sunnudagur, nóvember 05, 2006

Ekki hundi út sigandi

Nei, það er bókstaflega ekki hundi út sigandi, alla vega ekki okkar hundi. Hann er voða órólegur yfir þessu óveðri greyið en sem betur fer vaknaði hann þegar pabbi fór á flugvöllinn í nótt og fór þá út í garð. Svo hann ætti ekki að þurfa að pissa í sófann alveg strax (Gabríel þá auðvitað, ekki pabbi). Pabbi er líka grey, hann hangir úti á flugvelli og bíður eftir að það verði flogið, sem verður ábyggilega ekki fyrr en einhvern tímann seint í dag. En það er alltaf í athugun eftir klukkutíma og svo annan og annan, svo hann neyðist til að hanga þarna og bíða.

Í gær var ég í afmæli hjá vinkonu minni af leikskólanum, og Lína langsokkur kom í afmælið! Það var sko ekkert smá flott, hún söng og dansaði með okkur og svo ætlaði hún að stinga skeið beint í afmæliskökuna. En við kenndum henni hvernig maður á að borða afmælisköku og þá gerði hún alveg eins og við.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli