miðvikudagur, janúar 12, 2005

Jólaball

Loksins komst ég á jólaball, ég var svo lasin allan desember að ég missti af öllum jólaböllum þá, en nú er ég orðin frísk og hress og fékk að fara á mjónujólaballið á sunnudaginn (mjónurnar eru mömmuhópurinn hennar mömmu minnar). Það var alveg ótrúlega frábærlega skemmtilegt. Fyrst var ég reyndar pínu feimin og mamma átti bara að halda á mér á meðan við dönsuðum í kringum jólatréð. En svo jafnaði ég mig á því og dansaði bara sjálf, leiddi hana Söru Mist og við vildum sko ekkert hætta að dansa í kringum tréð. Svo fengum við alls konar gott í gogginn og hlupum út um allt og skemmtum okkur hið besta. Eftir jólaballið fór ég svo til ömmu og afa í Hjallabrekku þar sem ég braut piparkökuhúsið þeirra og drakk heitt súkkulaði. Ég var nú ekkert hrifin af því að borða húsið sjálf, en vildi endilega gefa öllum öðrum risastóra bita. Sigurður Pétur fékk líka að sprengja brjálaða innisprengju og það var sko allt í rrrrrrrrúst eftir það.

Í gær fékk ég svo heldur betur skemmtilega heimsókn, þá komu Haukur og Pétur og Silja, mamma þeirra (sem er svolítið mín mamma líka finnst mér), amma Gisela og Anna-Lind frænka mín sem á heima í Ameríku. Þetta var sko gaman, við Silja erum orðnar svo góðar vinkonur að ég veit fátt skemmtilegra en annað hvort heimsækja hana eða að hún heimsæki mig.

Já og ég er hætt með bleyju, það var sko ekki mikið mál skal ég segja ykkur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli