fimmtudagur, september 30, 2004

Takk fyrir batakveðjurnar

Ég er orðin ótrúlega hress, frábær þessi sýklalyf! Ég er ennþá með svolítið vondan hósta og hor, en baugarnir eru farnir og hitinn og beinverkirnir og ég er bara í eins og ný manneskja, ótrúlegt hvað þetta andstyggðar meðal virkar fljótt og vel.

miðvikudagur, september 29, 2004

Læknirinn kom

Og ég er víst lasin á gráu svæði en ekki svörtu svo ég slepp við að fara á sjúkrahús en verð að vera rosa dugleg að taka meðalið. Ég er með slæma öndunarfærasýkingu og var komin með mjög háan hita og farin að anda hratt. Vonandi verður meðalið fljótt að reka burtu horið og hóstann.

þriðjudagur, september 28, 2004

Æ hvað ég er leið

Það er voða leiðinlegt að vera heima svona lasin í marga daga. Áðan sagði ég við mömmu, "aumi ég, ég er lasin í dag" :-( Og þegar ég var að fara að sofa bað ég mömmu að segja mér hvað krakkarnir á leikskólanum heita svo ég gæti rifjað upp allar vinkonurnar mínar sem ég sakna.

Ég er grey

Ég á ósköp bágt núna, ég er svo ægilega lasin. Ég fæ alveg upp í fjörutíu stiga hita, er alltaf hnerrandi og líður voða illa. En mamma og pabbi eru voða góð við mig, ég fæ að vera uppi með sængina mína í náttfötunum og horfa á uppáhaldsmyndirnar mínar: Skrímsli hf., Leitina að Jakobi, Tuma tígur, Leikfangasögu, Stúart litla og margar fleiri.

föstudagur, september 24, 2004

Leikskólamyndir

Mamma er búin að setja inn nokkrar myndir sem kennararnir mínir tóku á leikskólanum.

þriðjudagur, september 21, 2004

Skrímsli

Í morgun ætlaði ég að fá að ráða mér sjálf og vera bara á náttfötunum að horfa á barnatímann. En mamma vildi endilega setja mig í föt og fara með mig í leikskólann, svo ég öskraði og sparkaði og var alveg brjáluð. Þangað til mamma spurði hvort ég væri skrímsli, þá sagði ég "nei, ég er hætt að gráta" og steinhætti á stundinni. Ég er nefnilega búin að horfa mörgum sinnum á Skrímsli hf. svo ég veit alveg hvernig skrímsli eru, og ég vil sko ekki vera þannig.

mánudagur, september 20, 2004

Afmælisveislan mín

Jæja, best að ég segi ykkur nú aðeins frá frábæru afmælisveislunni minni. Það kom sko alveg fullt af fólki og gaf mér svo rosalega fínar gjafir, við mamma vorum báðar ótrúlega glaðar með þær allar. Ég fékk alls kyns föt og bækur, sápukúlur, púsluspil, pæjuveski með bursta og greiðu og spegli, Bangsímon-leikfangakassa, skraut í hárið, bangsaklukku, föt handa nýju dúkkunni minni, og alveg ótrúlega flottan vagn handa dúkkunni. Svo fengum við Grísla-afmælisköku og ég blés á kertin (með smá hjálp frá mömmu), og líka snakk og muffins og ýmislegt og svo fórum við að leika. Við máttum leika í nýju herbergjunum, sem eru sko ekkert smá flott, og ég lék mér líka úti á palli með dúkkuvagninn. Amma og afi komu með garðstólana sína og það var svo gott veður að það var bara hægt að sitja úti. Þegar veislan var búin fengum við svo að fara í pottinn, og vá hvað það var mikið fjör! Endalaust busl og skvett og hopp og bólakaf og gaman. Þetta var mjög skemmtilegur dagur og við vorum öll virkilega ánægð með hann :-)

"Nýjar" myndir

Mamma er búin að setja inn myndir síðan í maí. Svo kemur restin af sumrinu vonandi fyrr en varir.

sunnudagur, september 19, 2004

Frábær veisla

Mikið skemmti ég mér vel í afmælisveislunni og mikið var ég ánægð með allar fínu gjafirnar sem ég fékk. Kærar þakkir allir fyrir mig og fyrir skemmtilegan dag. Nánari lýsingar koma síðar, en nú er ég farin að steinsofa í hausinn á mér.

laugardagur, september 18, 2004

Ég á afmæli í dag

Nú er ég orðin tveggja ára, og er sko alveg með það á hreinu hvað ég er gömul. Ég fékk dúkku, sparkbíl, Bangsímontösku og tvo Bú. Ég er sko heppin stúlka. Ég fór líka á sundnámskeið í morgun og það var rosa gaman, ég fékk að hoppa og kafa og stinga mér og fara á bólakaf.

föstudagur, september 17, 2004

Fyrsti í afmæli

Í dag var ég afmælisstelpa í leikskólanum, við bökuðum köku (ég sleikti kremið), svo stóð ég upp á meðan allir sungu afmælissönginn og svo borðuðum við kökuna. Á morgun á ég síðan afmæli og þá ætla mamma og pabbi og Sigurður Pétur að syngja fyrir mig, og á sunnudaginn verður síðan veisla og þá ætlar fullt af fólki að syngja fyrir mig. Það eru semsagt mikil hátíðahöld í tilefni af þessu merkisafmæli mínu.

fimmtudagur, september 16, 2004

Ekki seinna vænna

Nú er hver að verða síðastur að skrifa hér sem eins árs minibloggari því tveggja ára afmælið mitt er bara rétt ókomið. Ég hlakka mikið til, ég ætla að hafa veislu með kökum og pökkum og afmælissöng. Og ef einhver veit um búð þar sem gætu fengist leikskólatöskur með Bangsímon þá endilega látið mömmu mína vita.

Annars er bara allt í fínu að frétta af mér, ég fékk reyndar óhræsis vírus í munninn eftir sjúkrahúsheimsóknina og átti ósköp bágt í fimm daga. Svo fékk mamma hann líka og átti líka voða bágt, hún gat ekki einu sinni borðað súkkulaðikökuna í vinnunni sinni. En við erum alveg orðnar hressar núna, ég vona bara að við fáum ekki flensuna ljótu sem allir virðast vera að fá. Og nýju herbergin okkar Sigurðar Péturs eru alveg að verða tilbúin (eða "túlbið"), þau verða sko ótrúlega flott, Sigurður Pétur er með sjó og himin og sjóræningjaeyju og sjóræningjaskip á veggjunum og ég er með gras og himin og hús inni í hól og blóm og Bangsímon. Það verður sko gaman þegar þetta verður allt saman búið og ég get farið að leika í herberginu mínu og mamma og pabbi geta hætt að smíða.

miðvikudagur, september 01, 2004

Sjúkrahúsfjör

Ég fékk að fara á sjúkrahús og það var sko gaman! Í fyrradag fékk ég að vera þar í smástund, hjúkrunarkonan mældi hvað ég er sterk og stór og svo fékk ég að leika með dúkkur og lesa bækur og gera margt skemmtilegt. Í gær fékk ég síðan að vera allan daginn, ég fékk að horfa á múmínálfana, leika með allt dótið, púsla og lesa. Svo fékk ég að keyra um allt í rúminu, það var sko brjálað! Síðan bara svaf ég í smástund á meðan læknirinn tók mynd af bakinu mínu, sem er víst rosa fínt og flott og alveg eins og það á að vera. Ég var reyndar pínu óánægð með slönguna sem var föst í hendinni minni þegar ég vaknaði, en annars var ég bara nokkuð hress. Ég fékk síðan að keyra meira í rúminu og horfa á meiri múmínálfa, en svo þurfti ég því miður að fara heim. Ég vildi nú helst bara fara aftur á sjúkrahúsið í morgun, en það var svo sem allt í lagi líka að fara í leikskólann.