miðvikudagur, desember 31, 2008
Síðustu tímarnir
Ég hélt líka áfram að læra á sellóið mitt á þessu ári, ég er nú orðin bara ansi flink og búin að læra fullt af lögum, eins og til dæmis Bjart er yfir Betlehem og Fann ég á fjalli. Ég er líka orðin mjög flink að lesa og reikna, ég veit ýmislegt um heima og geima, er dugleg að spyrja og geymi vandlega svörin sem ég fæ.
Um jólin er ég búin að hafa það mjög gott með mömmu og pabba og bræðrum mínum. Fyrstu dagana í jólafríinu fékk ég að fara í vinnuna með mömmu, það er rosalega spennandi og það var mjög gaman þar, enda var slatti af krökkum þar með mömmum sínum og pöbbum. Svo erum við bara búin að vera í fríi og hafa það gott, ég fékk margar fínar gjafir sem ég var mjög ánægð með og búin að vera dugleg að hlusta á diskana, lesa bækurnar og púsla, ég fékk tösku sem ég tók með mér þegar ég fór að gista hjá frænku minni og náttfötin og inniskórnir komu sér vel í náttfatapartíinu sem ég fékk að halda fyrir allar bekkjarsystur mínar. Það var sko brjálað fjör, tuttugu stykki sex ára stelpur í jólafríi! Sem betur fer var ég búin að skrifa þétta leikjadagskrá, mamma og pabbi gáfu okkur pizzur og snakk að borða og svo vorum við bara á fullu í öllum leikjunum.
Og nú er að koma gamlárskvöld og ég ætla að vaka og sjá alla flugeldana. Við ætlum að vera hjá ömmu og afa ásamt fleira fólki, það verður örugglega fjör!
föstudagur, nóvember 28, 2008
Auglýsingaleikurinn
miðvikudagur, nóvember 05, 2008
Engar fréttir...
Jú svo er það nú að frétta að við fórum í Víðihlíð um helgina. Það var náttúrulega bara frábært eins og alltaf, ég var alveg til í að sleppa afmæli til að komast sem fyrst í sveitina. Við fundum smá snjó og lékum okkur á alveg frábærlega skemmtilegum snjóþotum sem pabbi fann í Toys'R'Us, þær eru eiginlega eins og lítið brimbretti, léttar og renna alveg ótrúlega vel. Veðrið var samt ekki mjög spennandi og við systkinin urðum öll þrjú ansi blaut og köld en það var samt rosalega gaman hjá okkur.
fimmtudagur, október 23, 2008
Nafnapælingar
sunnudagur, október 12, 2008
Augljóst
laugardagur, október 11, 2008
Frúin í Hamborg
Rósa: Ég keypti Ísland
Mamma: Ha? Allt Ísland?
Rósa: Allt Ísland
Mamma: Kostaði það ekki mikið?
Rósa: Ég veit það nú ekki. Ég er ekki búin að borga það.
Mamma Núnú?!?
Rósa: Ég átti ekki nógan pening.
Og þá gat mamma ekki annað en skellt upp úr...
Mamma var annars aðeins að útskýra fyrir mér að það væru ekki til eins miklir peningar á Íslandi lengur og sumir myndu kannski eiga svolítið erfitt af því mömmur þeirra og pabbar myndu missa vinnuna. Jújú, ég skildi það. Hafði samt ekki miklar áhyggjur, jú það er nú gott að eiga húsið sitt, en annars getur maður líka alveg bara byggt kofa og átt heima þar. Það myndi bara vera notalegt!
fimmtudagur, september 18, 2008
Afmælisstelpa
sunnudagur, september 07, 2008
Leikhúsið
laugardagur, ágúst 23, 2008
Tilgangur þróunarinnar
(Skýring frá mömmu, vinnufartölvurnar þeirra pabba og mömmu eru báðar með fingrafaralesara til að logga sig inn, augljóslega eru fingaför því til þess að komast inn í tölvur).
