föstudagur, nóvember 28, 2008

Auglýsingaleikurinn

Um daginn þegar við vorum að horfa á Útsvar kenndi mamma mér auglýsingaleikinn. Mér fannst hann geggjað skemmtilegur, eiginlega skemmtilegri en Útsvar svo ég beið spennt eftir næstu auglýsingum. En nú er náttúrulega sá árstími þegar meirihlutinn af auglýsingum eru bókaauglýsingar, svo þetta verður stundum pínu einhæft. Nokkrum dögum seinna þegar ég var búin að fá mjög margar bækur í auglýsingaleiknum þá varð mér að orði, ég verð bara að fara að leggjast upp í rúm og lesa! Mér finnst líka svo gaman að lesa, ég er til dæmis farin að stelast til að lesa uppi í rúmi þegar ég á að vera farin að sofa, eins og mamma man líka eftir að hafa gert þegar hún var sex ára :-)

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Engar fréttir...

Dagarnir ganga sinn vanagang núna, það er alltaf gott að vera komin í rútínu og hafa nóg að gera. Nú þarf ég náttúrulega að mæta í skólann á ákveðnum tíma og með það fór ég snarlega að vera morgunsvæf. Samt bara virka daga, um helgar finnst mér alveg nóg að sofa til sjö. Í skólanum erum við að vinna alls konar með stafi og tölur í íslensku og stærðfræði, ég er til dæmis orðin ansi lunkin í gálga (hangman). Svo erum við reglulega í tölvum, heimilisfræði, vettvangsverðum, myndlist, leiklist og fleiru. Í frístundaskólanum eru líka afmörkuð námskeið, ég er búin að vera á námskeið í kínversku og leirlist, og er núna á jóganámskeiði. Svo er ég í handbolta tvisvar í viku eftir skóla, sellótímum einu sinni í viku og annan hvern laugardag eru hóptímar í selló. Svo það er nóg að gera hjá mér.

Jú svo er það nú að frétta að við fórum í Víðihlíð um helgina. Það var náttúrulega bara frábært eins og alltaf, ég var alveg til í að sleppa afmæli til að komast sem fyrst í sveitina. Við fundum smá snjó og lékum okkur á alveg frábærlega skemmtilegum snjóþotum sem pabbi fann í Toys'R'Us, þær eru eiginlega eins og lítið brimbretti, léttar og renna alveg ótrúlega vel. Veðrið var samt ekki mjög spennandi og við systkinin urðum öll þrjú ansi blaut og köld en það var samt rosalega gaman hjá okkur.