. Guðmundur Steinn var hins vegar eldhress allan tímann og harðneitaði að sofa í flugvélinni. Þetta var því ansi skrautlegt ferðalag og við vorum mikið fegin þegar það var búið.