miðvikudagur, ágúst 20, 2008
Sigling
sunnudagur, ágúst 03, 2008
Komin heim
laugardagur, ágúst 02, 2008
laugardagur, júlí 05, 2008
Meira sumar
miðvikudagur, júlí 02, 2008
þriðjudagur, júlí 01, 2008
Útsmogin
Og í gær fórum við mamma og Guðmundur Steinn til ömmu að búa til rabarbarasultu (í staðinn fyrir sultuna sem ég bjó til í skólanum og mamma missti í gólfið). Þá stakk ég upp á því við ömmu hvort það væri ekki tilvalið að búa til vöfflur úr því við værum komnar með svona glænýja og fína rabarbarasultu. Svo mætti maður bara ráða hvort maður fengi sér sultu. Mér þykir hún nefnilega ekki góð. En vöfflurnar fékk ég :-)
mánudagur, júní 30, 2008
fimmtudagur, júní 26, 2008
Eyðimörk
laugardagur, júní 21, 2008
Frakkland
Við flugum fyrst til Parísar og notuðum seinnipart þess dags til að taka skrens á Euro Disney. Það lukkaðist ótrúlega vel þó við hefðum ekki mikinn tíma þar (og borguðum fáránlega mikið fyrir þetta ævintýri).
Svo flugum við til Toulouse og tókum lest þaðan áfram til Castelnaudary þar sem við fórum í bátinn. Og það var sko alveg svona gaman!
Svo var bara siglt í rólegheitunum eftir Canal du Midi, við höfðum það aldeilis ljómandi gott eins og þið sjáið.
Við vorum líka dugleg að fara í land og hjóla, ég var búin að kunna að hjóla í tæpar tvær vikur þegar við fórum í ferðina og stóð mig bara mjög vel, hjólaði aldrei út í skurðinn en ég kom að vísu dálítið hrufluð og marin heim. Og reyndar mamma líka, hún steyptist af hjólinu og næstum út í vatnið þegar ég hjólaði beint fyrir hana fyrsta daginn.
Í Carcassonne var þessi hringekja, það er bara eitthvað við hringekjur sem er alltaf skemmtilegt.
Og þarna erum við að bíða eftir ís á veitingastað inni í gömlu borginni í Carcassonne. Ótrúlega fín og góð systkini :-)
Þetta var geggjað gaman, við vorum á veitingastað að borða kvöldmatinn og á meðan fullorðna fólkið var að klára að borða fórum við systkinin í náttúruskoðun. Við söfnuðum saman heilum dýragarði af sniglum, ótrúlega flottum og spennandi.
Og þarna er ég með ömmu og mömmu í sumarvindinum í Le Somail.
miðvikudagur, júní 04, 2008
Ótrúlega spennt
miðvikudagur, maí 28, 2008
Vatnaskógur
Vatnaskógur var geggjaður! Við fórum í sveitaferð og sáum lömb fæðast, og ég fékk meira að segja að halda á lambi. Og við fórum í fjöruferð, að sigla á vatninu, í kassabíla, fjör í íþróttahúsinu, náttfatapartý, fengum pylsur og ís, og skemmtum okkur ótrúlega vel saman. Það var ekkert erfitt að fara svona að heiman, enda var ég með vinkonum mínum og kennurunum sem ég þekki svo vel. En það var samt líka voða gott að koma heim. Ég var líka ansi þreytt eftir ferðina, meira að segja nógu þreytt til að viðurkenna það :-)
laugardagur, maí 17, 2008
Hvítasunnan
Á sunnudaginn fórum við svo í svolítið langt ferðalag, til Ólafsvíkur. Þar var veisla sem ég skemmti mér svoleiðis ótrúlega vel í, ég horfði á vídeó og borðaði kjúklingaleggi, hitti Emil frænda minn og spjallaði dálítið við hann, og ég kynntist stelpum sem voru með mér að leika með lestarteina og lest sem gat meira að segja keyrt á teinunum. Þetta var bara með skemmtilegri veislum sem ég hef farið í!
Og á mánudeginum var síðan afmælisveisla fyrir þá frændur mína Teit Helga og Berg Mána. Það er nú alltaf mikið fjör þegar við frændsystkinin hittumst, og í þetta sinn passaði ég mig að klæða mig þannig að ég gæti leikið úti, í síðasta afmæli var ég nefnilega í fínum kjól og gat ekki leikið úti eins og mig langaði svo mikið til.
Nú, vikan er líka búin að vera viðburðarík, bæði fimleikarnir og tónskólinn eru að klárast, ég er búin að vera á stífum fimleikaæfingum fyrir lokasýninguna í dag, og svo var sellóæfing fyrir skólaslitin þar sem ég átti að spila, en mamma reyndar misskildi póstinn frá skólanum og hélt að skólaslitin væru daginn eftir æfinguna, en ekki beint eftir hana sama dag, svo ég mætti á æfinguna en missti af að spila á sjálfum skólaslitunum.
Á mánudaginn rennur svo upp dagur sem er lengi búið að bíða eftir, þá fer ég með hinum börnunum í fimm ára skólanum í útskriftarferð í Vatnaskóg og við gistum þar í tvær nætur! Ég er búin að pakka niður í útskriftarpokann minn sem ég bjó til í skólanum, í honum eru náttfötin, tannbursti, svefnfélagi og bók.
mánudagur, maí 05, 2008
Stundum fer maður á kostum
En á föstudaginn, þá var Guðmundur Steinn kominn með eyrnabólgu og það lak ógeð út úr eyranu á honum. Ég var við hliðina á honum í bílnum og var eitthvað að fárast yfir þessu, svo mamma fór að segja mér frá því þegar ég var lítil og fékk eyrnabólgur. Svo spjölluðum við eitthvað um það, svo langaði mig að heyra fleiri sögur og sagði við mömmu, "segðu mér meira frá því ég var lítil, samt ekki um eyrnabólgu, ég fæ taugaáfall ef ég heyri meira um eyrnabólgu!"
sunnudagur, maí 04, 2008
Mánuður liðinn
Mamma og pabbi fóru til Marokkó og það var víst mjög gaman og mikil upplifun. Þau fóru meira að segja í loftbelg og allt. Við Guðmundur Steinn vorum fyrst hjá ömmu og afa í tvo daga og svo fengum við að fara til Silju og gista þar eina nótt. Ég keppti á fyrsta fimleikamótinu á meðan mamma og pabbi voru í Marokkó, á Ponsumóti þar sem ég stóð mig auðvitað mjög vel þó við ynnum nú ekki. Afi fór með mér og tók fullt af vídeómyndum svo mamma og pabbi gætu séð hvað ég var flink.
Ég er mikið búin að vera úti í góða veðrinu, á trampólíni og í heita pottinum og svo er ég búin að vera mjög dugleg að æfa mig á línuskautum. Það er svo gaman þegar vorið er komið og hægt að vera úti að leika.
fimmtudagur, apríl 03, 2008
Ein þreytt
Um síðustu helgi drifum við okkur loksins í Bláfjöll. Ég fékk leigð skíði og renndi mér eins og herforingi í brekkunum. Ég datt náttúrulega nokkrum sinnum og kunni ekkert að beygja en ég hafði engar áhyggjur af því. Pabbi hjálpaði mér nú dálítið, ég gat hvorki staðið upp sjálf né komist upp að lyftunni, en ég gat hins vegar alveg farið ein í diskalyftunni, og það margar ferðir meira að segja. Ég var ótrúlega montin af sjálfri mér! Sigurður Pétur var líka mjög flinkur á snjóbrettinu og Guðmundur Steinn tók sig vel út á snjóþotunni.
