Takk fyrir allar góðar batakveðjur, heilsufarið á heimilinu er heldur að skána en ég fæ samt ekki að fara á jólaball í dag. En við verðum vonandi orðin þokkaleg hress um áramótin að minnsta kosti, þessi jól hafa annars farið fyrir frekar lítið. Það var nú samt jólaboð hérna á annan í jólum. Pabbi lá að vísu í rúminu, mamma hafði sig á lappir og að borðinu, en gestirnir sáu um að elda matinn og ganga frá. Ég smakkaði samt ekkert á jólamatnum, hélt mig bara við ristaða brauðið sem er búin að vera mín aðalfæða um jólin. En ég var nú aldeilis dugleg í gær, ég fór í sturtu og fór á koppinn áður eins og ég geri alltaf, án þess að það gerist svo sem neitt. En í þetta skipti vildi ég ekki gefast upp því ég vissi að ég þyrfti að pissa, á endanum fór ég samt í sturtuna en fór svo aftur úr henni til að fara aðeins aftur á koppinn og pissaði í hann! Vá hvað ég var montin og hissa, og mamma líka. En ég vil nú samt ekkert fara aftur á koppinn í dag, vil bara fá að hafa bleyjuna mína.
miðvikudagur, desember 29, 2004
laugardagur, desember 25, 2004
Meiri veikindi
Bara til að halda sjúkrasögunni til haga, þá er ég komin með nýja lungnabólgu. Læknirinn kom með sína tösku og sinn hatt og bankaði á hurðina rattatattatatt, skrifaði á miða hvaða meðal skyldi fá og afi Jón og amma Gisela fóru að kaupa meðalið handa mér. Mamma og pabbi eru nefnilega voða lasin líka, svo það eru hálf lufsuleg fyrstu jólin í Skrúðási 8.
föstudagur, desember 24, 2004
Gleðileg jól
Ég er ennþá eitthvað lasin, var mjög veik í gær og er ennþá ekkert allt of hress. En ég nenni ekkert að tala meira um það, heldur vil ég óska ykkur öllum gleðilegra og friðsælla jóla, takk fyrir allt á liðnu ári og hlakka til að hitta ykkur á nýju ári.
þriðjudagur, desember 21, 2004
Er þetta hægt
Hérna er ég að reyna að hlakka til jólanna og fara á leikskólann minn að syngja jólalög og gera eitthvað skemmtilegt, en er svo bara alltaf eitthvað lasin. Núna er ég komin með einhverja ótætis gubbupest, mér líður voðalega illa og er miklu lasnari heldur en þegar ég var með lungnabólguna. Vonandi líður þetta fljótt hjá, ég get alla vega sofið voða mikið og vel svo það er gott.
mánudagur, desember 20, 2004
Í leikskólanum
Þá fékk ég loksins að fara aftur í leikskólann, húrra! Það var svolítið erfitt að vakna því ég hef verið að sofna svo seint á kvöldin og vakna á nóttunni til að kíkja í skóinn. En ég var samt mjög dugleg, fékk pústið mitt og meðalið og smá sláturbita með og mætti svo í morgunmatinn á leikskólanum. Það var sko tekið vel á móti mér og ég bara sagði bless við mömmu, tók í hendina á Steinunni kennaranum mínum og við leiddumst inn. Ég var ekkert að þykjast skæla og svona eins og ég hef stundum gert, ég var bara glöð að vera komin og vildi drífa mig inn.
miðvikudagur, desember 15, 2004
Æ ansans
Ég var með hita í kvöld svo ég fæ ekki að fara í leikskólann á jólaballið á morgun og mamma fær ekki að fara í vinnuna. Vonandi fer þetta nú að lagast, mér finnst alveg lágmark að batna eftir allt sem ég er búin að leggja á mig, taka bæði ógeðslegt sýklalyf og púst.
þriðjudagur, desember 14, 2004
Það var nefnilega það
Haldið þið að ég sé barasta ekki með smá lungnabólgu. Jæja þá fæ ég alla vega meðal og vonandi fer þessi ljóti hósti bara út í hafsauga. Það er jólaball á leikskólanum á fimmtudaginn, vonandi verð ég orðinn nógu hress til að fara þá.
mánudagur, desember 13, 2004
Þetta var gaman
Loksins fékk ég fara út og mikið var ég fegin. Fyrst fékk ég að fara að hitta lækninn og leika mér að dótinu á heilsugæslustöðinni. Svo fékk ég að fara til Rósu Sólveigar frænku minnar að láta taka mynd af hóstanum mínum og hún gaf mér rauða blöðru sem ég var yfirmáta ánægð með. Og loks fékk ég að fara í bankann þar sem voru rosa góðar piparkökur, ég fékk stjörnupiparköku, jólasveinapiparköku og englapiparköku. Við fáum svo að vita á morgun hvort það sást eitthvað á myndinni af hóstanum mínum. Annars verð ég bara að reyna að vera dugleg að fá pústið mitt, ég er nú ekkert sérstaklega hrifin af því, held mér líði hálf illa af því.
föstudagur, desember 10, 2004
Hóst hóst
Ég er búin að vera ósköp lasin, með vondan hósta og astmahljóð svo ég þarf að vera dugleg að anda, fyrst með bláa og svo með appelsínugula. Ég var voða veik þegar við vorum hjá lækninum í gær, með mikinn hita og algjört grey, lækninum leist bara ekkert á og ætlar að hringja í dag til að vita hvernig mér líður. En ég er miklu hressari núna, ég er ekki með neinn hita lengur og er aðallega bara þreytt því ég svaf ekki vel í nótt og vaknaði snemma.
mánudagur, desember 06, 2004
Fjúff
Það er svo mikið að gera í fjörinu að maður má bara ekki vera að því að segja frá því! Fyrst er að telja að ég fór í afmælisveisluna hennar ömmu, við fórum á rosa fínan veitingastað og það var svo gaman að morguninn eftir vildi ég bara fara beint á veitingastaðinn aftur. Ég var mjög dugleg að hegða mér fallega, og líka mjög dugleg að borða brauðstangirnar hjá öllum. Ég var auðvitað mjög fín, í fjólubláum kjól með teygjur í hárinu. Mamma stakk upp á að ég færi í rauða skoska kjólinn minn en ég hélt nú ekki, ég var í honum í afmælinu hennar Sunnu fyrir bara nokkrum dögum síðan! Mamma sko, ég meina það!
Á laugardaginn komu svo Silja og Haukur til okkar. Við fórum út að renna okkur, það var reyndar eiginlega enginn snjór, bara krapi og klaki, en það var samt rosa gaman. Alveg þangað til ég lenti á of miklum klaka og gat ekki staðið upp aftur. Ég reyndi og reyndi og svo bara varð ég alveg öskureið og fór að háskæla svo stóri bróðir þurfti að hlaupa og ná í mömmu. En ég var nú fljót að jafna mig. Svo fórum við á Garðatorg að hlusta á tónlist og horfa á jólatréð. Ég dansaði við Silju og mömmu, það var aldeilis fjör á okkur. Svo komu jólasveinar en þeir voru með svo mikil læti að ég varð bara steinhrædd. Svo fórum við heim, fengum spaghettí í kvöldmat og horfðum svo á grínþáttinn og fengum snakk, alveg frábært sko! Ég þurfti svo auðvitað að drífa mig á fætur í gærmorgun, eins og mér finnst gott að kúra virka daga þá bara verð ég að draga mömmu og pabba á lappir um helgar. Og við horfðum á barnatíma og lékum okkur saman, allir krakkarnir, og fengum meira að segja að fara í heita pottinn. Það var alveg brjálað. Svo kom mamma Anna Margrét og þá þurftu Haukur og Silja að fara, en fjörið var samt ekki alveg búið því Sunna frænka mín kom og svo komu amma og afi og við Sigurður Pétur fengum að fara með þeim í blómabúð að skoða jólasveina og við fengum ís og allt. Ég er sko aldeilis heppin að fá að gera svona margt skemmtilegt.
