þriðjudagur, apríl 20, 2004

Það sem Rósa Elísabet sagði ekki frá

Það var nefnilega þegar Rósa Elísabet átti að fara að sofa. Hún var búin að liggja einhverja smástund í rúminu og trekkja upp spiladósina og hjala eins og hún gerir venjulega, og svo fór hún að kalla á mömmu sína. Það gerist oft einu sinni eða tvisvar þegar hún er að fara að sofa að snuddurnar "detta" á gólfið og þá rétti ég henni þær aftur. Nema þegar ég kem inn til hennar þá eru ekki bara allar fjórar snuddurnar á gólfinu heldur líka dúkkan, kisan, bangsinn, svínið, koddinn og sængin! Ég tíndi allt saman aftur upp í rúmið, sagði góða nótt og fór fram. Innan við mínútu seinna var aftur kallað og aftur sama sagan, rúmið gjörsamlega galtómt fyrir utan einn lítinn orm sem þóttist ekki ætla að fara að sofa. Þá útskýrði ég fyrir henni að það sem hér eftir færi á gólfið yrði að vera á gólfinu, það kæmi ekki aftur upp í rúmið. Það leist henni ekki á og ákvað frekar að fara bara að sofa, með sængina og koddann, tuskudýrin og snuddurnar allt saman hjá sér.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Í dag gerðist þetta helst

Gissu gagí. Afi, amma. Afi baððu. Bamm. Anna baððu. Amma issa bó. Gúa gejji. Gúkkuna, dudduna, mjá. Diddi. Dólli.

Sigurður Pétur fór í karate. Á meðan fór ég til afa og ömmu. Afi blés upp blöðru. Hún sprakk. Þá blés hann upp aðra blöðru. Amma las fyrir mig bók. Þegar ég kom heim fór ég að kúra í kerrunni. Ég tók með mér dúkku, snuddu og kisu. Þegar ég vaknaði skoðaði ég myndir með mömmu og spilaði tónlist.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Páskafjör

Mikið voru þetta nú skemmtilegir páskar! Ég fór út á Snæfellsnes og var þar í húsi sem heitir Stóri-Kambur í marga daga. Þar voru með mér pabbi og mamma, afi og amma, Dunni (Sunna), Gaggí (Maggi) og Dauju (Þórður). Mér fannst nú aldeilis ekki amalegt að hafa allt þetta fólk til að leika við mig og sneri þeim öllum í kringum mig eins og skopparakringlum. Ég lét þau elta mig og kitla, lesa, lita, kubba, fara út að róla, skoða hesta og margt fleira. Amma kenndi mér þrjá stafi, R, Ó og A, og nú er mamma á fullu að kenna mér að lesa.

Við fórum í marga skemmtilega leiðangra, til dæmis fórum við upp að jöklinum og ég prófaði að láta draga mig á snjóþotu. Fyrst þorði ég reyndar ekki að setjast á þotuna og vildi bara draga hana sjálf, en svo þegar ég loksins þorði þá var sko fjör maður! Ég bara hló og hló endalaust, sérstaklega þegar mamma dró mig niður brekku svo ég fór dálítið hratt. Við fórum líka á Djúpalónssand og ég labbaði alla leið yfir í Dritvík. Reyndar með góðri hjálp frá öllum hinum, ekki síst afa, en ég var samt líka mjög dugleg að labba sjálf. Og við fórum á Búðir þar sem var fullt af fuglum, það fannst mér mjög spennandi, sérstaklega að heyra í þeim. Mér fannst líka spennandi að henda steinum í sjóinn, þá heyrðist sko skemmtilegt hljóð.

Eftir að við komum svo heim hefur það helst borið til tíðinda að ég er komin með rör í eyrun og laus við nefkirtlana. Það gekk bara vel, ég var reyndar dálitla stund að jafna mig eftir að ég vaknaði, ég skildi eiginlega ekkert hvað hafði gerst og var öll eitthvað ringluð og vansæl. Mér var líka hálfillt í maganum mínum, var svöng en hafði samt ekki lyst á neinu. En svo jafnaði ég mig nú fljótt og nú er ég bara kát og glöð að leika við stóra bróður sem ég var búin að sakna mjög mikið um páskana.

mánudagur, apríl 05, 2004

Hress og kát

Já nú er ég sko hress og kát. Ég er alveg búin að jafna mig eftir óhræsis sprautuna og ég fékk meðal (melali) til að losa mig við yfirvofandi eyrnabólguna, svo nú er bara ekkert að angra mig. Helgarnar eru hver annarri skemmtilegri núna, á laugardaginn fór ég í heimsókn til afa og ömmu og hitti þar Sunnu og Magga, borðaði fullt af súkkulaðikexi og skaut nokkrar hænur. Á sunnudaginn var ótrúlega gott veður og við mamma fórum út að prófa þríhjólið sem mamma og pabbi fóru loksins að sækja um daginn, það nefnilega gleymdist í Bakkastöðum þegar þau fluttu þaðan fyrir tveimur árum. Mér fannst mjög spennandi að prófa hjólið, ég er reyndar aðeins of lítil fyrir það ennþá svo ég verð að drífa mig að stækka svolítið. Svo fórum við í labbitúr og hittum litla stelpu sem á heima rétt hjá okkur, hún er eins árs og heitir Ísey. Það var nú aldeilis frábært, kannski getum við leikið okkur saman þegar við erum búnar að stækka smá. Við hittum líka litla kisu sem var að leika sér og hoppa upp í loft að reyna að veiða flugur. Það fannst mér fyndið og reyndi að herma eftir kisunni. Svo kom hún líka til mín og leyfði mér að klappa sér smá, það fannst mér ótrúlega spennandi. Þetta var sem sagt morgunleiðangurinn, svo þegar ég var búin að leggja mig í kerrunni fórum við í sund og þar fann ég upp nýjan leik sem er mjög skemmtilegur. Hann er þannig að ég sit uppi á svona flötum korki og velti mér svo af honum út á hlið og beint á bólakaf.

föstudagur, apríl 02, 2004

Læknisheimsókn

Við mamma fórum til hans Einars skemmtilega læknis áðan, hann kíkti í eyrun mín, nefið og hálsinn og ég var auðvitað ótrúlega dugleg eins og alltaf. Ég er með smá kvef og þar af leiðandi er ég að fá eyrnabólgu eins og venjulega, hún er eiginlega ekki alveg komin en næstum því, svo ég fæ meðal til að losa mig við hana. Svo þarf ég nefnilega að vera orðin vel frísk eftir tvær vikur því þá ætlar hann Einar að taka nefkirtlana mína og setja rör í eyrun. Þá hætti ég vonandi að fá allar þessar eyrnabólgur. Þó ég verði svo sem ekkert mikið lasin, þá er samt vont að vera alltaf með eitthvað pjæ í eyrunum og heyra ekki nógu vel, og það er heldur ekki nógu gott að vera alltaf að fá meðal.