fimmtudagur, október 18, 2007

Vangaveltur

Þegar ég var lítil fundust mér svona tómatabrandarar fyndnir. Það eru sko svona brandarar um tómata sem voru að labba yfir götuna og svo var keyrt yfir þá. En núna finnst mér þetta ekkert fyndið því þeir myndu bara slasast, eins og Gabríel þegar það var keyrt á hann.

En fimleikakennarinn minn, hún var einu sinni í landsliðinu í fimleikum, af því að hún var alltaf svo þögul á æfingum.

sunnudagur, október 14, 2007

Slasaður sellósnillingur

Á föstudaginn var ég að fara handahlaup í skólanum og rakst með fótinn í ofn. Ég fékk mjög hræðilegt sár, það var sko þannig að skinnið var út úr mér og kjötið líka! (Innskot frá mömmu: þetta var smá skeina, þurfti varla plástur).

Í gær fór ég í fyrsta skipti í hóptíma í selló, það var mjög skemmtilegt og ég var mjög dugleg. Við hrærðum í potti með boganum, gerðum þvottavél og rakettur. Svo spiluðum við Löggan segir stopp, stopp, Fá epli, Risakóngur Ragnar og Pínulitlar piparkökur. Mér fer mjög hratt fram á sellóið, enda er ég yfirleitt dugleg að æfa mig.

sunnudagur, október 07, 2007

Sund og slys

Í gær var ég búin að vinna mér inn 10 broskalla fyrir að vera dugleg að æfa mig á sellóið og fékk þess vegna að fara í sund með mömmu. Við fórum í Árbæjarlaugina og á leiðinni kannaðist ég alveg við mig og var að rifja upp þegar ég fór í Árbæinn með Kristínu Kolku vinkonu minni í fyrrasumar. Þegar við vorum síðan búnar að vera dálitla stund í sundinu, hvern hittum við þá nema Kristínu Kolku! Það voru sko fagnaðarfundir, við lékum okkur saman góða stund og fórum óteljandi ferðir í rennibrautina. Það var ótrúlega skemmtilegt.

Þegar við mamma vorum síðan að klæða okkur sá mamma að pabbi var búinn að reyna að hringja í okkur svo hún hringdi í hann til baka. Þá sagði hann að það hefði verið keyrt á Gabríel og hann væri slasaður. Grey Gabríel, okkur mömmu dauðbrá og við brunuðum heim eins hratt og við máttum. Gabríel kom á móti okkur og fagnaði okkur þegar við komum heim, og hann gat alveg labbað, en hann var samt með slæmt sár á einum fætinum svo að mamma fór með hann til dýralæknisins. Læknirinn tók mynd af fætinum hans en hann var sem betur ekki brotinn. Svo setti læknirinn umbúðir og gaf honum sýklalyf og verkjalyf. Vonandi grær þetta vel, grey óþekki hundurinn okkar.