Fjúff, það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef bara ekkert mátt vera að því að segja frá. Ég er búin að fara nokkrum sinnum til dagmömmufólksins, þeirra Katrínar og Hilmars, og mér finnst það mjög gaman. Fyrst var ég bara í smástund en svo fór ég snemma í morgun og fékk að borða morgunmat með krökkunum. Ég fékk alvöru hafragraut, namm hvað mér finnst hann góður! Svo fór ég í vagninn minn og þegar ég vaknaði kom mamma að sækja mig. Mér líst rosalega vel á að fá að vera hjá þeim og mömmu líst líka vel á að fara aftur í vinnuna sína. Hún ætlar að sækja mig klukkan eitt í sumar og svo í haust fæ ég að vera allan daginn í pössuninni.
Í gær fórum við í heimsókn til Jökuls vinar míns (það er meira að segja mynd af mér í heimsókninni á síðunni hans) og þar voru líka margir aðrir vinir mínir og mömmukonuvinkonur mömmu. Okkur finnst alltaf rosalega gaman að hitta þau. Og við hlökkum sérstaklega til að hitta þau í næstu viku því þá kemur Hjalti Sævar vinur minn sem ég hef aldrei hitt, hann á nefnilega heima í Noregi.
Ég er alltaf að æfa mig að standa upp, helst vildi ég bara labba en þá verður einhver að hjálpa mér. Ég er samt ótrúlega montin með mig ef einhver hjálpar mér að labba, þá finnst mér ég vera óskaplega stór og mikil manneskja. En þetta er allt dálítið erfitt, ég datt til dæmis tvisvar á hnakkann áðan þegar ég var að reyna að standa upp við stofuborðið og dótakassann minn. Það var sko vont og ég var alveg öskureið. En mér gengur mjög vel að standa upp við naggrísabúrið, hins vegar tekst mér ekki ennþá að komast ofan í það, en ég legg mig alla fram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli