miðvikudagur, júní 27, 2012

Ég á litla systur

Loksins er komið litla systkinið sem ég er búin að bíða eftir síðan 10. nóvember, þá skrifaði ég þetta í minnisbókina mína: "Guðmundur er búin að vera með lúnabólgu. Í skólanum í dag fórum við á skauta. En nú er komið að aðalatriðinu. Við sátum við borðið og vorum að borða k.m. Þá sagði pabbi að við værum að fá nýtt sæti í Hummerin, þá sagði Siggi til hvers. Mamma: fyrir nýja barnið. Hvaða nýja barn sagði ég. Ég er ólétt sagði mamma. Og þar með komst ég að nýja systkininu.Viðvörun - Uss! bók bannað að segja."

Og hún er komin, litla sæta systirin mín fæddist 9. júní. Hún er ótrúlega sæt og góð og mér finnst mjög gaman að halda á henni og passa hana. Alla vega þegar ég er heima, en svo er ég líka svolítið oft að leika við vinkonur mínar og gista hjá þeim og gera alls kyns skemmtilegt, enda er ég komin í sumarfrí.

mánudagur, mars 05, 2012

Stóra systir

Bráðum fæ ég lítið systkini! Ég er svo spennt, ég var búin að suða í mömmu og pabba ótrúlega lengi um litla systur (eða lítinn bróður, ég veit að það er ekki hægt að velja, en mig langar samt mest í systur). Svo sögðu þau mér loksins í nóvember að ég fengi lítið systkini næsta sumar, og þess vegna væri mamma alltaf bara liggjandi í sófanum á kvöldin því henni var víst eitthvað illt í maganum. Fyrst trúði ég þessu næstum ekki, og svo varð ég alveg ótrúlega spennt og glöð. Ég mátti ekki segja neinum frá fyrr en mamma væri búin að fara í sónar, svo ég taldi niður dagana og minnti mömmu á hverjum degi á hvað væri núna langt þangað til hún færi. Og núna bara tel ég niður þangað til í júní, suma daga finnst mér að nú geti ég ekki beðið lengur. Ég vil helst að litla barnið sofi inni hjá mér og ég ætla alltaf að passa það og vera ótrúleg góð stóra systir. Það er nefnilega miklu skemmtilegra að fá svona lítið krúttlegt systkini heldur en bróður sem er orðinn fimm ára og er bara með stæla og stríðir manni. Ég reyni líka að vera voða góð við mömmu, nudda hana og gefa henni vatn og svona þegar hún er þreytt, en stundum vil ég samt líka láta hana þjóna mér.