þriðjudagur, janúar 29, 2008

Fárveik

Nú er ég eins veik og ég hef nokkurn tímann orðið. Í gær var ég með mikla hálsbólgu og rúmlega 38 stiga hita, og í dag er ég búin að vera með 39-40 stiga hita og liggja í sófanum í allan dag. Mér fannst ósköp leiðinlegt í gær að vera lasin og vildi endilega fá að heimsækja vinkonu undir kvöldið þegar mér fór að líða aðeins betur, en í dag er ég bara búin að vera of lasin til að láta mér leiðast.

En það eru nú ekki tóm leiðindi samt, því á sunnudaginn átti stóri bróðir minn hvorki meira né minna en ellefu ára afmæli. Það var rosalega flott veisla fyrir bekkjarbræður hans með rjúkandi þurrís, gerviflugum, beinagrindum og Harry Potter bíói. Ég var mjög spennt fyrir því að vera með stóru strákunum, en svo á endanum var nú miklu skemmtilegra að leika bara við hana Hugrúnu bróðursystur mína. Ég hélt fyrst að hún væri ennþá svo mikið smábarn og vildi ekkert að hún væri að leika með Pet Shop dótið mitt og svoleiðis. En hún er ekkert smábarn lengur, orðin þriggja og hálfs árs og við getum sko vel leikið okkur saman.

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Stórt skref

Nú er ég orðin svo stór að ég fékk að gista hjá vinkonu minni, henni Kristínu Kolku. Það var ótrúlega gaman hjá okkur og við vorum mjög duglegar. Mamma hennar sótti okkur báðar í skólann og við fórum heim til Kristínar. Við vorum svo spenntar að vera að fara að gista saman að við fórum beint í náttfötin. Svo lékum við okkur í fimleikaæfingum og alls kyns skemmtilegum leikjum, borðuðum fullt af fiski í kvöldmat og fórum svo prúðar og góðar að sofa á dýnu undir sömu sæng. Við vildum nefnilega alls ekki fá aukasæng, við vildum bara kúra okkur saman. Daginn eftir fór svo mamma hennar með okkur í skólann og mamma og pabbi hittu mig ekki fyrr en eftir þann skóladag. Þeim fannst þetta nú dálítið skrýtið en mér fannst þetta ekkert mál.