Á laugardaginn komu svo Silja og Haukur til okkar. Við fórum út að renna okkur, það var reyndar eiginlega enginn snjór, bara krapi og klaki, en það var samt rosa gaman. Alveg þangað til ég lenti á of miklum klaka og gat ekki staðið upp aftur. Ég reyndi og reyndi og svo bara varð ég alveg öskureið og fór að háskæla svo stóri bróðir þurfti að hlaupa og ná í mömmu. En ég var nú fljót að jafna mig. Svo fórum við á Garðatorg að hlusta á tónlist og horfa á jólatréð. Ég dansaði við Silju og mömmu, það var aldeilis fjör á okkur. Svo komu jólasveinar en þeir voru með svo mikil læti að ég varð bara steinhrædd. Svo fórum við heim, fengum spaghettí í kvöldmat og horfðum svo á grínþáttinn og fengum snakk, alveg frábært sko! Ég þurfti svo auðvitað að drífa mig á fætur í gærmorgun, eins og mér finnst gott að kúra virka daga þá bara verð ég að draga mömmu og pabba á lappir um helgar. Og við horfðum á barnatíma og lékum okkur saman, allir krakkarnir, og fengum meira að segja að fara í heita pottinn. Það var alveg brjálað. Svo kom mamma Anna Margrét og þá þurftu Haukur og Silja að fara, en fjörið var samt ekki alveg búið því Sunna frænka mín kom og svo komu amma og afi og við Sigurður Pétur fengum að fara með þeim í blómabúð að skoða jólasveina og við fengum ís og allt. Ég er sko aldeilis heppin að fá að gera svona margt skemmtilegt.
fimmtudagur, desember 02, 2004
Afmælisdagur
Elsku amma mín Inga Rósa á merkisafmæli í dag, til hamingju með það amma mín! Ég veit líka alveg hvað þú ert gömul, svona tveggja ára eins og tveir puttar. Eða kannski eins árs eins og einn putti...
miðvikudagur, desember 01, 2004
Ég er svo heppin stúlka
Ég á svo góða frænku, hana Silju, sem leyfði mér að vera hjá sér og sofa í rúminu sínu og leika með dótið sitt og allt hvaðeina. Og hún mamma Anna Margrét er líka svo góð við mig. Ég fékk að fara til þeirra á laugardaginn, svo næsta laugardag ætlar Silja að koma til mín. Ég hlakka sko mikið til. Svo var amma Gisela í heimsókn hjá okkur, það var líka gaman þó ég væri reyndar dálítið þreytt á sunnudaginn af því að ég gleymdi að sofa í kerrunni minni. Svo ég þurfti aðeins að öskra og skæla, það var ekki eins gaman :-( En ég var samt ósköp glöð að hafa hana ömmu hjá okkur, og ég velti því líka aðeins fyrir mér hvar afi Jón væri, "hvar er afi Jón, ég gleymdi honum" sagði ég. Og ég vil endilega fara aftur til Akureyrar til ömmu og afa, ég man alveg eftir húsinu þeirra, það er dót þar og stigi og ég var að leika mér og lesa bók þegar ég fór til þeirra síðast, sem var í endaðan apríl.
Í gær var svo aftur rosa fjör, þá fékk ég að fara í partý í skólann hans Sigurðar Péturs. Það var sko flott, fullt af stórum krökkum sem voru að syngja og leika ýmislegt, snakk og kökur og kleinur og mikið fjör. Ég hlakka svo mikið til að fara í skóla að ég get bara næstum ekki beðið.
Svo er bara eitt að lokum, í gær raðaði ég öllum snuddunum mínum í röð á stofuborðið og taldi þær, og þær eru 12.
Í gær var svo aftur rosa fjör, þá fékk ég að fara í partý í skólann hans Sigurðar Péturs. Það var sko flott, fullt af stórum krökkum sem voru að syngja og leika ýmislegt, snakk og kökur og kleinur og mikið fjör. Ég hlakka svo mikið til að fara í skóla að ég get bara næstum ekki beðið.
Svo er bara eitt að lokum, í gær raðaði ég öllum snuddunum mínum í röð á stofuborðið og taldi þær, og þær eru 12.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)