Þá er þetta ár alveg að verða búið, búið að vera fínasta ár bara. Ég byrjaði í handbolta og í fyrsta bekk, fór til Frakklands í siglingu og um allt land í útilegu og meira að segja til Vestmannaeyja. Reyndar sigldi ég ótrúlega mikið á þessu ári, náttúrulega á bátnum í Frakklandi og með Herjólfi til Vestmannaeyja og til baka, svo fór ég í siglingu um Lagarfljót, í sjóstangveiði á Borgarfirði eystra og í hvalaskoðun frá höfninni í Reykjavík. Ég svaf líka ótrúlega oft í tjaldi og á mörgum stöðum, og á hverjum stað eignaðist ég nýja vinkonu. Í nokkra daga voru líka þær Júlía og Emilía og pabbi þeirra og mamma með okkur í útilegu, það fannst okkur nú eiginlega skemmtilegast. Amma og afi voru líka með okkur í nokkra daga, og Þórður og Erna meira að segja líka, það var nú best þegar allir voru með.
Ég hélt líka áfram að læra á sellóið mitt á þessu ári, ég er nú orðin bara ansi flink og búin að læra fullt af lögum, eins og til dæmis Bjart er yfir Betlehem og Fann ég á fjalli. Ég er líka orðin mjög flink að lesa og reikna, ég veit ýmislegt um heima og geima, er dugleg að spyrja og geymi vandlega svörin sem ég fæ.
Um jólin er ég búin að hafa það mjög gott með mömmu og pabba og bræðrum mínum. Fyrstu dagana í jólafríinu fékk ég að fara í vinnuna með mömmu, það er rosalega spennandi og það var mjög gaman þar, enda var slatti af krökkum þar með mömmum sínum og pöbbum. Svo erum við bara búin að vera í fríi og hafa það gott, ég fékk margar fínar gjafir sem ég var mjög ánægð með og búin að vera dugleg að hlusta á diskana, lesa bækurnar og púsla, ég fékk tösku sem ég tók með mér þegar ég fór að gista hjá frænku minni og náttfötin og inniskórnir komu sér vel í náttfatapartíinu sem ég fékk að halda fyrir allar bekkjarsystur mínar. Það var sko brjálað fjör, tuttugu stykki sex ára stelpur í jólafríi! Sem betur fer var ég búin að skrifa þétta leikjadagskrá, mamma og pabbi gáfu okkur pizzur og snakk að borða og svo vorum við bara á fullu í öllum leikjunum.
Og nú er að koma gamlárskvöld og ég ætla að vaka og sjá alla flugeldana. Við ætlum að vera hjá ömmu og afa ásamt fleira fólki, það verður örugglega fjör!