mánudagur, janúar 31, 2005

Læknisheimsókn

Eftir að hafa suðað í mömmu í allan morgun fékk ég loksins að fara til læknis. Mér var nefnilega svo illt í puttanum. Jú og svo hafði mamma einhverjar áhyggjur af hóstanum mínum og hitanum, og því að ég skyldi öskra á hana í nótt og segja henni að fara og ekki koma við mig. Alla vega kom í ljós að ég er komin með lungnabólgu, svo ég fékk meðal og nýjar snuddur og tannbursta, svo á ég að vera dugleg að anda (pústinu) og sofa (það segir mamma) og má ekkert fara í leikskólann þessa viku.

Í gær var rosa fjör hjá okkur, þá var afmælið hans stóra bróður. Það kom fullt af strákum og svo komu Silja frænka mín og Hugrún Ósk litla systir hans Sigurðar Péturs. Ég var nú svolítið spennt að skoða hana og klappa henni smávegis, en aðalfjörið var að leika alveg brjálað með Silju. Við lékum okkur með blöðrur og í rólunni minni og hoppuðum og öskruðum. Svo horfðum við líka smá á Brúðubílinn og vorum voða góðar. Ég fékk fullt af súkkulaðiköku og snakki og sprengdi margar blöðrur.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Sigurður Pétur kominn heim

Loksins er bróðir minn kominn heim frá útlöndum og nú á hann afmæli! Ég er búin að sakna hans svo mikið og segja öllum sem ég hef hitt síðustu daga að hann sé að fara að koma og sé að fara að eiga afmæli og ég ætli að baka handa honum köku og gefa honum pakka og hjálpa honum að opna pakkana. Ég var svo spennt á leikskólanum í gær, af því ég vissi að hann væri að koma, að ég réði bara ekkert við mig og beit óvart vinkonur mínar nokkrum sinnum.

mánudagur, janúar 24, 2005

Sund, sumarfrí og skíði

Á laugardaginn fór ég í fyrsta tímann á nýja sundnámskeiðinu. Okkur leist bara vel á, þó það væri ekki eins mikið fjör og hjá Jóni og Helgu í ungbarnasundinu. Svo brunuðum við í sumarfríið í Víðihlíð. Þar var fullt af snjó, við vorum smá stund að reyna að komast heim að húsinu en pabbi snillingur keyrði út í móa og stökk yfir skurð og komst á endanum alla leið. Svo fór ég út að leika, á snjóþotu og rúlla mér, og svo fór ég aðeins á skíði. Ég er algjör skíðasnillingur og gat rennt mér alveg sjálf niður smá brekku. Amma og afi og Þórður voru líka í Víðihlíð, mér finnst sko langskemmtilegast að hafa svona margt fólk í kringum mig, þá er svo mikið fjör.

föstudagur, janúar 21, 2005

Og meira um sumarfrí

Nú er bara allt að gerast hjá okkur mömmu, við erum búnar að búa til nýja bloggsíðu um sumarfríið okkar og þar er kominn fyrsti hlutinn af ferðasögunni. Þar eru líka hlekkir á öll myndaalbúmin og síðasta albúmið með Danmerkurmyndunum er komið þar með. Þetta kemur allt með kalda vatninu... :-)

Sumarfrí!!!

Mamma og pabbi sögðu mér í gær að við værum að fara í Víðihlíð um helgina. Að sjálfsögðu veit ég hvað það er, það er sko sumarfrí! Svo í morgun var ég spennt og tilbúin að fara í sumarfrí og vildi alls ekki fara í leikskólann. Sem betur fer er söngfundur og fjör á föstudögum svo það bætti aðeins upp vonbrigðin.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Vandarínur og rínber

Ávextir og ber eru í miklu uppáhaldi hjá mér, sérstaklega eru arraber og rínber með því besta sem ég fæ. Ég er líka mjög hrifin af vandarínum, mér finnst svo gaman að taka utan af þeim og rífa þær niður í báta þó ég borði þær ekki alltaf. Nammi finnst mér hins vegar ekki gott, bara mamma borðar það.

laugardagur, janúar 15, 2005

Eitt og annað

Af mér er allt gott að frétta þessa dagana, ég er alsæl með að fá að vera á leikskólanum allan daginn marga daga í röð og vil helst bara fara strax aftur þegar ég kem heim. Ég er líka alveg hress og ekkert lasin, það er svo gott að vera frískur. En mamma var lasin í gær, greyið hún og greyið ég því hún gat eiginlega ekkert haldið á mér. Sem betur fer er hún hressari í dag og farin að snúast aftur í kringum mig. Pabbi er líka alltaf góður við mig, kitlar mig og heldur á mér og hleypur á eftir mér, það veitir sko ekki af tveimur í fullt starf við að passa mig og leika við mig. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt, í morgun lærði ég til dæmis að ef maður setur rúsínu upp í nefið á sér þá getur hún orðið föst. Mamma gat sem betur fer náð henni úr svo það var allt í lagi. Svo er ég búin að læra ótrúlega fyndna setningu úr Brúðubílnum (uppáhaldinu hennar mömmu), það er "bless kex, kornflex". Þetta er sko húmor í lagi!

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Jólaball

Loksins komst ég á jólaball, ég var svo lasin allan desember að ég missti af öllum jólaböllum þá, en nú er ég orðin frísk og hress og fékk að fara á mjónujólaballið á sunnudaginn (mjónurnar eru mömmuhópurinn hennar mömmu minnar). Það var alveg ótrúlega frábærlega skemmtilegt. Fyrst var ég reyndar pínu feimin og mamma átti bara að halda á mér á meðan við dönsuðum í kringum jólatréð. En svo jafnaði ég mig á því og dansaði bara sjálf, leiddi hana Söru Mist og við vildum sko ekkert hætta að dansa í kringum tréð. Svo fengum við alls konar gott í gogginn og hlupum út um allt og skemmtum okkur hið besta. Eftir jólaballið fór ég svo til ömmu og afa í Hjallabrekku þar sem ég braut piparkökuhúsið þeirra og drakk heitt súkkulaði. Ég var nú ekkert hrifin af því að borða húsið sjálf, en vildi endilega gefa öllum öðrum risastóra bita. Sigurður Pétur fékk líka að sprengja brjálaða innisprengju og það var sko allt í rrrrrrrrúst eftir það.

Í gær fékk ég svo heldur betur skemmtilega heimsókn, þá komu Haukur og Pétur og Silja, mamma þeirra (sem er svolítið mín mamma líka finnst mér), amma Gisela og Anna-Lind frænka mín sem á heima í Ameríku. Þetta var sko gaman, við Silja erum orðnar svo góðar vinkonur að ég veit fátt skemmtilegra en annað hvort heimsækja hana eða að hún heimsæki mig.

Já og ég er hætt með bleyju, það var sko ekki mikið mál skal ég segja ykkur.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Stór stúlka

Í dag fór ég ekki með neina bleyju í leikskólann og æfði mig í allan dag að vera bleyjulaus. Það gekk bara nokkuð vel, ég pissaði smávegis í klósettið nokkrum sinnum og gerði eitt og annað í buxurnar nokkrum sinnum, en það gerir ekkert til, mamma verður bara dugleg að þvo fötin mín. Ég var nú svolítið efins fyrst, vildi helst bara vera lítil og fá nýja bleyju, en svo var þetta bara allt í lagi og mér finnst voða gaman að vera stór stúlka og pissa í klósett.

mánudagur, janúar 03, 2005

Loksins loksins

Loksins er ég komin í leikskólann minn, ég var mjög ánægð með að fara þangað í morgun og kvartaði ekkert þó ég væri ægilega sybbin. Ég er líka búin að vera heima meira og minna lasin í rúmar þrjár vikur, það er nú alveg nóg komið. Við vorum nú samt öll orðin nokkuð hress um helgina, á nýársdag fór ég í bíó með bróður mínum, frændsystkinum, mömmu og Jóni afa. Það var auðvitað mikið gaman, eini gallinn við bíó er bara að það skuli enda, ég vildi helst ekkert fara heim. En Haukur, Pétur og Silja komu með okkur heim úr bíóinu og Anna Margrét og Nonni komu svo líka heim til okkar í veislu, svo það var nú alveg frábært fjör.

Annars er það helst í merkisfréttum að mamma var að komast í gegnum nokkrar myndir úr sumarfríinu, nú er komin seinni hlutinn af myndum frá tjaldútilegunni á Vestfjörðum og nokkrar myndir frá því við vorum í Víðihlíð. Svo er mamma byrjuð á ferðasögunni svo hún kemur vonandi fljótlega, og sömuleiðis myndirnar frá Danmörku.

laugardagur, janúar 01, 2005

Partý

Í gær var partý, ég fékk fullt af snakki og ég fékk að sprengja og svo fékk ég að liggja í sófanum og horfa á einhvern fyndinn þátt. Þegar þátturinn var búinn var ég orðin alveg dauðþreytt og fór nú bara beint að sofa. En þetta var mikið fjör og ég skemmti mér hið besta. Á eftir ætla ég svo að sprengja meira með bróður mínum.