fimmtudagur, apríl 03, 2008

Ein þreytt

Af einhverjum ástæðum var ég svo ótrúlega þreytt í skólanum í dag, að ég lagðist bara á dýnu inni í leikstofu og svaf þar í dágóða stund. Það getur nú aldeilis verið heppilegt að hafa leikstofu með góðum dýnum, mamma væri stundum alveg til í að leggja sig svona á daginn.


Um síðustu helgi drifum við okkur loksins í Bláfjöll. Ég fékk leigð skíði og renndi mér eins og herforingi í brekkunum. Ég datt náttúrulega nokkrum sinnum og kunni ekkert að beygja en ég hafði engar áhyggjur af því. Pabbi hjálpaði mér nú dálítið, ég gat hvorki staðið upp sjálf né komist upp að lyftunni, en ég gat hins vegar alveg farið ein í diskalyftunni, og það margar ferðir meira að segja. Ég var ótrúlega montin af sjálfri mér! Sigurður Pétur var líka mjög flinkur á snjóbrettinu og Guðmundur Steinn tók sig vel út á snjóþotunni.





Og páskarnir já, þeir voru bara frábærir eins og alltaf. Við fórum í páskaeggjaleit úti í brekkunni í Víðihlíð á föstudaginn langa. Mamma vill nefnilega endilega draga fram páskaeggin fyrir páskadag svo það sé hægt að narta í þau í páskafríinu. Á páskadag fékk amma síðan þá frábæru hugmynd að gera aðra eggjaleit, í það skiptið harðsoðin egg sem voru falin í stofunni. Síðan máttum við lita á eggin, og loks borða þau. Mér fannst eggjaleitin það skemmtilegasta við páskafríið. En svo var líka margt annað mjög skemmtilegt, eins og að leika úti í snjónum með bræðrum mínum og hundinum, renna sér niður brekkur á snjóþotu eða á maganum, fara í heita pottinn og lesa, ekki má gleyma því. Ég las næstum því alla Sigrún fer á sjúkrahús, alveg sjálf. Og lét les hana nokkrum sinnum fyrir mig. Ég las líka Drekann með rauðu augun og Ólympíustrumpinn. Það er alltaf svo ótrúlega gaman að vera í Víðihlíð, og sérstaklega þegar margir eru.