fimmtudagur, apríl 15, 2004

Páskafjör

Mikið voru þetta nú skemmtilegir páskar! Ég fór út á Snæfellsnes og var þar í húsi sem heitir Stóri-Kambur í marga daga. Þar voru með mér pabbi og mamma, afi og amma, Dunni (Sunna), Gaggí (Maggi) og Dauju (Þórður). Mér fannst nú aldeilis ekki amalegt að hafa allt þetta fólk til að leika við mig og sneri þeim öllum í kringum mig eins og skopparakringlum. Ég lét þau elta mig og kitla, lesa, lita, kubba, fara út að róla, skoða hesta og margt fleira. Amma kenndi mér þrjá stafi, R, Ó og A, og nú er mamma á fullu að kenna mér að lesa.

Við fórum í marga skemmtilega leiðangra, til dæmis fórum við upp að jöklinum og ég prófaði að láta draga mig á snjóþotu. Fyrst þorði ég reyndar ekki að setjast á þotuna og vildi bara draga hana sjálf, en svo þegar ég loksins þorði þá var sko fjör maður! Ég bara hló og hló endalaust, sérstaklega þegar mamma dró mig niður brekku svo ég fór dálítið hratt. Við fórum líka á Djúpalónssand og ég labbaði alla leið yfir í Dritvík. Reyndar með góðri hjálp frá öllum hinum, ekki síst afa, en ég var samt líka mjög dugleg að labba sjálf. Og við fórum á Búðir þar sem var fullt af fuglum, það fannst mér mjög spennandi, sérstaklega að heyra í þeim. Mér fannst líka spennandi að henda steinum í sjóinn, þá heyrðist sko skemmtilegt hljóð.

Eftir að við komum svo heim hefur það helst borið til tíðinda að ég er komin með rör í eyrun og laus við nefkirtlana. Það gekk bara vel, ég var reyndar dálitla stund að jafna mig eftir að ég vaknaði, ég skildi eiginlega ekkert hvað hafði gerst og var öll eitthvað ringluð og vansæl. Mér var líka hálfillt í maganum mínum, var svöng en hafði samt ekki lyst á neinu. En svo jafnaði ég mig nú fljótt og nú er ég bara kát og glöð að leika við stóra bróður sem ég var búin að sakna mjög mikið um páskana.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli