fimmtudagur, maí 31, 2007

Sjálfstæð

Ég er orðin svo stór og dugleg, að í gær labbaði ég alein heim úr leikskólanum! Mamma kom á bílnum að sækja mig en ég vildi bara drífa mig labbandi. Það eru heldur engar götur á leiðinni, ég get verið á göngustíg og gangstétt alla leiðina, en þetta er samt dálítill spotti fyrir stutta fætur.

Nú, svo var ég hjá ömmu og afa í síðustu viku, mamma og pabbi voru með Guðmund Stein gubbandi í Róm. Það var sko miklu skemmtilegra hjá mér, ég fékk krítar og krossgátubók og kjól fyrir fermingarveislu sem ég fór í með ömmu og afa. Ég fór líka með þeim í heimsókn og fékk að vaka lengi lengi með unglingunum frænkum mínum og frændum sem voru að horfa á vídeó og borða snakk. Það var sko ekki leiðinlegt skal ég segja ykkur! Og ég fór á sundnámskeið, út að leika, fékk stóra flís í fótinn, tíndi orma og margt margt fleira. Þegar mamma og pabbi komu heim fékk ég svo stóra óskakúlu frá Róm, það er sko svona kúla með snjó inni í.

Núna er afi farinn í langt langt ferðalag, hann flaug til Calgary að sækja stóran bíl fyrir vinnuna sína. Svo er hann að leggja af stað að keyra bílinn alla leiðina þvert yfir Kanada. Og það er sko ekki lítið land!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli