sunnudagur, október 07, 2007

Sund og slys

Í gær var ég búin að vinna mér inn 10 broskalla fyrir að vera dugleg að æfa mig á sellóið og fékk þess vegna að fara í sund með mömmu. Við fórum í Árbæjarlaugina og á leiðinni kannaðist ég alveg við mig og var að rifja upp þegar ég fór í Árbæinn með Kristínu Kolku vinkonu minni í fyrrasumar. Þegar við vorum síðan búnar að vera dálitla stund í sundinu, hvern hittum við þá nema Kristínu Kolku! Það voru sko fagnaðarfundir, við lékum okkur saman góða stund og fórum óteljandi ferðir í rennibrautina. Það var ótrúlega skemmtilegt.

Þegar við mamma vorum síðan að klæða okkur sá mamma að pabbi var búinn að reyna að hringja í okkur svo hún hringdi í hann til baka. Þá sagði hann að það hefði verið keyrt á Gabríel og hann væri slasaður. Grey Gabríel, okkur mömmu dauðbrá og við brunuðum heim eins hratt og við máttum. Gabríel kom á móti okkur og fagnaði okkur þegar við komum heim, og hann gat alveg labbað, en hann var samt með slæmt sár á einum fætinum svo að mamma fór með hann til dýralæknisins. Læknirinn tók mynd af fætinum hans en hann var sem betur ekki brotinn. Svo setti læknirinn umbúðir og gaf honum sýklalyf og verkjalyf. Vonandi grær þetta vel, grey óþekki hundurinn okkar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli