Æ æ og ó, aumingja ég! Ég er að fá tvær tennur í viðbót, tennurnar við hliðina á framtönnunum uppi, og það er alveg að gera mig klikk. Ég er voða slöpp og þreytt eitthvað, en vakna svo alltaf við þessar illgjörnu tennur og er alveg ómöguleg eiginlega. En þær eru alveg að koma held ég, vonandi bara gengur þetta fljótt yfir.
Ég held áfram að sjarmera alla upp úr skónum hjá dagmömmunni, hin börnin vilja bara knúsa mig endalaust og dagmamman hlakkar til að fá að hafa mig allan daginn. Ég er búin að fá að fara út að leika með hinum krökkunum og það finnst mér sko gaman. Svo er stundum tónlistarstund, þá dilla ég mér og finnst það líka voða gaman. Svo er ég auðvitað á fullu að standa upp og reyna að labba. Ég er að einbeita mér svo mikið að þessu að ég geri eiginlega ekki neitt annað á meðan, er næstum því hætt að vinka og skríða og er ekkert að læra neitt annað nýtt. Enda finnst mér þetta langmikilvægast og það verður að hafa forgang fram yfir allt annað núna að læra að ganga.
Pabbi kom heim á laugardaginn með rosalega flottan Burberry gallakjól handa mér. Ég er svooooo mikil pæja í honum. Ég fékk reyndar ekki að hitta hann mikið á laugardaginn (þ.e.a.s. pabba, ég fékk náttúrulega að fara strax í kjólinn) því þau brunuðu eiginlega strax með mig í pössun til Silju frænku minnar. Og mamma hennar og pabbi voru líka að passa mig pínu. Það var bara mjög gaman, ég fékk fullt af góðum mat að borða og fannst rosalega gaman að leika við Silju og við frændur mína þá Hauk og Pétur. Svo komu pabbi og mamma aftur um kvöldið og við fórum öll heim.
Og já, ekki má ég nú gleyma að segja frá því hvað ég er orðin forfrömuð dama, ég fór á kaffihús og fékk kleinu! Við mamma fórum og hittum vinkonurnar hennar, Siggu Láru sem var í bæjarferð frá Egilsstöðum, Svandísi sem er að fara að flytja til Frakklands og Ástu og Skottu. Mér fannst afskaplega gaman að vera á kaffihúsi með svona fínum frúm og reyndi að vera voða stillt og prúð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli