föstudagur, nóvember 20, 2009
Smá misskilningur
Ég var í búðinni með mömmu og þar var skilti sem á stóð tilboð - suðusúkkulaði. Þetta fannst mér kostulegt. Mamma, sagði ég, það er ekki til neitt sem heitir suðusúkkulaði! Mamma var svolítið hissa þar sem þetta var lengi vel eina nammið sem ég borðaði. Nei, sagði ég, það heitir suðuRsúkkulaði. Af því það kemur frá Suðurlandi. Mamma er ennþá eitthvað að hlæja að þessu, en ég er alveg viss í minni sök, það heitir suðuRsúkkulaði.
laugardagur, september 19, 2009
Sjö ára
Það var svo mikið að gera í afmælishaldi hjá mér í gær að ég mátti bara ekkert vera að því að segja frá því! Ég byrjaði á því að vakna við afmælissöng og fékk að opna einn pakka. Og í honum reyndist vera það sem ég óskaði mér allra mest, miðar á Söngvaseið. Og það meira að segja á sýningu sama dag og á fremsta bekk! Það var reyndar þýddi að ég þurfti að fara snemma úr afmælisveislunni sem ég var búin að bjóða öllum í bekknum í, en það var nú allt í lagi.
Ég fór svo í skólann og átti afskaplega góðan dag þar, allar vinkonur mínar kepptust um að fá að sitja hjá mér og knúsa mig og gefa mér föndraðar afmælisgjafir, það er sko ekki amalegt að eiga svona góðar vinkonur. Mamma sótti mig svo snemma og við fórum að undirbúa veisluna. Í veislunni var ratleikur, regnbogakökur og rice crispies nammiskálar, og svo horfðum við á Pétur Pan í bíóinu. Og ég fór síðan fyrst af öllum úr afmælinu til að fara í leikhúsið. Mér fannst alveg jafn skemmtilegt og þegar ég fór með ömmu síðasta vor, ég var sko alveg síðan þá búin að óska þess að fá miða á Söngvaseið í afmælisgjöf.
Þetta var semsagt alveg frábær afmælisdagur og ég var ótrúlega ánægð með hann!
mánudagur, september 07, 2009
Tannlaus
Svona er ég nú flott núna :-) Ég er byrjuð aftur í skólanum eftir aldeilis fínt sumarfrí, við rúntuðum fram og aftur um landið í Hummernum í fjórar vikur og gerðum margt margt skemmtilegt. Ég fékk líka að fara á skátanámskeið og það var algjört æði, ég fór í sund í Nauthólsvík, hjólandi að Vífilsstaðavatni og þar á kajak, og meira að segja í útilegu yfir nótt. Svo fannst mér líka mjög gaman að mæta aftur í skólann og hitta allar vinkonurnar, og heldur betur spennandi að fá heimaverkefni! Og nú styttist bara í afmælið mitt. Ég veit alveg hvað mig langar mest af öllu í í afmælisgjöf, það er nefnilega miðar á Söngvaseið. Ég fékk að fara með ömmu síðasta vor og alveg síðan þá hef ég beðið eftir því að afmælið mitt komi og óskað mér þess mest af öllu í afmælisgjöf að fá að fara aftur.
þriðjudagur, maí 26, 2009
Talandi dír og hlutir
Ég hef nú ekki mikið komist að til að skrifa undanfarið, það snýst allt hérna um þennan fótbrotna bróður minn. Eins og mér líði ekki líka stundum illa! Svo er hann ótrúlega nískur. En ég er samt eiginlega alltaf mjög góð við hann, dugleg að leika við hann og svoleiðis. Svo var ég nú svo heppin að fá að fara með honum á leikstofuna á spítalanum og hitta Hring ísbjörn og föndra mósaíkmyndir og fleira skemmtilegt, svo þetta hefur nú líka haft sína kosti. En nú er hann kominn heim og byrjaður í aðlögun aftur í leikskólanum. Annars ætlaði ég alls ekkert að skrifa um hann, heldur ætlaði ég að segja ykkur frá því að ég er ótrúlega spennt því ég er að fara í vorferð með skólanum mínum á morgun. Við förum á Eldborg á Snæfellsnesi og verðum í tvær nætur. Ég fór líka í svona ferð í fyrra og það var alveg frábært, þá fórum við í Vatnaskóg.
Svo ætlaði ég líka að deila með ykkur sögu sem ég skrifaði í skólanum, hún er orðrétt svona:
Talandi dír og hlutir
Fór ég úti í götu hitti talandi fötu fór hún eins og í lötu.
Dægin eftir sá ég belju á svelli
Geit pakkar vasa inn
Beljan sagði þetta er skautadans!
Geitin sagði ég er að pakkinn vasa!
Svo ætlaði ég líka að deila með ykkur sögu sem ég skrifaði í skólanum, hún er orðrétt svona:
Talandi dír og hlutir
Fór ég úti í götu hitti talandi fötu fór hún eins og í lötu.
Dægin eftir sá ég belju á svelli
Geit pakkar vasa inn
Beljan sagði þetta er skautadans!
Geitin sagði ég er að pakkinn vasa!
sunnudagur, apríl 12, 2009
Gleðilega páska
Það er búið að vera geggjað fjör hjá okkur í páskafríi á Akureyri! Ég er búin að vera rosa dugleg á skíðum og renna mér um allt í fjallinu, mest með Silju og Önnu Margréti. Í dag hitti ég svo hana Kristínu Kolku vinkonu mína í fjallinu og við renndum okkur um allt með mömmu hennar. Svo fékk ég að fara með henni í matarboð langt fram á kvöld, þvílíkt fjör og partístand á manni! :-) Ég er líka búin að fara í sund og búin að leika mikið bæði úti og inni með bræðrum mínum og frændsystkinum, við fengum að hjálpa strákunum að búa til ótrúlega flott snjóhús og erum búin að brasa ýmislegt. Það er samt stundum dálítið erfitt að vera yngst, ja fyrir utan náttúrulega Guðmund Stein sem er hvort sem er bara moli, en að mestu leyti hefur þetta gengið mjög vel hjá okkur og verið skemmtilegt.
fimmtudagur, mars 26, 2009
Um straff
Mamma veistu hvað straff er, spurði ég. Jú mamma kannaðist við það, þá mætti maður ekki gera eitthvað. Já, ég útskýrði betur fyrir henni að það væri þegar maður mætti ekki fara til vinkonu og sund og svoleiðis. Nema í skólasund, það má. En mamma það þarf ekki að hafa straff hjá okkur, bætti ég við, það er alveg nóg að hafa hlé!
Annars fann mamma miða sem ég hafði skrifað á umsagnir um alla í fjölskyldunni, það var svona:
Gabríel = loðni
Guðmundur = kjáni
Sigurður = góði
Rósa = snjalla
mamma = besta
pabbi = klári
Mamma var nú glöð að sjá að mér finnst hún ekki alltaf vera versta mamma sem hægt er að hugsa sér ;-)
Annars fann mamma miða sem ég hafði skrifað á umsagnir um alla í fjölskyldunni, það var svona:
Gabríel = loðni
Guðmundur = kjáni
Sigurður = góði
Rósa = snjalla
mamma = besta
pabbi = klári
Mamma var nú glöð að sjá að mér finnst hún ekki alltaf vera versta mamma sem hægt er að hugsa sér ;-)
fimmtudagur, mars 19, 2009
Fyrsta handboltamótið
Ég keppti á fyrsta handboltamótinu mínu um daginn og það var svo gaman! Við kepptum þrjá stutta leiki, fjórar saman í liði og skiptumst á að vera í marki. Ég skoraði mark, var ekkert smá ánægð með það :-) Og ég var ótrúlega dugleg að hlaupa til baka úr sókn til baka í vörnina, enda var ég orðin eldrauð í framan eftir síðasta leikinn og var bara í dágóða stund að jafna mig. En þetta var frábært og ég get ekki beðið eftir að fá að keppa aftur á móti. Ég ætla líka að vera í landsliðinu þegar ég verð stór, eins og þjálfarinn minn.
miðvikudagur, febrúar 25, 2009
GSM-síma búningurinn minn
Þennan síma föndraði ég með barnapíunni minni í gærkvöldi. Hann var pínu óþægilegur, ég gat t.d. ekki setið eða borðað í honum, svo ég tók hann bara með í skólann og fór í hann í smástund þar, en aðallega var ég í beinagrindarbúningnum hans Sigurðar Péturs, og í draugabúningi úr sængurveri þar yfir. Ég var mjög draugaleg og hræðileg!
sunnudagur, febrúar 15, 2009
Pælingar
Við mamma sátum og borðuðum grjónagraut í hádegismat (ég var veik heima). Allt í einu sagði ég upp úr þurru, mamma, ert þú ólétt? Mamma fór að skellihlæja, henni fannst svo fyndið hvernig ég sagði þetta. Þegar hún loksins gat komið upp orði sagði hún, nei ég er ekki ólétt, af hverju spyrðu? Nei bara, sagði ég, þú ert búin að borða svo mikið í dag!
Vetrarhátíðarfjör
Amma mín Inga Rósa var svo góð að taka mig með sér á Vetrarhátíð barna í gær. Þar var sko margt skemmtilegt um að vera, brúðuleikhús, risasápukúlur, sjóræningasmiðja þar sem ég bjó til augnlepp, tónlistarsmiðja þar sem ég bjó til hristu, salsadans (mamma rugluð, þetta er ekki rétt skrifað, við fórum á saNsaball) og svo fór ég í föndurgerð þar sem ég valdi vandlega lýsingar um mig og límdi á póstkort. Það sem ég valdi til að lýsa mér var: hjálpsöm, blá augu, jákvæð, skemmtileg, hávaxin, falleg, blíð, andlitsfríð og raunagóð. Ekki amaleg sjálfsmynd það :-)
fimmtudagur, janúar 22, 2009
Hrikalegt ástand
Mamma var áðan inni í eldhúsi að taka til matinn. Ég var búin að vera að kveina úr hungri og alltaf sagði mamma að maturinn væri alveg að vera til. Á endanum kom ég inn í eldhús, stóð fyrir framan mömmu og hreyfði munninn og benti upp í mig. Mamma skildi ekkert hvað ég var að reyna að segja, svo ég fór inn í herbergi og kom aftur með blað sem á stóð, "ég get ekki talað af hungri". Mamma fór að skellihlæja, ég held hún hafi engan veginn skilið alvöru málsins! En sem betur fer fékk ég loksins að borða.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)