þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Takk fyrir mig

Takk allir sem voru svo góðir að passa mig um helgina á meðan pabbi og mamma og afi og amma voru í útlöndum. Það vildi nú svo óheppilega til að kvöldið áður en þau fóru fékk ég hræðilegan verk í eyrað. Svo það var brunað á læknavaktina og ég var komin með eyrnabólgu og fékk meðal. Mér var hræðilega illt og gat ekki sofnað fyrr en mamma var búin að pína í mig verkjalyf. En svo um nóttina sprakk eyrað mitt og þá leið mér miklu betur, svo þegar ég vaknaði klukkan fimm þegar mamma og pabbi voru að fara þá var ég bara hress og glöð að fá Þórð frænda minn til að passa mig.

Hann keyrði mig svo í leikskólann og sótti mig aftur í vonda veðrinu og keyrði mig til Silju frænku. Þar fékk ég að vera alveg fram á sunnudag og ég fékk meira að segja að fara eina ferð á sleða af því að ég var alveg hress og það voru allir úti að leika á sleðum. Á sunnudaginn fór ég svo til Júlíu litlu frænku minnar og þar fékk ég að baka kanilsnúða, sjáið bara hvað ég var flott. Svo fór Þórður frændi minn með mig heim að sofa og þegar ég vaknaði voru mamma og pabbi komin heim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli