fimmtudagur, október 23, 2008

Nafnapælingar

Ef ég eignast til dæmis fjóra stráka og eina stelpu, þá eiga þeir allir að heita Snæfinnur en stelpan á að heita Snædís. Mamma spurði hvernig ég ætlaði þá að vita við hvern ég væri að tala, þá heitir einn bara Snæfinnur Björn og svoleiðis, skilurðu?

sunnudagur, október 12, 2008

Augljóst

Um daginn kom ég heim með heimaverkefni úr skólanum. Mamma spurði hvenær ég ætti að skila því. Ég hafði nú sjaldan heyrt eins kjánalega spurningu, auðvitað bara þegar ég væri búin með þetta!

laugardagur, október 11, 2008

Frúin í Hamborg

Mamma: Hvað keyptirðu fyrir peningana sem frúin í Hamborg gaf þér í gær?
Rósa: Ég keypti Ísland
Mamma: Ha? Allt Ísland?
Rósa: Allt Ísland
Mamma: Kostaði það ekki mikið?
Rósa: Ég veit það nú ekki. Ég er ekki búin að borga það.
Mamma Núnú?!?
Rósa: Ég átti ekki nógan pening.
Og þá gat mamma ekki annað en skellt upp úr...

Mamma var annars aðeins að útskýra fyrir mér að það væru ekki til eins miklir peningar á Íslandi lengur og sumir myndu kannski eiga svolítið erfitt af því mömmur þeirra og pabbar myndu missa vinnuna. Jújú, ég skildi það. Hafði samt ekki miklar áhyggjur, jú það er nú gott að eiga húsið sitt, en annars getur maður líka alveg bara byggt kofa og átt heima þar. Það myndi bara vera notalegt!