Og páskarnir já, þeir voru bara frábærir eins og alltaf. Við fórum í páskaeggjaleit úti í brekkunni í Víðihlíð á föstudaginn langa. Mamma vill nefnilega endilega draga fram páskaeggin fyrir páskadag svo það sé hægt að narta í þau í páskafríinu. Á páskadag fékk amma síðan þá frábæru hugmynd að gera aðra eggjaleit, í það skiptið harðsoðin egg sem voru falin í stofunni. Síðan máttum við lita á eggin, og loks borða þau. Mér fannst eggjaleitin það skemmtilegasta við páskafríið. En svo var líka margt annað mjög skemmtilegt, eins og að leika úti í snjónum með bræðrum mínum og hundinum, renna sér niður brekkur á snjóþotu eða á maganum, fara í heita pottinn og lesa, ekki má gleyma því. Ég las næstum því alla Sigrún fer á sjúkrahús, alveg sjálf. Og lét les hana nokkrum sinnum fyrir mig. Ég las líka Drekann með rauðu augun og Ólympíustrumpinn. Það er alltaf svo ótrúlega gaman að vera í Víðihlíð, og sérstaklega þegar margir eru.
þriðjudagur, mars 18, 2008
Vangaveltur
Svo á leiðinni í skólann (eftir að við vorum búnar að komast að því að tónskólinn er farinn í páskafrí) var ég komin í aðrar hugleiðingar og sagði allt í einu upp úr þurru við mömmu, "Ég veit hvernig maður getur búið til kind. Maður tekur bara svona ull og svo tekur maður einhvern haus og eyru og setur á, og svo fullt af fótum. Og þá er komin kind!" Ekki mikið mál sko. Mamma spurði hvort þær fæddust ekki sem lítil lömb, jújú ég vissi það alveg, en það er sko líka hægt að búa til kind svona, maður þarf bara að finna einhvern haus og eyru og fætur.
föstudagur, mars 14, 2008
Búningadagur
miðvikudagur, mars 12, 2008
Mikið að gera
Það er margt og mikið búið að gerast hjá mér síðan ég skrifaði síðast, enda var það fyrir mjög löngu síðan. Ég man nú ekki eftir því öllu, né hverju ég var búin að segja ykkur frá. En ég var alla vega ekki búin að segja ykkur frá því að ég fór um síðustu helgi í nafngiftarveislu hjá lítilli dömu sem fékk það fallega nafn Guðlaug Nóa. Við mamma fórum saman í veisluna, en Guðmundur Steinn varð að vera heima með pabba því hann var búinn að vera svo lasinn. Ég skildi það nú aldeilis fljótt, "Guðmundur Steinn má ekki koma í veisluna", sagði ég. "Hann gæti smitað alla og þá myndi hann eyðileggja veisluna. Þá yrði hann skammaður, er það ekki mamma!". Þá skellti mamma nú upp úr þegar hún sá fyrir sér Guðmund Stein fá orð í eyra, og alla veislugestina liggjandi í bráðsmitandi instant veikindum. Nei þá var nú betra að geyma hann bara heima.
Mest spennandi framundan er auðvitað páskafríið, ég er löngu byrjuð að telja niður dagana og hlakka mikið til að fara í Víðihlíð. Ég vona að það verði snjór svo við getum leikið okkur úti í snjónum, eða að það verði ekki snjór svo við getum rúllað okkur niður brekkuna. Svo eftir það er það ferðin til Frakklands sem við ætlum að fara með ömmu og afa í júní. Við ætlum að fara að sigla á bát, ég er mjög spennt að sjá alla krókódílana og hákarlana og sjávardýrin. Mamma og pabbi eru með einhverjar efasemdir um að það sé svo mikið líf í skipaskurðunum, en ég hlusta sko ekkert á það.
þriðjudagur, janúar 29, 2008
Fárveik
En það eru nú ekki tóm leiðindi samt, því á sunnudaginn átti stóri bróðir minn hvorki meira né minna en ellefu ára afmæli. Það var rosalega flott veisla fyrir bekkjarbræður hans með rjúkandi þurrís, gerviflugum, beinagrindum og Harry Potter bíói. Ég var mjög spennt fyrir því að vera með stóru strákunum, en svo á endanum var nú miklu skemmtilegra að leika bara við hana Hugrúnu bróðursystur mína. Ég hélt fyrst að hún væri ennþá svo mikið smábarn og vildi ekkert að hún væri að leika með Pet Shop dótið mitt og svoleiðis. En hún er ekkert smábarn lengur, orðin þriggja og hálfs árs og við getum sko vel leikið okkur saman.