mánudagur, september 20, 2004

Afmælisveislan mín

Jæja, best að ég segi ykkur nú aðeins frá frábæru afmælisveislunni minni. Það kom sko alveg fullt af fólki og gaf mér svo rosalega fínar gjafir, við mamma vorum báðar ótrúlega glaðar með þær allar. Ég fékk alls kyns föt og bækur, sápukúlur, púsluspil, pæjuveski með bursta og greiðu og spegli, Bangsímon-leikfangakassa, skraut í hárið, bangsaklukku, föt handa nýju dúkkunni minni, og alveg ótrúlega flottan vagn handa dúkkunni. Svo fengum við Grísla-afmælisköku og ég blés á kertin (með smá hjálp frá mömmu), og líka snakk og muffins og ýmislegt og svo fórum við að leika. Við máttum leika í nýju herbergjunum, sem eru sko ekkert smá flott, og ég lék mér líka úti á palli með dúkkuvagninn. Amma og afi komu með garðstólana sína og það var svo gott veður að það var bara hægt að sitja úti. Þegar veislan var búin fengum við svo að fara í pottinn, og vá hvað það var mikið fjör! Endalaust busl og skvett og hopp og bólakaf og gaman. Þetta var mjög skemmtilegur dagur og við vorum öll virkilega ánægð með hann :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli