Jájá, ég er bara hress og kát þessa dagana. Ég var ekkert komin með nýja eyrnabólgu, sennilega bara með óþægindi af vökvanum sem er ennþá í eyrunum á mér en það var allt bara eðlilegt. Nú eru reyndar 5 börn hjá dagmömmunni minni orðin lasin, ég vona að ég verði ekki líka lasin, þá kemst ég ekki í sund um helgina. Mamma er nefnilega búin að lofa að vera dugleg að fara með mig í sund núna, ég fór um síðustu helgi í fyrsta skipti síðan á sundnámskeiðinu í haust. Ég var rosalega dugleg og gat alveg kafað og allt, en ég þarf samt aðeins að rifja upp líka, ég var orðin svo ótrúlega dugleg á námskeiðinu.
Í gær var öskudagur. Sigurður Pétur var í ótrúlega flottum beinagrindarbúningi, mér varð nú ekki alveg um sel þegar hann setti á sig grímuna, enda var hann þá bara alveg eins og beinagrind. Ég fékk að fara með ljónshaus til dagmömmunnar, ég hafði mjög gaman af því og stóð við spegilinn og urraði á sjálfa mig. Í fyrradag var víst sprengidagur, mamma og pabbi fengu saltkjöt og baunir í vinnunni en við Sigurður Pétur fengum ekkert saltkjöt, svo mamma er búin að lofa að elda það handa okkur á morgun í staðinn. Og þar á undan var bolludagur, þá fengu allir rjómabollu nema ég. Ég var svo ómöguleg hjá dagmömmunni, skældi bara og vildi ekki borða neitt, ég borðaði eina skeið af hafragraut og einn bita af banana. Kannski var ég eitthvað lasin og kannski var ég bara mömmustelpa og afbrýðissöm út í nýju börnin hjá dagmömmunni. Alla vega var ég voða glöð þegar mamma kom og sótti mig, og ennþá glaðari þegar ég fékk að borða þegar við komum heim því ég var náttúrulega orðin hræðilega svöng. Það er ekki alltaf auðvelt að vera eins árs þegar heimurinn er ekki eins og maður vill.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli