föstudagur, desember 28, 2007

Líf og fjör

Heldur betur er þetta búið að vera skemmtilegt jólafrí. Ég fékk frábærar gjafir sem ég var rosalega ánægð með, á aðfangadag fékk ég að opna þrjá pakka og mér fannst það dásamlegt. Á jóladag fékk ég svo að opna ennþá fleiri pakka og það var geggjað fjör. Ég fór líka út í snjóinn með Sigurði Pétri, það var ekki síður gaman. Svo komu öll frændsystkini mín í pabba fjölskyldu í mat um kvöldið (og pabbar þeirra og mömmur líka) og við fórum líka út að leika í snjónum eftir mat. Á annan í jólum fórum við til ömmu og afa í Hjallabrekku og þar lék ég við Júlíu frænku mína. Daginn eftir, þ.e. í gær, var svo sparijólaballið og þá hittist svo skemmtilega á að Kristín Kolka var þar, svo okkur leiddist nú heldur betur ekki. Í dag var síðan jóla-náttfatapartíið mitt langþráða, ég fékk að bjóða nokkrum vinkonum í náttfatapartí um hádegisleytið. Það var svo gaman hjá okkur, við fengum pizzu og snakk, hlustuðum á tónlist, fórum í leiki og lékum okkur í herberginu mínu. Mamma og Guðmundur Steinn voru líka í náttfötum og dönsuðu með okkur. Svo kemur smá pása núna um helgina, en svo fáum við gesti á gamlárskvöld og líka á nýárskvöld og svo koma amma og afi á Akureyri vonandi eftir áramótin. Mikið finnst okkur við heppin að hafa allt þetta skemmtilega fólk í kringum okkur.

fimmtudagur, desember 27, 2007

Jólaklippingin

Mamma mín fór í klippingu rétt fyrir jólin og samþykkti að leyfa hárgreiðslukonunni að "ýta aðeins undir rauða litinn". Svo hárgreiðslukonan bara valdi litina og litaði hárið á mömmu. Og það er skemmst frá því að segja að ég fékk hláturskast þegar hún kom að sækja mig í skólann. Ég hló og hló og kom ekki upp orði í langan tíma. Svo loksins þegar ég var aðeins farin að jafna mig þá spurði mamma hvort hún væri ekki fín, "nei þú ert fyndin" sagði ég bara. Svo fór hún að sækja Guðmund Stein og hann var bara alls ekkert viss um að þetta væri rétt mamma, hann kom til hennar með hálfgerðum semingi og þegar hann var kominn í fangið á henni leit hann aftur á fóstrurnar sínar til að gá hvort þetta væri örugglega rétt, hvort hann ætti örugglega að fara heim með þessari konu. Liturinn var sem sagt vel dökk rauður og mikil breyting á mömmu okkar. En núna þegar við erum öll búin að venjast þessu þá finnst okkur þetta bara mjög fínt :-)

mánudagur, desember 24, 2007

Jólakveðja

Kæru vinir, frændur og frænkur, afar og ömmur og allir aðrir. Sökum ýmissa tölvutengdra vandamála á heimili tölvunarfræðinganna tveggja varð ekkert úr sendingu jólakorta þetta árið. Í staðinn kemur jólakveðjan hér í þetta sinn (og Guðmundur Steinn ætlar líka að senda jólakveðju).

Þetta er búið að vera skemmtilegt og viðburðaríkt ár hjá mér eins og fleirum í fjölskyldunni. Ég byrjaði í skóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar, og ég byrjaði líka að læra á selló. Ég fór til Þýskalands að hitta ættingja og til Svíþjóðar að heimsækja Sunnu og Magga og líurnar litlu tvær (Emilíu og Júlíu). Svo fór ég í margar skemmtilegar heimsóknir, hélt veislur og margt fleira. Ég sendi hoppandi og skoppandi jólakveðjur til ykkar allra með kærum þökkum fyrir góðar stundir á árinu. Ég hlakka til að heimsækja ykkur flest sem fyrst og helst fá að gista, það finnst mér skemmtilegast.

Jólakossar og knús frá Rósu Elísabetu og fjölskyldu

laugardagur, desember 01, 2007

Upprennandi sellósnillingur


Í dag spilaði ég í fyrsta skipti á sellóið mitt á tónleikum. Það gekk mjög vel hjá okkur, við spiluðum Löggan segir stopp stopp og Risakóngur Ragnar og spiluðum alveg eins og englar. Ég var bara pínu súr að fá ekki að spila meira. En ég jafnaði mig nú fljótt á því. Á eftir var svo jólaball og það kom jólasveinn og allt. Ég var aldeilis ekki feimin við hann eins og ég var nú stundum í gamla daga, hann meira að segja tók mig í fangið og sýndi öllum að ég væri með stjörnur í augunum af því ég er búin að vera svo stillt og góð (eins gott að hann veit greinilega ekki alveg allt... ;-) jújú, ég er alltaf mjög stillt og góð). Svo dönsuðum við í kringum jólatré og fengum kökur. Heldur betur var þetta flott.