Svona skrifaði ég nafnið mitt alveg sjálf í mömmu tölvu. Ég er sko alveg með það á hreinu að ég er Markúnsdóttir.
Mamma mín kom frá útlöndum í gær með fullt af nýjum fötum handa mér. Enda er ég svo dugleg að stækka að ég er farin að standa alls staðar út úr fötunum mínum. Hún var að heimsækja Svandísi vinkonu sína og hafði það víst alveg ótrúlega gott. Við höfðum það líka fínt með pabba á meðan, við fórum í langa labbitúra í fjörunni, fundum egg og glænýja unga, krabba, krossfiska og allt mögulegt. Gabríel lætur sem betur fer eggin og ungana í friði, hann eltir bara gæsirnar, örugglega í trausti þess að hann eigi aldrei eftir að ná þeim.
mánudagur, maí 29, 2006
þriðjudagur, maí 23, 2006
Júróvisjón í örstuttu máli
Sylvía Nótt vann ekki keppnina. Hún söng ekki besta lagið. Skrímslin unnu keppnina.
mánudagur, maí 22, 2006
Samkvæmislífið
Það var aldeilis nóg að gera hjá mér um helgina, ég fór nefnilega í tvö afmæli. Það var auðvitað mikið fjör og gaman, og svolítið fyndið að í báðum afmælunum stakkst stóratáin út úr sokkabuxunum mínum (sitthvorum sokkabuxunum auðvitað). Ég er greinilega að vaxa út úr öllum fötunum mínum!
Baðherbergið mjakast áfram, ég er búin að gera úttekt á því sem er eftir og það er:
- bað
- vaskur
- til að hengja klósettpappír
- meiri flísar
- hurð
Svo þið sjáið að þetta er bara næstum því tilbúið :-)
föstudagur, maí 19, 2006
Aumingja ég
Ég er búin að eiga ósköp bágt núna síðustu daga. Það byrjaði með því að ég varð lasin með hósta og hita. Hitinn er reyndar farinn núna sem betur fer, en ég er ennþá með svolítið vondan hósta. Í gær var ég svo að vesenast í tröppunum og datt á andlitið svo að ég fékk blóð á báðar varirnar og bólgnaði öll upp svo ég var eins og boxari í framan. Ég náttúrulega hágrét og átti hræðilega bágt. Svo í dag fór ég aftur að hágráta því þá gerðist sá hræðilegi atburður að tyggjóið mitt fór upp í nef og festist þar. Ég var alveg miður mín yfir þessu og grét og grét, en mamma náði sem betur fer tyggjóinu úr nefinu, svo ég þurfti ekki að fara á slysó. Bróðir minn var líka næstum því búinn að fara á slysó í dag því hann meiddi sig í fætinum þegar hann var að hoppa á trampólíni hjá vini sínum. En það slapp nú sem betur fer, hann meiddist ekkert mikið og jafnaði sig fljótt.
þriðjudagur, maí 16, 2006
Skilaboð frá mömmu til Svandísar
Var að reyna að hringja í þig í gsm símann en það var ekki að virka, sendu mér endilega númerið þitt eða hringdu.
þriðjudagur, maí 02, 2006
Langur dagur
Í gær var langur dagur hjá mér. Ég horfði á barnatímann og fór svo út að leika í góða veðrinu með bróður mínum. Svo komu Sunna og Maggi og Júlía, þau voru að fara í bæinn og voru svo góð að taka mig með. Ég fékk að fara í skrúðgöngu, hoppukastala, á kaffihús og ég fékk að syngja Öxar við ána með lúðrasveitinni. Ég ætlaði líka að fá ís, en þá kom haglél svo við fórum bara heim til Sunnu og Magga. Svo komu mamma og pabbi að sækja mig og við keyrðum alla leiðina í Stykkishólm til að fara með pabba á sjúkrahúsið. Í Stykkishólmi fékk ég hamborgara og franskar á veitingahúsi, namminamm hvað það var gott og hvað ég var svöng, ég kláraði næstum því allan matinn. Svo fór pabbi á sjúkrahúsið og við mamma keyrðum alla leiðina til baka. Ég sofnaði nú sem betur fer á bakaleiðinni, enda var klukkan orðin mjög margt og ég orðin mjög þreytt.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)